þriðjudagur, desember 4

Jólahvað

Jæja allir eru komnir niður á jörðina eftir giftinguna;O)og nú tekur jólabrjálæðið við....!Húsbóndinn er með það fyrir vana að undirbúa jólin á þorláksmesssu og vera snöggur að því!! Húsmóðirin kynnti fyrir honum skiladaga á pósti og pökkum til útlanda og þeirri bláköldu staðreynd að húsmóðirin hefur sent minnst 50 jólakort síðan hún var 8 ára og veifaði "hússtjórnarskólskírteininu" og sagði honum af svakalegum þrifum sem þyrfti að gerafyrir jólin!!!! Jámm lengra er nú jólaundirbúningurinn ekki komin á Ásvallagötunni en að ræða um það sem á að gera.....Annars er allt skínandi gott að frétta héðan af okkur og ég hlakka til að heyra í Skrámi mínum.

þriðjudagur, nóvember 6

Brúðkaupsdagurinn

Laugardagurinn var tekin frekar snemma eða um hálf átta en hárgreiðslukonan mín hún Hrefna á Mojo ætlaði að koma um hálf níu og greiða mér. Hún kom svo á tilsettum tíma og um níu leytið kom Gréta Boða til að farða mig. Það var voða huggulegt að fá þær hingað heim og mjög tímasparandi fyrir okkur því að allt miðaðist við að ná síðasta flugi til Kaupannahafnar sama dag. Um klukkan tíu komu svo Dögg og Óli vinir okkar sem voru svaramenn okkar (við buðum okkur í mat til þeirra á fimmtudagskvöldinu og báðum þau um að skrifa undir blað fyrir ,en þau tóku ekki annað í mál en að fá að koma með í kirkjuna enda var það mjög ánægjulegt) og Dögg hjálpaði mér í kjólinn. Óli var búin að hafa mikið fyrir okkur og var mættur fyrir utan blómabúð klukkan tíu um morguninn og beið eftir að opnað yrði. Spurði svo hvort að blómabúðin tæki að sér að skreyta brúðarbíla. "Já ekkert mál, hvenær er brúðkaupið? Jú athöfnin hefst eftir 20 mínútur....aumingja konurnar fórnuðu bara höndum en redduðu þessu eins og öllu er reddað á Íslandi. Við Dögg fórum svo saman niður í Fríkirkjuna. Þegar ég var tilbúin að ganga inn kirkjugólfið þá allt í einu uppgötvaði ég að ég hefði gleymt vendinum. Við vorum svona í seinna lagi í kirkjuna svo að svaramennirnir máttu fara upp brekkuna aftur heim til þess að sækja vöndinn og á meðan laumaðist presturinn okkar hann Hjörtur Magni inn til Niels og hvíslaði: "Þetta er allt í lagi hún ætlar alveg að koma....hún gleymdi bara vendinum". Niels sagði nefnilega við mig mjög fljólega efir að við kynntumst að hann væri handviss á því að ég yrði alltof sein í eigið brúðkaup en honum finnst ég oft vera svo sein ef að við erum að fara eitthvað. Það rættist svo sannarlega þarna. Síðan var brúðarvalsinn leikinn og við Dögg gengum inn kirkjugólfið og þar biðu Niels og Óli. Athöfnin var mjög hátíðleg og falleg og organistinn Carl Möller spilaði fyrir okkur þrjú lög: Ísland er land þitt, Í bljúgri bæn og Færeyska þjóðsönginn. Eftir athöfnina tók ljósmyndarinn hún Gréta myndir fyrir okkur í kirkjunni og svo fórum við í Grasagarðinn í hífandi vindi, úrkomu, sól og enduðum á hellidembu!!! Síðan fórum við hingað heim með svaramönnunum okkar og borðuðum dögurð sem Niels hafði sótt um morguninn í Ostabúðina á Skólavörðustígnum. Svaramennirnir skáluðu svo í dýrindis kampavíni við okkur og svo létum svo fjölskylduna hans Niels vita gegnum skype svo að þau gætu séð okkur og talað við okkur. Þar var mikil gleði yfir þessum ráðahag. Síðan keyrði Dögg vinkona okkar út á völl. Á leiðinni hringdi ég í mína fjölskyldu sem var dreifð um landið við ýmis störf ss. sláturgerð, elta fé, undir stýri og í búðum á Akureyri!!!! Þar var fréttunum einnig tekið með ánægju. Við höfum aldrei haft svona góðan tíma út í flugstöðinni enda ekkert sem við þurftum að gera!!! Héldum að við yrðum svo sein! Þegar við komum í vélina fengum við að sitja í Saga Class sætum ásamt kampavíni og hamingjuóskum, þökk sé Dröfn okkar sem hafði látið vita af okkur. Það var frábært að fá að sitja í svona góðum sætum á leiðinni út. Um kvöldið komum við á svo á hótel Hilton á Kastrup og þar fengum við meira kampavín og súkkulaði og rauðar rósir sennilega frá París Hilton sjálfri!!!Þetta var ánægjulegasti dagur í lífi okkar Niels og höfum við þó átt marga góða daga í lífinu. Allt gekk eins og í sögu og allir voru svo góðir við okkur...okkur langar enn og aftur að þakka ykkur innilega fyrir kveðjurnar og tölvupóstinn sem að við höfum fengið.

sunnudagur, nóvember 4

Efter bryllaupet....

Þá erum við komin heim eftir frábæra brúðkaupsferð sem farin var til Feneyja og Flórens. Ég hendi kannski inn lýsingu af deginum seinna og nákvæmari ferðasögu. Okkur langar bara að þakka ykkur fyrir kveðjurnar og hamingjuóskirnar allar. Ég hef reynt að svara sem flestum tölvupóstum en hef ekki gefið mér tíma að svara kommentunum hérna á síðunni.
Arna: Já endilega reynum að hittast sem fyrst, ætlaði jú að koma um daginn en þá breyttust plönin vegna veikinda.
Linda: Já Feyneyjar og Flórens eru æðislegir staðir og haustið er góður tími til að sækja borgirnar heim.

fimmtudagur, október 25

Brúðkaupsmyndir




Hér koma myndirnar loksins....vorum búin að lofa þeim í gær en það gekk ekki eftir;O)

miðvikudagur, október 24

Brúðkaup

Laugardaginn 20. október 2007 gengum við Niels í heilagt hjónaband í Fríkirkjunni í Reykjavík að viðstöddu fámenni. Enginn vissi hvað til stóð fyrr en svaramennirnir á fimmtudagskvöldið! Presturinn okkar séra Hjörtur Magni, organistinn, ljósmyndarinn og okkar góðu vinir Dögg og Óli voru svaramenn okkar. Athöfnin var falleg og látlaus og dagurinn allur hinn yndislegasti. Eftir myndatökuna snæddum við dögurð með svaramönnunum og skáluðum í kampavíni. Seinna þennan sama dag tókum við svo flugvél til Kaupmannahafnar og daginn eftir héldum við áfram til Feneyja. Í fyrramálið höldum við áfram til Flórens og komum heim aftur næstkomandi mánudagskvöld. Sumir dagar eru svo góðir að þeir spássera með fólki í minningunni um ókomna ævi og svoleiðis var brúðkaupsdagurinn okkar. Við erum búin að svara doldið af 19 .aldar spurningum (sem er spurðar með 16. aldar hugsunarhætti) um hvort að við eigum von á barni og nei það er ekki tilfellið ! Við giftum okkur af ástinni einni saman og það er ekki lítið;o)
Bestu þakkir fyrir allar heillaóskirnar og við hlökkum til að sjá ykkur öll og lofum teiti milli jóla og nýars eða 29. desember nánar tiltekið.
Ástarkveðjur Selja og Niels

mánudagur, september 24

Búsorgir

Af Ásvallagötunni er helst það að frétta að heimilistækin gefa upp öndina eitt af öðru. Fyrst brauðristin, svo eldavélin og nú síðast ísskápurinn. Ískápurinn var reyndar búin að liggja banaleguna svolítinn tíma og var húsbóndinn mikið að kvarta yfir hvað mjólkin á Íslandi entist illa og að mjólkurvörurnar hérna á klakanum færu ekkert allof vel í hann. Húsmóðirin brást hin versta við og sagði að mjólkurvörurnar á Íslandi entust best í heiminum (og allavega miklu betur en í Danmörku og Færeyjum gjörvöllum) og menn ættu bara að minnast þess þegar ekkert var til að éta! Eins mikið prúðmenni og Niels minn er þá át hann þetta bara þegjandi og hljóðalaust en minnti húsmóðurina á þetta morguninn sem að ískápurinn sálaðist að hann hefði nú líklega bara rétt fyrir sér!!!! Annars gengur allt ljómandi og þrátt fyrir þessar hömlur í matargerð sér sossum ekkert stórlega á okkur sambýlingunum. Over and out þangað til næst.

miðvikudagur, september 5

Hjólhýsapakkið.......

Á okkur hjónaleysin hefur herjað fyrsta flensa vetrarins all hressilega. Fyrst lá ég eins og skata miðvikudag og fimmtudag í síðustu viku og sló svo hressilega niður á laugardaginn og hef ég legið síðan. Húsbóndinn lagðist svo mér til samlætis í morgun og þegar við skriðum úr bælinu um hádegisbilið og sátum sitt í hvorri fartölvunni varð mér að orði að við værum eins og hjólhýsapakk sem nennti ekki að vinna og væri bara heima að horfa á sjónvarpið og nennti ekki einu sinni að laga til eða klæða sig, væri bara á náttfötum og bómullarbolum að lufsast um. Við viljum ekki vera hjólhýsapakk svo að ég ætla í vinnuna á morgun;O)

sunnudagur, ágúst 26

Sumarþankar

Það er orðið mjöög langt síðan hér hefur verið bloggað og komin kvörtun og allt frá dyggum lesanda síðunnar!!! Sumarið sólríka hefur liðið við leik og störf og allt of fljótt. Við Niels höfum þó aðallega verið við störf þar sem sumarfríið var af skornum skammti. Við fórum þó í tvær vikur til Fjáreyjanna og sóttum fjölskylduna hans Niels heim og skoðuðum aðeins eyjarnar. Við vorum þó afskaplega óheppin með veðrið og heilsufar mitt var einnig ekki upp á marga fiska. Heilsufar sumarhúsabóndans hefur heldur ekki verið upp á marga fiska í sumar og er hann bæði búin að fá gangráð og fara í hjartaþræðingu á 6. vikum en er miklu hressari núna og heldur að hann komi sterkur inn í göngurnar!!! Ólafsvikan stóð þó fyrir sínu en ég get alveg hamið mig yfir þjónustulund eyjaskeggja en gestrisnin er einstök! Við skruppum líka í Vatnsdalinn með heilasellunum um miðjan ágúst eina helgi og voru það fagnaðarfundir eins og ávallt:) Tilhugalífið gengur vel (lesandinn vill vita það ) og sambúðin skínandi. Blautar baðmottur það eina sem verulegur ágreiningur getur risið um og þá er sennilega ekki yfir miklu að kvarta!
Læt ekki líða svo langt þangað til næst.......

miðvikudagur, júní 20

Apinn Niels

Liðin er nú vika af sambúðinni og gengur hún vel enn sem komið er. Engir alvarlegir árekstrar ennþá enda svokallaðir hveitibrauðsdagar við lýði þrátt fyrir að okkur þykir rúgbrauð betra......! Niels fór að vinna á mánudaginn á trésmíðaverkstæði í Hafnarfirði og líst bara vel á sig þar. Kallarnir tóku að sér að kenna honum dónlegu orðin (sem ég hef ekki kennt nógu vel greinilega) á mánudaginn og skutu svo inn í orðum eins og spýta eða sög annað slagið. Það er misjafnt hvernig menn reyna að komast í samband við annað fólk eins og Stuðmenn sungu um árið og einn gamli kallinn á verkstæðinu sem ekki býr yfir mikilli tungumálakunnáttu vildi vingast við Niels en var búin að gleyma hvað hann hét! Með miklu handapati tókst honum að koma því til skila að það væri skemmtileg tilviljun að Niels væri bæði sláandi líkur og hefði sama nafn og apinn hennar Línu Langsokks og því til áréttunar lék hann einn eða tvo sketsa úr Línu Langsokki með apahreyfingunum og allan pakkann. Niels var búin að heyra þenna brandara einu sinni áður um helgina en þá var það 5 ára vinur okkar sem vildi vingast við hann og segja honum frá tengslum sínum við apann Niels. En apinn Niels hefur sem betur fer góða kímnigáfu og finnst þetta allt í senn vinalegt og bráðfyndið hjá minni ástkæru þjóð.

sunnudagur, júní 10

Tutl og fát.....

Marga atvinnuna hef ég nú stundað um dagan og lagt dygga hönd á plóg við sitthvað og hreint ekki allt skemmtilegt né hreinlegt. En ég er mjög fegin að vera ekki í því verki að tutla stóðhestinn Stála í Ölfusi á hverjum morgni klukkan 10:00, enda ég ekki dýralæknir og ekki með starfsréttindi heldur á þessum vettvangi. Í vikunni lýkur 10 ára einsemd minni.....það hefði verið skelfilegt ef einsemd mín hefði orðið 100 ára;O) Meira seinna......

þriðjudagur, júní 5

Þetta mánaðarlega.....

Þegar ég kom aftur úr hinni ágætu Köbenferð var Hallgrímur málari búin að múra soldið í sprungurnar og slatta á garðhúsgögnin mín en hafði þó skammast til að mála austurhliðina á húsinu og ekki klínt neinni málningu á garðhúsgögnin! Hinsvegar fékk rafvirkinn sem ætlaði að vera búin að draga í innstungu fyrir þvottavélina nýju í kjallaranum heilahimnubólgu um hvítasunnuna og að eigin sögn er þetta besta afsökun sem hann hefur nokkurn tímann haft á takteinum!!!! Þriðji iðnarmaðurinn í lífi mínu hann Niels (og sá eini þeirra sem ekki er uppfullur af afsökunum sýknt og heilagt) var hinsvegar í fínu formi í Köben og vinnur síðasta vinnudaginn sinn í dag. Þá ætlar hann að bresta til Fjáreyja og hagræða eignum sínum og vitja fjölskyldunnar og eftir viku opnar svo sambýlið á Ásvallagötunni með miklum hátíðarhöldum! Námskeiðið hjá Oticon var mjög fínt og við náðum að heilsa upp á vini mína smáa og stóra í Köben. Ég fékk að fara í búðir og Niels bjór og allt var eins og blómstrið eina. Nú er bara fyrirliggjandi að klára hann Pál svo að hægt sé að skilja lögskilnaði við hann áður Niels flytur inn.....ég ligg yfir því 24/7 en það er til mikils að vinna að hafa þetta af núna. Læt þetta duga í bili.....allar truflanir frá skrifunum er ákaflega vel þegnar;O)

mánudagur, maí 21

Tuð og suð...

Ég er að verða búin að gleyma lykilorðinu inn á bloggið mitt;O) Á fimmtudaginn fer ég í þessa langþráðu ferð til Köben á námskeið hjá Oticon heyrnartækjaframleiðanda en nýja vinnan er hjá Heyrnartækni í Glæsibæ. Það er óhætt að opinbera það núna. Þar ætla ég að heyrnarmæla fólk og stilla handa því heyrnartæki. Um hvítasunnuhelgina ætlum við að Niels minn að vera saman í fríi í henni Köben;O), það útleggst svoleiðis að ég fer í búðir og hann fær bjór. Jámm það er ekki lengi gert að læra leikreglurnar. Hinsvegar liggur mér það mest á hjarta að það er verið að mála blokkina og það er hann Hallgrímur okkar málari sem er í því verki. Fyrst háþrýstiþvoði herra Hallgrímur alla blokkina fyrir mánuði og garðhúsgögnin mín oft og óumbeðinn og var mættur á svefnherbergisgluggann minn klukkan 9:00 á laugardagsmorgni með háþrýstidæluna. og svefnherbergisgluggann opinn. Hallgrímur ákvað líka að steinsaga sundur alla blokkina áður en hann hóf málningarvinnuna og það tók laaaangan tíma og Hallgrímur mætir um 8 og fer oft ekkert heim á nóttunni held ég svei mér þá. Hann er til dæmis upp á þaki núna í þessum töluðu að múra......og klukkan er 00:06. Hann er bara að skafa og dúlla! Ég bar það upp við hann hvort að hann ætlaði sér að vinna alla helgidaga...og um helgar. "Esskan mín ersgobaraeinníessu og verrbara að halda á spöðunum esskan mín". Frí á sunnudögum kannski. Grrrrr Ég er kannski geðstirð gömul þrítug kona...en ég er bara búin að þurfa að þola svo mikið af framkvæmdum á Eyrarsundsgörðunum að ég hélt að ég væri búin með pakkann. Þar var borað fyrir internetinu einmitt milli 7 og 10 á morgnana í marga mánuði. Svo þurfti að mála gluggana sem enginn sá að þyrfti hvorki fyrir né eftir og var mest til að stuðla að því að smiðirnir drykkju mikinn bjór og fengju fallega brúnan bjórbelg það sumarið. Þar sem ég flutti úr A í J blokk náði ég því tvöföldum skammt....fyrir utan alla almenna borun sem ekki var nú neitt lítil eða lágvær. Við Salóme (sem er 85 ára) mæðumst yfir þessu í félagi...og Salóme er dauðhrædd um að Hallgrímur verði hér að gaufa þar til fer að frysta......Ég er voða hrædd um það líka.....og býð ekki í það hvernig Hallgrímur kemur undan vetri.

miðvikudagur, apríl 18

Annáll vetrar....

Það er við hæfi að skrifa örlítið á síðasta degi vetrar. Veturinn hefur liðið ógnarhratt...en samtímis ægilega hægt. Það hefur verið mikið að gera og það minnkar ekki með vorkomunni. En helstu breytingar framundan eru þær að 1. maí ætla ég að hefja störf í einkageiranum og hætta á Greiningarstöðinni. Ég hafði þó ekkert hugsað mér til hreyfings en tilboð um spennandi starf og góð laun freistaði mín gífurlega og þetta varð upp á teningnum. Ég upplýsi ykkur seinna um hvaða starf nákvæmlega þetta er. Um hvítasunnuna fer ég til Kaupmannahafnar og verð í viku á námskeiði fyrir nýju vinnuna og hitta Niels minn og það eru nákvæmlega 5 vikur þangað til í dag!!!!!
Um miðjan júní ætlar Niels að flytja til mín og við opnum formlega sambýli hér á Ásvallagötunni. Hér hafa þó verið starfrækt sambýli áður!!!! Barngóðir kallar í Hafnarfirði ætla að fóstra Niels fyrir mig á daginn og láta hann setja upp innréttingar vítt og breitt um borgina. Í sumar ætlum við svo að skoða landið mitt um helgar en bregða okkur til Fjáreyjanna á Ólafsvökuna saman og fótatraðka svolítið!
Það er óhætt að segja að það séu spennandi tímar framundar..........Gleðilegt sumar og þakka ykkur fyrir veturinn og mín ósk er að sumarið heilsi ykkur jafn vel og mér.

þriðjudagur, mars 27

Páskahret.......

Það er allt gott að frétta.....það er bara mikið að gera við leik og störf en horft er bjartari augum til vorsins að það fari að hægjast um. Samt líða dagarnir alltof hægt fram að páskum en þeirra er beðið með eftirvæntingu og óþreyju. Páskunum verður eytt í borg bleytu og ótta og er fólk á faraldsfæti boðið velkomið í kaffi og meðí á Ásvallagötuna!

föstudagur, mars 16

SMS

Það er ekkert betra að vakna við sms frá kærastunum klukkan 7:00 þar sem boðinn er góður dagur og svo klukkan 7:20 hringir hann bara til að segja að hann elski mig og sakni mín voðalega mikið og það sé laaaaangt fram að páskunum! En það er líka laaaangt alveg 2o dagar í dag.
Selja á glitskýi (þolir nefnilega ekki bleik ský!!!!)

mánudagur, mars 5

Leyndarmálið.......

Maddaman var búin að lofa að upplýsa ástæðuna fyrir bloggleysinu fljótlega og hér kemur leyndarmálið sem er 1;80 á hæð og heitir Niels;o)
Hann er með færeysku tali en er geymdur í Kaupmannahöfn hversdags, það var dálítið mikið erfitt að kveðjast á Reykjavíkurvelli í kvöld en bót í máli að næstu fundir hafa verið ákveðnir. Skype léttir okkur turtildúfunum líka mikið lífið og það getur verið að við sendum persónulegt þakkarbréf til hins danska Janusar. Þetta getur þýtt fleiri ferðir til Köben en þó ekki fyrr en undir vorið!

mánudagur, febrúar 26

Fæðingardagur.....

Tíminn fer allur í annað en bloggið......
Í gær varð ég þrjátíu ára og á laugardagskvöldið hélt maddaman lítið boð fyrir vini og vandamenn. Það var hið velheppnaðasta boð og maddaman fékk höfðinglegar gjafir (meira í líkingu við fermingargjafir!!!) og ótrúlegasta fólk mundi eftir madömunni í gær sem að getur ekki ætlast til að nokkur maður muni eftir afmælinu hennnar því að hún er svo léleg að muna afmælisdaga hinna. ÍAð ykkur öllum ólöstuðum var hápunktur gærdagsins að maddaman fékk haminguóskir frá starfsfólki Atlandsolíu á smsi í gærmorgun svo að þeir yrðu nú örugglega fyrstir til að óska maddömunni til hamingju. Í eftirmiðdag kom svo systir með afkomendur sína og nartaði í afganga og hinn sunnlenskt búsetti partur fjölskyldunnar huggaði sig saman.
Hins vegar verður ástæðan fyrir bloggleysinu kannski upplýst bráðum.....spændende!

miðvikudagur, febrúar 14

Þorrablót og annað skemmtanahald.....

Orkan fer öll í eitthvað annað en bloggið þessa dagana. Um helgina var tætt á þorrablót í Hlíðinni fríðu þar sem Sumarhúsabóndinn og frú voru með uppistand. Sumarhúsabóndinn tróð upp í vænu rósóttu pilsi og snoturri blússu þó með prjónahúfuna en kona hans spurði hvort að hann væri að fara í húsin eins og þetta væri hversdagslegur búningur. Við systkinin djömmuðum saman og skemmtum okkur konunglega. Nökkgrísinn var ættinni til sóma og fyrirmyndar og sá um skemmtiatriði. Eftirköstin eftir helgina er hinsvegar að maddaman liggur heima í pest en er öll að hressast sem betur fer.
Helgina áður var brunað á Húsavík að sækja Gunnu frænku heim og hlýða á Hvanndalsbræður á Gauknum og var það hin besta skemmtun. Maddaman mælir með Frostavetrinum mikla 1918 með þeirri sveit. Einnig var tætt í jarðböðin í Mývatnssveit og Óla sýnt Námaskarð en greyið hafði aldrei komið þangað svo hann myndi. Um næstu helgi er fyrirhuguð stóísk ró og huglæg atferlismeðferð til að ná sér niður eftir roadtrippin.

mánudagur, janúar 29

My own buisness......

Ahhh stundum er gott að vinna hjá sjálfum sér og vera komin heim um tvö (reyndar nóg pappírsvinna framundan) og vera samt búin að ná að ryksuga bílinn í hádeginu og skreppa eina skreppu í Debenhams;O)
Annars var helgin meinhæg, maddaman var hálfslöpp og hélt sig mikið heima fór þó með Yaris litla í bað og fór eina hraðferð í gegnum Kolaportið til að veiða eina bók og jók það töluvert á ógleðina sem maddaman barðist við eftir að hafa staðið inn í þessari viðbjóðslegu bílaþvottastöð meðan Yaris litli fór í bað. Það er ótrúlega mikil skítalykt á báðum stöðum. Síðan voru þvegnar fleirihundruð og fimmtíu þvottavélar og mulinn skíturinn úr ullapeysum maddömunnar (sem að voru einmitt farnar að minna á nána ættingja sína í Kolaportinu), svo þurfti að skúra sameignina og já þetta hljómar eins og helgi hjá pensjónista. En pansjónistinn las líka helling af bókmenntaverkum og sá eina góða danska dvd mynd Drømmen og vígði þar með nýja DVD spilarann sem samt var keyptur í ágúst!!!! Einnig var frumsamin ein kaka á sunnudeginum ogfólki boðið til að snæða hana. Jamm....það er margt í mörgu, spenna dagsins í dag var að maddaman stalst á hælastígvélum í vinnuna enda Þráinn skóari búin að gera stígvélin upp fyrir andvirði nánast nýrra en það er líka mjög vel gert hjá honum....en örlítið mikið dýrara en að láta gera við skó úti í Köben!!!!! Pas nu godt på jer selv.....

My own buisness......

Ahhh stundum er gott að vinna hjá sjálfum sér og vera komin heim um tvö (reyndar nóg pappírsvinna framundan) og vera samt búin að ná að ryksuga bílinn í hádeginu og skreppa eina skreppu í Debenhams;O)
Annars var helgin meinhæg, maddaman var hálfslöpp og hélt sig mikið heima fór þó með Yaris litla í bað og fór eina hraðferð í gegnum Kolaportið til að veiða eina bók og jók það töluvert á ógleðina sem maddaman barðist við eftir að hafa staðið inn í þessari viðbjóðslegu bílaþvottastöð meðan Yaris litli fór í bað. Það er ótrúlega mikil skítalykt á báðum stöðum. Síðan voru þvegnar fleirihundruð og fimmtíu þvottavélar og mulinn skíturinn úr ullapeysum maddömunnar (sem að voru einmitt farnar að minna á nána ættingja sína í Kolaportinu), svo þurfti að skúra sameignina og já þetta hljómar eins og helgi hjá pensjónista. En pansjónistinn las líka helling af bókmenntaverkum og sá eina góða danska dvd mynd Drømmen og vígði þar með nýja DVD spilarann sem samt var keyptur í ágúst!!!! Einnig var frumsamin ein kaka á sunnudeginum ogfólki boðið til að snæða hana. Jamm....það er margt í mörgu, spenna dagsins í dag var að maddaman stalst á hælastígvélum í vinnuna enda Þráinn skóari búin að gera stígvélin upp fyrir andvirði nánast nýrra en það er líka mjög vel gert hjá honum....en örlítið mikið dýrara en að láta gera við skó úti í Köben!!!!! Pas nu godt på jer selv.....

miðvikudagur, janúar 24

Gúrkutíð...

Jæja maddaman er að blogga í vinnunni en það hefur verið eitthvað sérlega rólegt bæði í dag og í gær. Maddaman hefur staðið fyrir framkæmdum á heimili sínu sem aðallega hefur gengið út á að reyna að henda og fara með í sorpu það sem ekki er þörf fyrir. Einnig hefur skrifstofuaðstaðan fyrir verktakavinnuna verið skipulögð í einu horni stofunnar og gluggatjaldamál eldhúsins verið skipulögð. Nágrannarnir eru greinilega búnir að fá nóg af því að sjá mig berrassaða á hlaupum um húsið því þeir eru nánast alltaf orðið með dregið fyrir svo að það verður að reyna að hlífa þeim. Annars myndi henta maddömunni prýðilega að það félli verðið þarna í nágrenninu.

föstudagur, janúar 19

Skúbbídú

Maddaman prófaði fyrsta barnið sitt í verktakavinnunni í dag. Það gekk bara býsna vel þrátt fyrir hortauma barnsins sem að náðu frá Kópavogi og langleiðina vestur í bæ. Maddaman gleymdi að segja frá aðal skúbbinu þegar hún var að fara í vélina á Kastrup og fór gegnum vopnaleitina. Það pípaði að sjálfsögðu á maddömuna og þreifarinn upplýsti að þetta væru spangirnar á brjóstahöldum maddömunnar sem að eru örugglega sérlega vel fallnar til að high-jacka flugvélar!!! Maddaman bauð manninum að bregða sér úr haldaranum en á hann kom skelfingarsvipur og kvað það vera algeran óþarfa!!!!!

fimmtudagur, janúar 18

Gamla góða Köben.......

Maddaman brá sér til Köben á fimmtudaginn í síðustu viku og dvaldi fram á mánudagskvöld. Borgin fagnaði sínum fyrrum íbúa afskaplega vel og allir góðu vinir maddömunnar í borginni báru hana á höndum sér og héldu fyrir hana matarboð og voru til í hina ýmsustu hitttinga!Útsölurnar voru aðeins skoðaðar og sumt varð náttúrulega bara að fá að flytja til Íslands af því sem þar var!! Síðan fór maddaman með færeysku vinkonum sínum á Skarfinn á laugardagskvöldinu og var það hin besta skemmtun eins og alltaf þegar við "böllumst" saman. Það er búið að bóka maddömuna aftur á Ólafsvöku, en Paul Jakki pabbi Sönnu er sérstaklega áhugasamur á að fá "þessa viðræðugóðu stúlku" aftur til dvalar og stúlkan viðræðugóða slær jafnvel til!!!!
Annars brosir lífið sérstaklega við maddömunni þessa dagana þessvegna glottir maddaman við tönn og brosir aftur til lífsins.

sunnudagur, janúar 7

Uppvaskið....

Maddaman er eitthvað að missa sig í ritstílnum um þessar mundir og veit ekki hvort að hún á að vera hún sjálf eða maddaman!!! En allavega er takmarkalaus hamingja á heimilinu með nýju uppþvottavélina sem að maddaman keypti reyndar notaða og laghentur vinkonumaður munstraði í eldhússkápinn og kann maddaman honum bestu þakkir fyrir! Maddaman er mjög ánægð með þetta framtak sitt og það eru allavega 10 ár síðan hún fékk nóg af uppvaski!!!

fimmtudagur, janúar 4

;O)

Jæja maddaman óskar lesendum gleðilegs árs og þakkar þeim fyrir þau gengnu! Madddaman brá sér austur á Hérað í Sumarhús á messu heilags Þorláks sem er einnig afmælisdagur maddömmumóðurinnar og fyllti hún sex tugi. Jólin voru bókajól og gestajól og frekar mikið að gera í uppvaskinu. Madddaman náði samt að skanna ýmslegt og var býsna ánægð með það.
Síðan kom maddaman í bæinn þann 30. desember og hélt smá matarboð fyrir vini mína sem endaði með bæjarferð en hún telst vera númer tvö síðan í september enda búið að vera í mörg horn að líta.
Gamlaárinu var fagnaði í hópi vina í Hafnarfirði og síðar í Norðurmýrinni. Maddaman er nú svo mikið barn að hún hefur aldrei séð svona mikið af flugeldum enda var veðrið gott.
Maddaman horfir björtum augum fram á árið 2007, það er margt spennandi framundan á þessu ári og maddaman afskaplega ánægð með að vera flutt til Íslands.