föstudagur, mars 27

Rapportið....

Jæja þá er ég búin að vera mánuð í vinnunni og líkar bara vel! Við erum smátt og smátt að klára að koma okkur fyrir og að verða búin að ganga frá praktískum málum! Talandi um að vera praktískur, á innra netinu í vinnunni koma alls kyns upplýsingar sem varðar starfsemina og meðal annars er hægt að láta ýmsar tilkynningar og þarna nota menn tækifærið og þakka ma. fyrir afmælisgjafir. Þar skrifaði Lars nokkur tilkynningu um daginn og þakkaði kærlega fyrir háþrýstidæluna sem hann fékk þegar hann varð sextugur núna í mars og hann hlakkar mikið til að fara að smúla húsið þegar hlýnar og hita svo te í nýja tekatlinum á eftir!!!! Ekki það að Lars hefur vafalítið látið uppi óskir um að fá umrædda dælu í afmælisgjöf og það er sjálfsagt að leitast við að uppfylla óskir mannana. Annars ætlum við hjónin að sækja Ali vin okkar heim annað kvöld en hann rekur frábæran veitingastað niður í bæ.
Pant annars ekki fá háþrýstidælu frá ykkur þegar ég verð sextug.......

fimmtudagur, mars 12

Erótíska safnið

Jæja við fundum banka sem tók öllum okkar peningum fagnandi...og ætla að skaffa okkur kort og ýmis mannréttindi og voru ekki með neinar óþægilegar spurningar. Skatturinn ætlar svo gjarnan að taka við restinni sem bankinn hefur ekki pláss fyrir þannig að allt er þetta hið besta mál. Hérna gengur allt smurt þegar maður er kominn inn í kerfið!! Helstu ótíðindin í fjölmiðlum hérna er að Erótíska safnið hérna í Kaupmannahöfn er komið á hausinn og menn vonast eftir fjárframlögum til að halda því gangandi. Á topp 10 yfir peninga sem ég hef séð mest eftir að hafa eytt um ævina þá er nú aðgangur að erótíska safninu mjög ofarlega. Það var rándýrt inn á safnið og bókstaflega ekkert að sjá nema einhverjar fornaldarlegar dúkkur í vaðmáli í glerklefa að riðlast hægt á hvor annari til að sýna hvernig þjónusta í vændishúsum hefði verið á dögum Fjölnismanna!!! Síðan var úrval af heimagerðum getnaðarvörnum á borði og svo var hægt að horfa á erótískar myndir í hliðarsal!!! Nei þá bið ég nú heldur um Thorvaldsens museum sem er stórmerkilegt og mjög flott safn.
Over and out...

mánudagur, mars 9

Bloggið gengið í endurnýjun lífdaga...

Jahérna nú er sjá hvort að ég sé búin að týna niður blogghæfninni;O) Litla fjölskyldan er flutt inn á Eyrarsundsgarðana í 44 fermetrana og er strax búin að fylla eina 6 fermetra geymslu af eigum sínum sem ekki komast fyrir. Annars komust húsgögnin nokkuð vel fyrir hérna, eiginlega bara sófaborðið sem við höfum ekki pláss fyrir. En það er nokkuð ljóst að stilla verður eignasöfnun í algert hóf meðan dvalist er hér. Íbúðin er fín og nýtist okkur mjög vel og við erum mjög ánægð. Mér líst bara vel á mig í vinnunni er nú ekkert farin að gera neitt að ráði er mest á kynningarfundum og að læra að rata um húsið og finna hvar maður sækir um að fá ruslafötu og svona ýmisleg mannréttindi!!! Þetta er mjög stór vinnustaður eða 650 manns og 2/3 karlmenn en ég er ekkert búin að nefna það við Niels!!!! Rúsínan í pylsuendanum er svo að ég er ekki nema 50 mínútur að komast í vinnuna og það er mjög þægileg ferð þannig að ég les bara í lestinni. Það gerir það að verkum að ég er vel á veg komin með sorgarferlið vegna litla Yaris sem flutti til Helga í Hafnarfirði!
Húsbóndinn er mjög ánægður í skólanum sínum og orðinn hópstjóri í hópnum sínum og finnst hann vera á réttri hillu í þessu námi. Nú ekki þýddi annað en reyna að láta hann afla sér einhverra vasapeninga og þess vegna er hann orðin ruslakarl eins og spúsan var forðum þannig að þetta er alger nostalgígja þetta stúdentagarðalíf. Annars eru helstu baráttumálin að reyna að fá að opna bankareikning hérna en orðstír íslendinga hefur greinilega farið víða og síðasti banki sem að við reyndum við eftir að hafa skilað inn öllu ómögulegum upplýsingum upp úr okkur kvað upp þann dóm að þeim finndist þeir ekki hafa næga yfirsýn yfir fjármál okkar!!!! Húsbóndinn reyndi að útskýra á einfaldan máta fyrir þessari ágætu konu að við ætluðum ekki að fá lánaða peninga heldur láta peningana inn í bankann. En allt kom fyrir ekki....framhald síðar af bankamálunum....