miðvikudagur, ágúst 31

Mannlífið...

Það er segin saga að þegar maddaman kemst loksins með kíló af hassi að fíla náttúruna þá fær hún aldrei frið til að fílósófera fyrir öðru fólki. Þá dragast eins og seglar að stáli að maddömunni allskonar fólk og dýr. Hundar sem að þurfa að þefa af henni eða bara pissa smá utan í hana. Gamlar konur sem að þurfa að spjalla, fólk að spyrja til vegar, einstæðingar sem að ekki hafa marga til að tala við, gamlir tannlausir menn, rónar að betla péning og öll mannlífsflóran. Maddaman reynir samt að ræða við alla af alúð þó að stundum langi hana meira að huxa í friði eða bara horfa á fólk sem að henni finnst skemmtilegt, bara til að skoða hversu ólík við erum öll.
Annars bárust madömmunni ánægjuleg tíðindi í dag, niðurstöður eru komnar úr stolna prófinu og reyndust þær gríðar jákvæðar og maddömunni til framdráttar. Ólympíunefnd mun þó sennilega ekki falast eftir henni, en hvað um það;o)

mánudagur, ágúst 29

Spesíur og nýjar krónur....

Maddaman er stundum alveg gríðarlega leið á smásálarhætti Dana sem að lýsir sér í mörgu td:

að drottningin tímir ekki að láta lita á sér hárið né flikka upp á skögultennurnar

að lágmark er að tveir noti sama tepokann og svo á helst að föndra eitthvað úr honum seinna!

að menn hjóla/keyra óravegu til að kaupa matvöru á tilboði í fimm mismunandi matvörubúðum og allur seinni parturinn af deginum fer í að smala saman í kvöldmatinn og menn sjá ekkert eftir tímanum sem í þetta fer!!

að menn rukka fólk um 5 kalla sem að menn hafa lánað (u.þ.b. 51 íslenskar nýkrónur)!

að menn koma í sérstakan sparnaðarþátt í sjónvarpi til að grobba af því hvað menn hafa sparað við að grafa aldraða feður sína með því að leggja líkið sjálfir á öxlina og spásséra með yfir í líkbrennsluna (plús fyrir að hafa ekki bara kveikt bál í garðinum heima enda sennilega bannað með lögum) og senda gamalmennið svo af stað í sitt síðasta ferðalag í stórri rauðkálskrukku (afþví að að þessar sérhönnuðu krukkur eru svo miklu dýrari!!) og finnst það bara allt í lagi!!

að það eru gefnir út sneplar sem að ráðleggja mönnum hvernig á að græða á því að halda partý með því að bjóða fólki að koma þegar það er búið að éta heima hjá sér, allir koma með áfengi með sér og borga túkall fyrir saltstengur og pappadúka og gestgjafinn kemur út í rífandi plús af því að hann getur selt allar flöskurnar sem að gestirnir skildu eftir!!

að fólki finnst það "eiga rétt á" því að fá allt frá kerfinu en finnst ágætt að það sé bara brot af fullvinnandi fólki sem er að vinna og borga svimandi skatta til að halda þjóðarskútunni á floti

Svona mætti lengi telja en allt þetta kom til vegna þess að í kvöld sá maddaman brot úr "Villtu vinna milljón" þar sem að fyrrverandi hjón komu saman til að reyna að græða pening og skorti víst ekki þáttakendur þar sem að Danir eru sú þjóð í norðrinu sem að getur státað af flestum skilnuðum (og flestum giftingum reyndar líka).
Þetta finnst maddömmunni vera lýsandi dæmi fyrir þessa þjóð þó að fólk hafi skilið í bál og brandi þá eru menn samtaka þegar á að fara að græða pening

miðvikudagur, ágúst 24

Alþjóðatengsl....

Maddaman er algerlega vansvefta, þó ekki vegna nýburans;o) heldur allt vegna þess að "alþjóðlega konan" er komin aftur á stjá. Oh my god í mismunandi tóntegundum klukkan 3 á nóttunni er ekki góð vögguvísa! Maddaman var að vona að pilturinn hefði afskaffað kvendið fyrst að ekkert hefur spurst til hennar lengi!

mánudagur, ágúst 22

Barnsfæðing

Klukkan níu í morgun, hringdi síminn og vakti maddömuna sem var með góðan draum í gangi eins og þar stendur. Á línunni er dönskumælandi kona sem segist heita Inger og vera heimahjúkrunarkona og óskar maddömunni innilega til hamingju. Maddaman þakkar fyrir auðsýndan hlýhug og spyr svo varlega hvað sé verið að gratúlera með. Heimahjúkrunakonan segir maddömunni það í fréttum að hún hafi fengið fax um að það um helgina að hún sé búin að fæða!!!! Jahá segir aumingja maddaman og stóð nokkuð um hvort ég eignaðist dreng eða stúlku?
Fyrir þessu hafði heimahjúkrunarkonan ekki spé og maddaman flýtti sér að segja að það væri ekki fjölgunarvon á hennar heimili henni vitanlega!!!
Í annan stað er eitthvert kvendi í Virgínu sem að kommentaði á síðustu færslu og hrósar maddömunni fyrir skemmtilegt blogg! Maddömunni fýsir að vita hvort að hún er vel að sér í íslensku!

mánudagur, ágúst 15

the final.....

Maddaman hlakkar til að sjá vini og velunnara síðunnar á hælinu;o) Maddaman vonar að hún fái fallega hlýlega blámálaða stofu og bókasafn hælisins verð gott. Maddaman vil minna lesendur sínar á að hún er safna ritum HKL ef að þeir vilja færa henni eitthvað til afþreyingar á hælinu Maddömunni finnst líka Draumur góður!

sunnudagur, ágúst 14

ammmæli....

Kermit froskur er ný orðin fimmtugur, Lína Langsokkur varð sextug í gær og í dag er Sumarhúsabóndinn 5 árum betur en sextugur. Allar eiga þessar persónur það sameiginlegt að halda sér prýðilega miðað við aldur álag og fyrri störf.
Maddaman og systkini hennar gáfu Sumarhúsabóndanum göngustafi með dempurum og sjálfvirkum sleppibúnaði til að æða með í Tungurnar og Böðvarsdal og hvurt sem hann þarf að sækja skjátur sínar. Reyndar var Sumarhúsabóndinn langt á undan sínum tíma hvað varðar þessa göngustafamenningu, því að hann var farin að ganga við broddstaf löngu fyrir fermingu.
Sá hinn sami broddstafur spilaði gjarnan lykilhlutverk í flugeldauppskotum á gamlárskvöld ef að þessi smáprik sem fylgdu tolldu illa á og var þessi stafur eitt sinn rétt búin að setja reikistjörnu út af braut sinni og kom fyrir í drápu á þorrablótinu. En hvað um það þá finnst maddömunni Sumarhúsbóndinn ekki eins gamall og margir menn á hans aldri, hvurnig sem að það má nú vera og vonar að afmælisdagurinn verði honum bjartur og fagur og girðingarvinnan með öðrum ekki minni öldruðum félaga hans hafi verið honum uppspretta nýrrar andlegrar speki.
Sumarhúsbóndinn mun þó ekki lesa þessa rafrænu kveðju enda 18. aldar maður en reynt verður að ná sambandi við hann gegnum sæstreng í bítið í fyrramálið!

mánudagur, ágúst 8

Skref...

Maddaman tók sín fyrstu skref í lífinu á jóladag 1977 dyggilega studd og undir vökulu augnaráði frænda síns, sem hafði áður á því herrans ári borið sig upp við maddömmusystur grafalvarlegur og fölur af áhyggjum út af maddömunni. Hún slefaði svo mikið og átti til að reka upp ýmis gól og hinn góði frændi hafði áhyggjur af því að þessi nýja frænka hans væri ekki heilbrigð en hann hafði hlotið fræðslu um að einkenni þroskaheftra barna væri gríðarleg framleiðsla á munnvatni. Maddömmusystir hafði verið fullorðin og lífsreynd kona í mörg ár þegar þarna var komið sögu enda heil tólf ár sem aðskilja maddömuna og hana og róaði frænda með því að þetta væri ofur eðlileg hegðun hjá kvenfólki á þessum aldri. Til eru myndir sem að sanna þennan gjörning af hnellinni stúlku með margar lærafellingar í fínum jólaskokk og hvítri blússu standandi við jólatréð og grunsamlega mikið af glansandi jólakúlum á gólfinu. Síðan hefur madddaman tekið fjölmörg skref í lífinu og veröldinni allri bæði ein og óstudd og einnig með stuðningi þegar þess hefur þurft við.

WTF

Urrrr þegar maddaman lét rifa í glyrnurnar á sér í morgun eftir mj.mj. erfiða nótt með Dysartri bækurnar sér við hönd, þá var vatnið farið af öllu húsinu, vegna þess að í annað sinn á stuttum tíma er sprungið rör í aðallögninni hérna í götunni. Síðast héldu þeir að það tæki 4 tíma að gera við, það tók 16. Núna þora þeir ekki að segja neitt! Maddaman þakkar fyrir ef að það verður komið vatn aftur um jólin. Þetta þýðir að allt persónulegt hreinlæti er í lágmarki og yfirhöfuð er maddaman hálf lömuð. En af því að maddaman er ógisslega jákvæð kona, þá þakkar hún guði fyrir að börnin hennar eru ófædd og að hún er ekki með 5 manna fjölskyldu í heimsókn, hvað þá aldraðar ömmur sína og afa eins og konan á efri hæðinni sem að hringdi í tómri ángist hér í morgun til að vita hverju sætti.
Maddaman ekki eins fersk og hún gæti verið!

laugardagur, ágúst 6

Konunglegar veislur......

Maddömunni var boðið til veislu hjá drottningunni í nótt. Henrik prins gat ekki komið fyrr en í kaffidrykkjuna. Margrét Þórhildur bauð upp á steik með sósu og rauðbeðum. Ásamt madömunni var boðið til hófsins einni af dannaðri móðursystur madömunnar. Allt gekk vel þangað til að átti að fara að taka diskana af borðinu, madömunni þótti Móða og einhverjar hirðdömur stafla diskunum óþarflega kæruleyislega ( allt doldið lípó greinilega hjá drottningunni) og var eitthvað að biðja þær um að fara að fara varlega með þetta nema að sjálfsögðu steypist allt í gólfið og sósa út um allt. Maddaman brá sér í að þurka þetta til aðstoðar (alvön viðbjóðslegum félagsheimilisteppum eins og þessu hjá Margréti), nema stemmingin er doldið lævi blandin eftir þetta atvik og engin segir orð. Með kaffinu stóð til að kynna maddömuna og Móðu fyrir frönskum greifa. Nema þegar sósukaflanum er lokið og maddaman er búin að þurka sósu utan í Friðrik krónprins, þá kemur Móða uppleyst í gráti yfir þessu atviki og maddaman sem hefur nú marga fjöruna sopið vill gera gott úr þessu og segir að þetta geti komið fyrir alla og málinu sé reddað búið að þrífa teppið og sona! En þá fær maddaman pent að vita að svona komi eimitt EKKI fyrir hjá drottningunni af einhverri hirðdömu. Móða er í táradölum og þá missir maddaman nett stjórn á sér og skipar Móðu að láta af þessum væli og segir liðinu að hún voni að viðstaddir eigi ekki eftir að lenda í neinu alvarlegra í lífinu en að sulla sósu í gólfið. Því að það séu smámunir miðað við hvað geti komið fyrir fólk af alvarlegum hlutum. Svo skipar maddaman Móðu út úr þessu samkvæmi og ætlar sjálf að strunsa út á eftir henni. Þá kemur veltandi greifinn ásamt fleiri karlmönnum og fyrirfólkið viðist vera horfið með öllu. Maddaman kynnir sig fyrir liðinu og lætur greifann kyssa soldið á handabakið á sér og talar smá frönsku og tætir svo heim með móðu.
Ef að þetta hefði verið ævintýri hefði greifinn náttlega verið svo hrifinn af hugrekki maddömunnar að standa uppi í hárinu á liðinu að hann hefði gifst henni og gefið henni fullt af skargripum (í staðinn fyrir þá sem að stolið var í innbrotinu í vor). En þetta var draumur og greifinn slepjulegur gamall kall í grárri rúllukragapeysu og maddaman neydd til að fara aftur í kjallarann!

föstudagur, ágúst 5

Så kom regnen og.......

Hér er ekki hundi út sigandi í orðsins fyllstu merkingu. Maddömuna sárvantar gömul próf sem eru niðri í lesaðstöðunni í kjallaranum á annari blokk; en hún er veðurteppt!!
Annars eru lesendurnir slappir að koma ekki með gisk og hér kemur annað sem að maddömunni finnst eðlilegt framhald: GlacierRiverHill og koma svo!

Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað...

Hvað er málið þegar spenna dagsins er orðin sú að fara og kaupa sér nýja vaxeyrnatappa til að geta farið heim og haldið áfram að lesa og að fara í bankann að díla við "hefekkifengiðþaðsíðan 1970sextugskrísu" kellinguna sem hefur takmarkað spé fyrir samstarfi milli danskra og íslenskra banka og yfir höfuð nordisk samarbejde og sennilega lítið spé fyrir maddömunni ef að út í það er farið!
Redding dagsins er samt SheepRiverHook sem að lesendur maddömunnar geta keppst um að geta hvað þýðir og sá hinn heppni getur fengið að koma og hlýða maddömunni yfir ýmsa heilasjúkdóma og drukkið með henni kaffibolla!
Jæja back to the basement!

fimmtudagur, ágúst 4

And I still haven't found what I've been looking for......

Eitt er nú að hanga á byggingakrana í mótmælaskyni en að þurfa svo að fá hjálp frá fjandanum til að komast niður það er náttúrulega fyrir neðan allar eldavélarhellur! Annars heldur maddaman að hún sé jafnvel endanlega að tapa geðheilsunni hafi það fyrr skeð! En maddaman treystir því að hún muni sjá ljósið að nýju eftir rúma viku!

þriðjudagur, ágúst 2

;o(

Maddaman er andlega steingeld í augnablikinu og fátt um það meira að segja! Innblásturinn af U2 dugði ekki nema rúmlega í einn dag!

mánudagur, ágúst 1

U2

Well og well! Maddaman getur bara mælt með U2! Það var alveg að gera sig að vera með sæti og mátulega lenti maddaman undir þaki og slapp við rigninguna:o)
Annars var mikil útihátíðastemming í Parken vegna rigningarinnar.
Upphitunarböndin féllu maddömunni ekki að skapi (og mj.mj. fáum öðrum). Goðin létu reyndar ekki sjá sig fyrr en 21:45 but it was all the money worth!
Hinsvegar skilur maddaman ekki alveg að það séu tóm sæti á tónleikum sem uppselt var á í janúar! Einhver maðkur í mysunni þar!
Bono bauð hins vegar maddömunni ekki í eftirpartý, hafði hins vegar verið í partýi hjá Helenu Christiansen kvöldið áður, þar sem maddömunni var heldur ekki boðið!