fimmtudagur, júlí 28

Fjósaklettur

Það virðist sem aðdáendahópur maddömunnar hafi fjölmennt snemma á þjóðhátíð þetta árið. Maddaman og helstu brjóstbirtufélagar hennar gerðu reyndar heiðursmannasamkomulag um síðustu helgi að fjölmenna á þjóðhátíð í Eyjum á næsta ári "af því að hluti af klassískri menntun íslendinga er víst að hafa farið einhverntímann á þjóðhátíð". Enda hefur þorrinn af frumburðum fólks orðið til á þjóðhátíð og margir orðið að láta sig hafa restina!
Maddaman veit þó ekki hvað verður úr þessum plönum, hún er satt að segja engin rosaleg áhugamanneskja um þjóðhátíðir. Tók þó þó þátt í allavega einni ef ekki tveimur Eiða útihátíðum sem að sennilega hafa verið heldur glataðri en Viðeyjardæmið hjá Adda, Palla og Bergþóru um árið! Þar var svefnpoka maddömunnar stolið á fyrstu nóttu en maddaman gefur þó kredit fyrir að vínið sem var kyrfilega geymt í honum var skilið eftir! Jet Black Joe var aðalbandið ásamt GCD. Maddaman var líka þáttakandi í fyrstu Halló Akureyri hátíðinni sem haldin var öllum til skelfingar. Einhvern tímann var líka farið á Vopnaskak. Þannig að glöggir lesendur átta sig á því að þessi ferðalög hafa verið mjög landshlutabundin! En toppurinn hefði að sjálfsöguðu verið að vera í Atlavík með Ringó að rölta um árið en þá var maddaman rétt nýlega sloppin úr húfuskotti guðs og ekki samkvæmisfær. Sá eimitt í fréttablaðinu á dögunum að grínistinn Steinn Ármann hafði glatað sakleysi sínu á Atlavíkurhátíð (enda sennilega ekki mörg tækifæri á Borgarfirði eystra!!)
En maddaman heldur samt að Herjólfsdalurinn slái ekki U2 út!!!

miðvikudagur, júlí 27

;o)

Eldheitt samband maddömunnar og Pakistanans er upplífgað á nýjan leik eftir að maddaman þurfti að bregða sér mjög snöggt í sjoppuna hjá honum áðan. Maddaman gaf þó ekkert kost á sér í kaffi í að skiptast á sögum úr mismunandi menningarheimum og minntist þaðan af síður á að Pakistaninn hefði verið tekin til umræðu í grillveislu hjá maddömmufrænkunni á dögunum. Maddaman vonar heitt og innilega að sambandið fari út um þúfur þegar hann kemst að þeirri óumflýjanlegu staðreynd að Sumarhúsabóndinn á bara fótfráar rollur og engin lamadýr í heimamundinn.

þriðjudagur, júlí 26

:o)

Ljónið sem að dvaldi í íbúð maddömunnar hefur stillt inn ótrúlega mikið af einhverjum sjónvarpsstöðvum sem maddaman hélt að væri búið að leggja niður! Ekki það að maddaman hefur nóg annað að gera! Til dæmis að æfa sig mentalt fyrir U2 tónleikana, maddaman reiknar sterklega með að henni verði boðið á bakvið með Bono og maddaman og hann muni skiptast á minjagripum og heimilisföngum!

mánudagur, júlí 25

Hundadagar...

Maddaman er komin heim til sín eftir vægast sagt velheppnað sumarfrí! Hæst bar til tíðinda að einn sólríkan sumardaginn tókst maddömunni að læsa sig úti á tröppum aðaldyramegin á búgarði Sumarhúsabóndans. Það hefði þó verið sannarlega allt í góðu lagi ef að maddaman hefði ekki verið berrössuð á tánum eins og segir í laginu, en maddaman var í afskaplega skjóllitllum streng kenndum við G með eitt lítið og lúið handklæði sér til stuðnings á efripartinum! Þetta væri allt í allt heldur ekki fréttnæmt ef að búgarður Sumarhúsabóndans væri ekki óþægilega nálægt alfaraleið og maddaman telur að ekki færri en 15 bílar hafi ekið hjá meðan maddaman með annari hendinni hélt handklæðinu saman og notaði hina hendina og neðripartinn til að hamra á hurðinni sem að alls ekki opnaðist. En eftir drykklanga stund hrökk hurðin loksin upp og maddaman spýttist inn og kveikti skjálfandi á Rás 1 sem að meðal annars hefur það göfuga hlutverk að vara alla íslendinga við hverskonar náttúruhamförum. En engar tilkynningar bárust um að aka ætti hjáleið vegna þessara hamfara á tröppum Sumarhúsabóndans!
Hins vegar kom sá hinn sami bóndi seinna sama dag og sagði maddömunni ákaflega spaklega að hann héldi að umferðin hefði verið alveg með mesta móti daginn þann!

þriðjudagur, júlí 5

Júlíblogg

Það hefur svo margt á daga maddömunnar drifið síðan síðast að hún veit ekki hvar hún á að byrja. Allavega hafa góðir gestir frá Íslandi sótt hana heim undanfarnar tvær vikur. Maddaman fór til Rommeyjunnar á Vestur Jótlandi um helgina ásamt góðum vinum! Maddaman fann þó aldrei rommlindina þrátt fyrir ítrekaða leit ( enda ekki nokkur leið að skilja þetta fólk sem býr þarna!) og ekki einu sinni svo mikið sem feyskin rommkút! Mýflugurnar á Rommeyju sáu sér þó leik á borði að tappa af maddömunni íslensku fersku blóði og eru útlimir maddömunnar vægast sagt ófrýnilegir á að líta! Veðrið var eins og á póstkortum frá útlöndum, sól og blíða og ægilega fínt!
Aðaláhygjuefnið hér í landi er það hvort Bush sé með koddann sinn með sér eða ekki! Maddaman verður að segja að ef að þetta væru áhyggjurnar hennar þá væri henni ekki órótt!
Annars hyggst maddaman halda í víking bráðlega og hefur fengið sér ljón til að hafa í íbúðinni á meðan!