þriðjudagur, janúar 31

Dýrtíð......

Þetta hefur verið frekar erfiður dagur, maddaman fékk skammir vegna mistaka sem önnur manneskja gerði. Maddaman er langþreytt á samskiptum við viðkomandi persónu og sem betur fer er þeim að ljúka og hefði átt að vera lokið fyrir löngu.
Maddaman sá að hún býr í 5. dýrustu borg í heimi og er að flytja til landsins þar sem 3. dýrasta borgin er. Ljóst að maddaman verður ekki efnuð kona nokkurn tíma með þessu móti.
Maddömunni finnst hins vegar gott að Kaupmannahöfn sé bara tveimur sætum á eftir Reykjavík. Það er nefnilega til fólk sem að heldur því fram að það sé svoo rosalega ódýrt að lifa í Kaupmannahöfn og dýrt á Íslandi. En munurinn felst meira í lífstílnum en verðlaginu t.d. spara margir sér að reka bíl hér en heima reka margar fjölskyldur tvo bíla. Svo er annað að hér er hægt að kaupa drasl bæði föt og matvöru. En spurningin er hafa menn efni á að kaupa svona ódýrt? og þá sérílagi matvæli!

mánudagur, janúar 30

Hjælp....

Ehemmm..... maddaman óskar eftir hjálp til að færa þennan teljara á einhven skynsamlegri stað......;O)

Hjælp....

Ehemmm..... maddaman óskar eftir hjálp til að færa þennan teljara á einhven skynsamlegri stað......;O)

föstudagur, janúar 27

thorarinn.com

Maddaman hitti thorarinn.com í Metro í dag. Það var söguleg stund en afskaplega stutt....en maddaman lét verða af því að heilsa honum sérílagi afþví að hún hefur verið að skipta sér af því hvar hann kaupir gallabuxur....bláókunnugur maðurinn!! En thorarinn.com tók kveðjunni vel, maddaman náði bara ekki að kasta bliki á hvort að hann var gallabuxnaklæddur en hann tók þeim ráðum heldur ekki óstinnt upp! Gaman að hitta bloggverjana life;O)

miðvikudagur, janúar 25

Spænska veikin......

Frostaveturinn mikli 1918 er gengin í garð hér í Höfn og spáð meiri snjó eftir helgi. Það er víst líka tímaspursmál hvenær spænska veikin nær manni svo að af þessu má dæma að maddaman reiknar hvorki með að kemba hærurnar eða klára ritgerðina.
Kastrupvelli var lokað á föstudagskvöldið og Tóki vinur maddömunnar og faðir hans voru á leið í frí til Færeyja. Ekki var nokkur leið að komast fram né aftur og urðu þeir feðgar að láta fyrirberast í rúmi prinsessunnar á bauninni sem var akkúrat á ferðalagi þessa nótt ( barnahorn í tilefni HC. Andersens ársins. Tóki kunni því vel og fann ekkert fyrir bauninni en faðir hans merkti hana gjörla.
Maddaman er búin að gera ofurgóð kaup á útsölum (vona að bankaráðgjafinn sleppi því að lesa þessa bloggfærslu), allt þó eitthvað sem hana vantaði og passar á hana, en maddömunni skilst að kvenfólk sé dálítið í því að kaupa eitthvað sem ekki passar í von um "hin mögru ár".

föstudagur, janúar 20

Þorraþræll....

Til hamingju með bóndadaginn sauðfjárbændur og aðrir húsbændur. Vona að allir hafi dregið brókarskálm sína þrjá hringi kringum íbúðarhúsið í morgun og boðið þorrann velkomin eins gamlar hefðir bjóða. Maddaman er hinsvegar ansi glöð yfir því að hafa ekki þurft að hlaupa á brókinni kringum Eyrasundsgarðana því að það er aftur komin snjór. Maddömuna sárlangar í þorramat en fær sig hamið þartil vér Hafnarbúar blótum þorrann þann 11. febrúar!

mánudagur, janúar 16

Engar fréttir eru víst góðar fréttir...hér er óstuðið algert!

laugardagur, janúar 14

Skyldu álfar spara péninga???

Maddaman ætlaði að segja ykkur frá sparnaðarþættinum þarsem var drepið á ýmsu, sumt var gott og annað minna gott. En aðalsparnaðurinn hjá báðum fjölskyldunum sem skoðaðar voru í þættinum var að þær áttu að skipta um sturtuhús og fá sér sparnaðarsturtuhaus!!! Það er semsagt sturtuhaus sem hægt er að stilla þannig að hann notar helmingi minna vatn. Þannig að þá er hægt að láta leka á sig í dropatali í helmingi lengri tíma en maður þyrfti annars. Maddaman veit ekki með ykkur en henni finnst þetta fáránlegt... að fara í sturtu er svona smá lúxus, skolar af sér eril dagsins og hleður batteríin upp. En að standa skjálfandi með shampóið í hárinu undir dropasturtu flokkar nútíminn ekki undir lúxus!!!

Í annan stað horfði maddaman á kynningarþátt um Ísland í sjónvarpinu áðan. Þetta var að mörgu leyti ágætis þáttur þó að maddömunni sem sannarlega trúir á álfa og allar góðar vættir finnist hafa verið gert fullmikið úr álfatrú þjóðarinnar og þeir sem ekki þekkja til gætu haldið að íslenska þjóðin þyrði varla að drepa niður fæti af ótta við að stíga á álf. Svo fannst maddömunni kínverskar íþróttiðkanir Björns Bjarnasonar og Gunnars Eyjólfssonar ekkert koma þessu prógrammi við, þó það sé gott að sækja kraft í jörðina, það væri nær fyrir þá að glíma.
Svo var Kristbjörg uvidað með blómadropana og með beina útsendingu frá álfum sem að komu út að kíkja á hana!
En Vigdís Finnbogadóttir var fín eins og ávallt, sómi Íslands, sverð þess og skjöldur

fimmtudagur, janúar 12

humm ha

Maddaman flaug á hausinn á hjólinu í morgun. Þökk sé vel bólstruðum afturendanum fór þetta betur en á horfði...um tíma hélt maddaman þó að kranabíllinn í grenndinni væri að gera sig út í aukaverkefni(skreytni) en það kom hlaupandi maður að athuga heilsufar maddömunnar, hafi hann þökk fyrir.
Maddaman fékk að gjöf vínglös í dag, í afar fínni línu, hefur áður verið meira svona í IKEA línunni, það borgar sig að nöldra á blogginu greinilega!
Hins vegar bárust ótíðindi frá Íslandi í kvöld, einhleypir óvelkomnir í samfélagið samkvæmt óformlegum félagsrannsóknum góðvinkonu og reynt að útrýma þeim með splæsingu við aðra einfara (hefur ekki alltaf gefist vel lömbin mín), en það sem verra er að fólk í góðum holdum ku eigi vera vel séð heldur og er holdafar fólks til umræðu hjá báðum kynjum við öll hátíðleg tækifæri, allir vita hvað ber að varast og hvað er hollast og hvað kúrar eru mest hipp og kúl en enginn missir gramm nema einstaka fólk á kúr kenndum við Dani sem að leggur af um tja svona 50 kg í laumi!!! Maddömunni sýnist að fólk sem sameinar þetta tvennt hljóti að vera réttdræpt á landi og legi og hafi ekkert til klakans að gera. Sennilega mun maddaman innrétta gamlan togara sem talmeinafræðistofu og lóna rétt fyrir utan landhelgina (rétt eins og hin alræmdu fóstureyðingaskip fyrir utan Írlandsströnd) og svo verða skjólstæðingar maddömunnar ferjaðir út í skipið, allt til að forða landanum frá sjónmengun af þessari bústnu einhleypu!!!
Kannski maddaman verði bara hér og SPARI með dönsku þjóðinni, segi ykkur kannski frá því á morgun ef maddaman sé í stuði!!!

þriðjudagur, janúar 10

Pælingar

Maddaman er með pælingu í tilefni nýafstaðinnar neysluhátíðar!
Hvernig stendur á því að sumt kvenfólk er ægilega upptekið af því að geta sagt "mér var sko boðið þetta/ gefið þetta" í þeim tóni að maður á að fatta hvað viðkomandi er prinsessu eitthvað! Maddömunni finnst þetta sérstakt í ljósi þess að margar af þessum konum eru búnar að gefa all rækilega í skyn hvað þær langar í jafnvel fara með manninn af tilviljun framhjá viðkomandi hlut og koma þá skýrt á framfæri að það sé þetta sem að viðkomandi langar í.
Finnst líka svolítið fyndið þegar menn segja með andagt í röddinni að " Nonni minn hafi sko bara boðið mér í sólarlandaferð" sem samt er greidd úr sameiginlegum fjárhag parsins.
Auðvitað getur uppástungan hafa verið Nonna en svona þegar kemur til kastanna er þetta bara einn af útgjaldaliðunum. En það er kannski málið að það lúkkar betur að segja "mér var sko gefið/boðið þetta heldur en að segja að "ég keypti þetta bara sjálf".
Maddömunni finnst þetta býsna merkilegt, kannski er það í ljósi þess að hún er úr fjölskyldu þar sem ekki tíðkast að gefa mikið af gjöfum fyrir utan jólagjafir og ef einhver hefur gert það utandagskrár þá er það yfirleitt maddaman sem hefur glatt aðra.
Sú sama maddama hefur yfirleitt keypt sér sína hluti og föt sjálf og unnið fyrir sínum fjármunum til einkaneyslu með hörðum höndum og á köflum með vinnu sem að ekkert allir myndu hrópa húrra fyrir að þurfa að taka.
En maddaman hefur heldur aldrei haft samviskubit yfir því að kaupa sér flíkur eða yfir höfuð það sem hana vantar, svo framarlega sem að það séu til peningar fyrir því og ekki sé um einhvern ógurlegan óþarfa að ræða. Maddaman veit bara ekki hvernig hún ætti að eignast hlutina ef að hún keypti þá ekki sjálf;=o), því að ekki er hægt að bíða eftir Nonna með alla skapaða hluti!!!
Annars komst maddaman að því um jólin að það er lángbest að vera single og kaupa handa sér jólagjöf sjálfur sem að hittir alltaf beint í mark!!! Það var eftir að fréttist af manni sem að gaf konunni sinni handsápubrúsa sem að hægt er að skrúfa á vegg og vakti víst enga lukku. Spurning hvort að hún fær klósettbursta í stíl næsta ár!!!
Annars slær ekkert út mann sem maddaman heyrði af þegar hún var á Patró. Heimilisfaðirinn splæsti nýju Gustavsberg á frúna í tilefni fæðingu frelsarans!!!! Þeir hefðu ekki þurft að kemba hærurnar hjá maddömunni!

sunnudagur, janúar 8

Kommentakerfið komið heim....

Gjöra svo vel að kommenta hérna og nýta kerfið meðan í boði er;O) Þetta er undarlegt.....

Flyttekassar og reykjandi djöflar...

Það er held ég bara skynsamleg ákvörðun hjá maddömmunni að sigla heim á leið síðsumars!!!
Í morgun gerðist hún nefnilega verulega dönsk...og reif sig upp til að fara í matvörubúðina en í tilefni 25 ára afmælis hennar (danskir supermarkaðir eiga verulega oft stórafmæli) var verið að selja alkyns viðbjóðslegt drasl á sportprís og þar á meðal pappakassa sem eru sérstaklega ætlaðir til flutnings. Þeir kostuðu 10 kall stykkið en kosta vanalega 20 til 25 kall stykkið, aukinheldur er langt að fara til að verða sér út um þetta hvunndags.
Maddaman mætti galvösk og hamstraði sér 25 stykki af kössum og hlóð á kerru og brunaði með gegnum búðina. Afþví að maddaman er nú kona sem stendur prýðilega upp úr stígvélunum sínum þá ímyndar maddaman sér að þetta hafi verið gríðarlega vígaleg sjón þar sem pappakassarnir útflattir þurftu að liggja ofan á körfunni. Svo þurfti að skáskjóta þeim fram hjá kassanum og kemur þá ekki einn lítill pervisinn kall og ætlar að potast við að hjálpa maddömunni ig réttir hennir 3 kassa í einu!!!! Maddaman þakkaði pent fyrir og reif upp 10 kassa í búnti áður en kallinn kæmist meira í að gaufa við þetta. Honum leist ekkert á þessi læti og hélt sér bara til hlés. Svo upphófst aksturinn á kerunni heim, vegfarendur spáðu hrakförum og glottu að þessum tilburðum. Fyrir tilstilli kínverjakonunnar- og hér fær öll kínverska þjóðin kredit (var víst eitthvað að kvarta yfir þeim um áramótin!!) þá komst maddaman klakklaust gegnum hliðið við garðana og blessuð konuna hjálpaði aftur þar sem böðlast var gegnum útidyrnar.
En það voru fleiri í kassakaupum og önnur kona sem varð vitni að þessum látum var alveg yfir sig hrifin af þessu hvað maddaman væri ráðagóð, hún hafði hringt á manninn sinn til að koma aðvífandi til hjálpar.
Maddaman sagði að í sínu tilfelli væri ekkert hægt að hringja á neinn mann, því að hún ætti engan og engin þöf fyrir hann og ekkert nema bölvað vesenið út úr því að hafa að vera með svoleiðis inn á heimili! Konan var alveg gapandi yfir þessum yfirlýsingum og láir maddaman henni það ekki!
Hins vegar eru komnir splúnkunýjir nágrannar á ganginn sem að maddaman heldur að hljóti að vera vampýrur því að þeir eru bara á ferðinni á nóttunni og reykja alveg eins og djöflar bæði á nóttu sem degi.

fimmtudagur, janúar 5

Árið er liðið í aldanna skaut

Gleðilegt nýtt ár lesendur góðir og þakka ykkur fyrir það gamla/gömlu.
Maddaman fékk ekki nærklæði né kalrmann í skóinn en fór sjálf í gær og reddaði öðru málefninu. Þið megið giska hvort var á útsölu. Það er runnið upp nýtt ár með tilheyrandi timburmönnum og er það vel. Madddaman ætlar að afreka mikið á árinu og byrjar það með því að sofa lengi frameftir á morgana og gaufa langt fram á nótt. En það er bara af því að maddaman hefur haft Hannes Hafstein sem hjásvæfu síðan á jólanótt. Fer vel á með madömunni og Hannesi!!