miðvikudagur, júní 22

Maddaman hefur greinilega náð sér upp í blogghæðir því að tvö blogg sama daginn er nú óvenjulegt!
Vinkona maddömunnar sem flutt er til borgar bleytu og óttar kvartar sáran yfir því að makaleysi hennar fari mikið fyrir brjóstið á samferðafólki hennar. Hún er svo ólánssöm að mati samferðamanna sinna að vera makalaus og er henni nuddað upp úr þessu daginn út og daginn inn ásamt kommentum um að konur á hennar aldri ættu nú ekki að vera með sítt hár!
Það er nú ekki laust við að maddaman hafi fengið smjörþefinn af þessum söng gegnum tíðina.
Það voru skýr skilaboð um það þegar maddaman færi til útlanda að hún mætti ekki ná sér í danskan mann því að þá kæmi hún örugglega aldrei heim til íslands aftur ( fyrir austan sigldu nebbilega prestdætur stundum og giftust merkum dönum og sáust aldrei síðan en það var víst fyrir daga beina flugsins frá Kaupmannahöfn til Egilsstaða !!!)
Maðurinn á helst að vera hvítur eins og tunnumaðkur og sjálfsögðu verður hann að vera með íslensku tali! Hann má alls ekki eiga ættir sínar að rekja til hryðjuverkamann og eftir því sem maddömunni heyrist er synd að hún skyldi ekki vera samferðamanneskja Jesú Krists því að hann hefði sennilega komið sterklega til greina! (þetta með að kunna að breyta vatni í vín myndi vekja sérlega lukku í fjölskylduboðum!
Það er ber vott um frekar mikla þröngsýni að allir þurfi að vera í nákvæmlega sama farinu og lýsir kannski þessum gríðarlega smáborgararahætti íslendinga sem að þó vilja telja sig mikla heimsborgara.
Morgunblaðið kyndir undir þessu með að birta kannanir sem að segja gift fólk hamingjusamara og langlífara, í betri holdum og stunda meira kynlíf samkvæmt könnunum morgunblaðsins! Hið síðasta hlýtur nú að vera nokkuð sjálfgefið! Síðasta melding frá Morgunblaðsmönnum var að halda því fram að maddaman væri komin yfir meðal giftingaraldurinn sem ku vera 28 ára hjá kvenfólki en 30 ár hjá karlmönnum á Íslandi og hefur farið ört hækkandi.
Þetta æsir bara hamingjusama gifta fólkið í góðu holdunum upp í því að vera með allar klær úti við að kynna misjafnlega fráskilda bræður sem eru nú kannski ekki alveg gallalausir, dularfulla frændur sem eru kynntir eru til sögunnar sem" voða góður en sérstakur strákur" sem útleggst á maddamísku sem "tölvunördar sem eru algerlega veðurtepptir í mannlegum samskiptum og hafa aldrei verið við kvenmann kenndir" sem og afgamla "þroskaða" ( forpokaða) piparsveina sem að halda að snípurinn sé sjaldgæf fiðrildategund ( að undanskildum Kvískerjabræðrum þó en það skal tekið fram að þeir eru áhugamenn um fiðrildi, ekki er vitað um hitt!) og bara allt karlkyns sem að gengur laust! Boðskapurinn er að það verði bara að taka því sem býðst þegar maður sé komin á "þennan aldur" eftir því sem maddömmunni skilst fyrirfinnst orðið -líf með öllum forskeytum víst bara ekki eftir þrítugt! Málið er bara að þetta er engin brunaútsala þetta hjónaband, það er ekkert lagt upp bara með því að finna eitthvað og skítt með það hvort að það sé pínu brunnið eða götótt eða bilað. Maddaman trúir heldur ekki á ástina frekar en geimverur. Hins vegar trúir maddaman á það að tilviljanir ráði miklu um val lífsförunautar, hverjir eru hvar hvenær og eftir hverju eru þeir að leita. Enda heldur maddaman að hagkvæmnishjónabönd sé besta fyrirkomulagið á hjónaböndum, þessi ca. 60 ár sem að mannskepnan hefur verið að þreifa sig áfram í að stofna til hjónabands sökum óviðráðanlegar nýrnaveiki (alias ást) þá hefur skilnuðum fjölgað til muna! En maddaman segir eins og byggingarlánasjóður heitinn (eða er hann það ekki) allar umsóknir skoðaðar en réttur er áskilinn til að hafna öllum tilboðum"

Blogglægðir

Maddaman er búin að vera í gríðarlegri blogglægð undanfarið enda kverkaskíturinn nýfarinn og ekki víst að hann sé farinn forgúd! Góðvinur maddömunnar haraldur fór hins vegar forgúd í gær heim á fagra Frónið og ætlar að eigin sögn aldrei að snúa aftur eins og Gunnar forðum!
Maddaman náði sér hins vegar upp úr blogglægðinni í dag þegar hún lærði skelfilegt nýtt íslenskt orð sem er píkutryllir og var orðið víst notað um samtímamann maddömunnar bakarastubbinn Jóa Fel. Maddaman reiknar þó ekki með að hún muni slá mikið um sig með þessu nýja orði en hún er ekki mikið fyrir að nota nýyrði og aukin heldur eru kannski ekki mörg tækifæri til að viðra þetta orð!

fimmtudagur, júní 16

Útburður taka IIII

Enn einn útburðurinn í morgun á góðkunningjum maddömunnar! Maddaman og Brennu-Böðvar fylktu liði í útburðinn og gekk hann vel! Hins vegar fannst maddömunni hún ekki vera í góðu dagsformi við útburðinn og skildi ekkert í þessu fyrr en hún kom heim og fann að hún var með bullandi hita oní kverkaskítinn sem að hún hefur verið með í 3 vikur núna nánast án pásu! Ekki líst maddömunni á það, bráðum að koma jibbí jei og íslenskir gestir að bresta á í kvöld og á morgun! Það verður eitthvað að gera og það strax og maddaman heldur að brennsi eða konni hvorutveggja að sjálfsögðu til í barskáp madömmunar muni kannski hjálpa henni í dagsformið!
over and out frá maddömunni

þriðjudagur, júní 14

Skúbb

Það herjar einhver óþokkalýður hér á stúdentagarðana núna og fyrir utan innbrotin sem voru framin hér um daginn þá hafa einhverjir piltungar verið að labba um og taka í hurðarhúna og gá hvort að það sé opið og jafnvel fylgjast með hvort að fólk sé á leið í þvotthúsið. Þess vegna er maddaman að reyna að venja sig á að læsa líka þegar hún er inni í íbúðinni, en það hefur hún aldrei annars gert nema á nóttunni og þegar farið er í sturtu ! Hins vegar hefur það komið fyrir að ruðst hafi inn færeyskir drengir sem farið hafa hæðavillt á leið í partý upp á 7 hæð til Jóhanns færeyings sem að býr fyrir ofan maddömuna í sömu gerð af íbúð. Jóhann kom líka sjálfur daginn sem að öll Kaupmannahöfn var rafmagslaus í 8 klukkutíma og gómaði maddömuna við að skipta um peysu í forstofunni og var hinn versti yfir hvað maddaman væri að gera heima hjá honum og búin að færa til húsgögn og allt í íbúðinni! Jóhann sem er örmjór með afar óklæðilegt yfirvaraskegg og les guðfræði og hebresku ( gífurlegir atvinnumöguleikar í Færeyjum!!), hlýtur að breytast í eitthvert partýljón um helgar miðað við átroðninginn af þessum kunningjum. Á laugardaginn situr maddaman á skrafstólum við gest þegar hún heyrir umgang og snarast fram í forstofu. Þar stendur maður steinrunninn með viskíkryppling undir hendinni og skimar í kringum sig. Maddaman spyr hann hvað hann telji sig vera að gera og maðurinn fer alveg á límingunum við ekki blíðlegt ávarp maddömmunnar en stamar út úr sér að hann sé á leið í partý til Jóhanns. Gesturinn taldi ekki ólíklegt að manntetrið hefði þurft einhverskonar áfallahjálp eftir þessa yfirhalningu maddömunnar!
En talandi um þetta þá er danska lögreglan með mikið skúbb í innbrotsmálinu ógurlega. Nágranni maddömunnar var kallaður á þeirra fund á laugardaginn til þess að þeir gætu sýnt honum appelsínugula hettupeysu og hvort hann kannaðist við hana!!! Á þriðjudaginn ætla þeir að vera búnir að handtaka alla í appelsínugulum hettupeysum í Kaupmannahöfn og föndra myndamöppu handa honum til þess að gá hvort að hann geti fundið haus í peysuna. Þvílíkur skrípaleikur að kalla fullorðið fólk mílur vegar til þess að skoða einhverjar tuskur og boða menn svo aftur til fundar þremur dögum seinna.

föstudagur, júní 10

Greiðasemi

Um daginn gerði maddaman greiða, en aldrei þessu vant taldi hún hann eftir sér og hafði eiginlega mesta löngun til að neita viðkomandi um greiðann, en gerði það ekki! Í dag fékk hún hins vegar þann greiða endurgoldinn allavega 10 falt. Maddaman er alin upp í greiðviknu samfélagi þar sem að menn höfðu ánægju og hag af því að gera öðrum greiða, en stundum á hún það til að gleyma sér og hugsa mest um eigin hag eins og samfélagið býður upp á!

miðvikudagur, júní 8

Omygodomygod

Jæja ævintýrum maddömunnar lýkur aldrei og það er ólýsandi hvað hún ratar í! Maddaman skaust aðeins út í sjoppu áðan. Maddaman hefur verslað í sömu sjoppunni meira og minna síðan hún flutti hingað og sami maðurinn alltaf ráðið ríkjum og var þeim vel til vina! En í vetur ákvað hann að færa sig um set og í staðinn kom annar pakistani algerlega ótalandi á allar tungur en hægt að gera sig skiljanlegan með handapati. Nema hvað í kvöld kemur maddaman og ætlar að eiga við hann viðskipti og hann kemur æðandi úr bakherberginu og segir maddömunni að hún verði að koma og sjá svolítið, hann sé í svo miklu uppnámi. Maddaman er nú ekki spennt fyrir að æða með ókunnugum mönnum inn í bakherbergi en áður en hún vissi var hún komin þangað inn. Þá hafði hann gleymt að loka glugga um helgina og óboðnir gestir stolið sígarettum og slíku úr búðinni. Inn í þetta fléttaði hann brot af ævisögu sinni á óskiljanlegri ensku með dönskum hrein og vildi ólmur kynnast ævisögu maddömmunar, sagði henni af vinaleysi sínu í Danmörku og hvernig Kóraninn fúnkeraði og að það væri miklu betra að búa í Hong Kong af því að þar væri maður aldrei einn og að hann væri flínkur að búa til mat. Einnig fórum við létt í gegnum bókhald búðarinnar og stöðuna á einkareikningnum hans, ásamt því að hann sýndi mér seðlaveski sjoppunnar sem eru allavega þrjú og mun þykkri en mitt! Maddaman vissi ekki sitt rjúkandi ráð og endaði með að hún sagðist hafa lofað manninum sínum að vera fljót i ferðum! Þá vildi Pakistaninn vita hverslags nískupúka hún hefði tekið saman við, fyrst að maddaman væri ekki með hring á hendi. En það eru skýringar á öllu hér í lífinu og maddaman var svo ólánssöm að týna fína hringnum frá manninum sínum!!! Með þetta forðaði maddaman sér og það er ljóst að hún mun verða að beina viðskiptum sínum eitthvað annað í framtíðinni og setja upp hringinn góða!

þriðjudagur, júní 7

Inside-outside

Maddaman hefur verið að strákast til að horfa á Innlit-Útlit þættina á netinu ef að andleysið hefur verið algert. Það er skemmst frá því að segja að maddaman er ekki hissa þó að íslendingar séu yfir á yfirdrættinum eins og maddömmusystirin orðar það svo snilldarlega. Fólk er með sérfræðinga og iðnaðarmenn í öllum sköpuðum hlutum og puntaðar konur á leðurklofstígvélum hlaupandi út um allan bæ á launum við að leita að einhverjum sérstöku hingað og þangað til að vera öðruvísi en vinahópurinn en samt eru allir á sömu leðurstígvélunum við þetta snatt og bera sama draslið úr býtum! Takið samt eftir því að þetta er bara við framkvæmdir innanhúss, svo eru menn með landslagsarkitekt á launum við að rótast í garðinum, leðurklofstígvélakonan skreppur og finnur einhverja viðurstyggilega dverga og smáhýsi sem að harmónera við "innkomuna í forstofuna" Svo er sérhannaður gosbrunnur og tjörn af þar til gerðu fólki en heimilisfaðirinn lætur sig kannski hafa það að berja saman sólpalli sjálfur ef að Visa- kortið er orðið þurrausið!
Síðan er yngsti fjölskyldumeðlimurinn með svefnráðgjafa til að hægt sé að bæla hann niður á kvöldin vegna þess að hann æsist svo í ungabarnasundinu og ungbarnatónlistartímanum og þó að hann sé í ungbarnanuddi róast hann samt ekki nóg til að sofna á kvöldin! Eldri börnin eru hjá skólasálfræðingum og ýmsum fræðingum í íþróttum og tónlist að maður tali nú ekki um skólann, foreldrarnir hjá einkaþjálfa, sjúkraþjálfara, næringarráðgjafa og hjónabandsráðgjafa, og í rannsóknum við fótaóeirð sem ku vera það heitasta núna! Enda löngu búið að greina alla með brjósklos og bakflæði og allir búnir að fá innlegg hjá Össuri. Fjölskyldan er að sjálfsögðu með endurskoðanda fyrir bókhaldið og þjónustufulltrúa í bankanum sem sér um að dreifa innkomunni passlega á viðkomandi iðnarmenn og fræðinga.
Síðast en ekki síst eru foreldrarnir sitt í hvoru lagi hjá sálfræðing til að losna við spennu sem ekki er hægt að losa um hjá hjónabandsráðgjafanum, því að þar eru báðir aðilarnir í hjónabandinu til staðar af því að það er eimitt verið að bjarga hjónabandinu!
En hagkerfið blómstrar sem aldrei fyrr...skítt með það þó að menn séu á vænum skammti af valíum til að meika daginn- enda er valíum líka hluti af hagkerfinu.

mánudagur, júní 6

Kossar

Ef að þú ætlar að kyssa konu þá þarf tvær hendur til, annars vantar alla ástríðu í kossinn!
Þetta var spakmæli dagsins......og ráð sem að vini maddömunnar var gefið sem ungum manni!
Hann hefur þó sennilega oft verið með eitthvað dýrmætt í höndunum , því að honum hefur haldist illa á konum gegnum tíðina!

Samskipti maddömmunnar og bánkafulltrúans

Fyrst skrifaði maddaman bánkafulltrúanum!

Sæll

Vér höfum móttekið kort og hina ýmsustu leynikóða með Post Danmark!!
Kunnum vér yður hina bestu þakkir fyrir aðstoð alla í hörmungum þeim sem yfir oss hafa dunið!
Kveðjur maddaman

svo svaraði bánkafulltrúinn

Glæsilegt,

þá opna ég allt saman, þannig að allar gáttir af okkar góðu sjóðum standa yður opnir.... :)

bestu kv.

Bankafulltrúinn

Maddömunni finnst þetta afbragðs snilld og sárvorkennir þeim ógæfusömu einstaklingum sem ekki eiga jafn skemmtilegan bánkafulltrúa og maddaman!

PS. Maddaman þótti einstaklega efnilegur ruslakarl á sunnudaginn og sérstaklega góð í að bakka traktornum með ruslagámnum, allavega betri en Hjallgrim færeyingur sem að var í æfingabúðum á sama tíma og í fyrra og tók sama atriði og í Austin Power myndinni þar sem var mikið bakkað og ekkert gerðist!!!

laugardagur, júní 4

:o)

Alltaf hleypur á snærið hjá maddömunni en hún er búin að fá nýja vinnu og er þar af leiðandi hætt hjá drengjunum sínum! Maddaman ætlar bara að vera hjá öðrum drengjum í staðinn. Staðan sem að maddömuni áskotnaðist er nokkurs konar húsvarðastaða á görðunum. Ljómandi vinna hreint að undanskildu þeim andskota að maddaman þarf að rífa sig upp á þriðja hvern sunnudag og keyra rusli á litlum auðvirðilegum traktor! Maddaman er í æfingabúðum um helgina og þarf að kaupa sér vinnuvettlinga fyrir næstu törn. Færeyingarnir vinir maddömunnar sem eru að koma henni inn í starfið eru heillaðir af Sleðbrjótskröftum maddömunnar og halda að hún yrði verðugur fulltrúi ættarinnar í sleggjukasti.
Svona smælar heimurinn nú framan í maddömuna alltaf annað slagið þó að hann hrekki hana stundum!

föstudagur, júní 3

oggagogga

Maddaman hefur alveg gleymt að segja lesendum sínnum frá súrrealískri upplifun sem að hún varð fyrir á dögunum í matvörubúðinni. Maddaman var nefnilega í betri búðinni þangað sem að hún fer þegar fer að vanta ýmsar nýlenduvörur eins og sinnep og sólþurkaða tómata og svona.
Nema hvað að maddaman trítlar um í búðinni með sína körfu og svona og er að potast við að láta ofan hana í eitt og annað ( það er ekki eins bágt orðið ástandið hjá maddömunni og ónefndum hjónum sem að hún man eftir versla í kaupfélaginu, þar sem að konan lét vörurnar í körfuna og maðurinn raðaði þeim í hilurnar aftur því að hann var aðhaldssamur maður!!!)
Á undan maddömunni víxlast maður á óræðum aldri í flauelsbuxum með lonníettur tautandi eitthvað fyrir munni sér! Maddaman er nú ekkert að stúdera hann sérstaklega fyrst um sinn en saman flækjast maðurinn og maddaman nú þarna um rekkana. Svo þegar komið er að mjólkurkælinum er komið að því að maddömuna bráðvantar egg. Þá er Flauelsbuxi lagstur á kælinn og rýnir þarna á eggin og tuldrar alltaf eitthvað fyrir munni sér. Maddaman reynir að finna sér það til dundurs að kynnast nýjum kextegundum og eitthvað fleira að gaufa, en allt kemur fyrir ekki maðurinn liggur ótrauður á eggjunum. Maddömunni sárleiðist þetta þóf og hefur engan tíma til að bíða eftir að maðurinn ungi út 400 og eitthvað eggjum og fer nú að þoka sér í átt að kælirnum. Þá áttar maddaman sig á þessum búkhljóðum, maðurinn er að dunda sér við að gagga þarna við kælirinn og það er ekkert svona smávegis gagg, heldur bara eins og gömul ítölsk varphæna á seinna hundraðinu!! Maddaman sá í hendi sér afhverju honum hafði gengið svona seint að paufast inn búðina, það er nú ekkert smá verk að fara gegnum allt dýraríkið og gefa frá sé viðeigandi hljóð!

miðvikudagur, júní 1

afmælisbarnið

Sá næstyngsti af fimm afkomendum Sumarhúsabóndans og konu hans er 17 ára í dag. Maddaman gleymir aldrei þegar hún sá þetta litla stýri í fyrsta sinn. Maddaman var búin að hlakka mikið til komu hennar og gera sér rómantískar hugmyndir um dökkhært hárprútt barn, sem jafnvel myndi skarta slaufu við hátíðleg tækifæri eins og td. skírnina!
En eins og allar óraunhæfar væntingar sem að fólk hefur í lífinu þá stóðust þær ekki. Hún var nauðasköllótt og grettin og þrútin og maddömunni fannst hún bara alls ekki nógu snotur og bar það varlega upp við maddömumóðurina hvort að hún yrði alltaf svona rauð og grettin. Maddömmumóðirin sú lífsreynda kona taldi allar líkur á því að hún myndi jafna sig! Þrátt fyrir vonbrigði fyrstu kynna urðu maddaman og hún fljótt miklir mátar! Tíminn hefur aldeilis ekki staldrað við og nú er hún orðin fullorðin og dugleg stúlka, búin með einn vetur í menntaskóla og komin í vinnu! Maddaman og Jökullinn eru hins vegar næst í röðinni að reyna að fjölga afkomendum Sumarhúsabóndans, þau sýna þó litla tilburði til þess enda seinþroska bæði tvö!!!