fimmtudagur, desember 21

Jólahvað........

Púff.....ég er búin að taka fram ferðatöskuna og hún er strax orðin full.....af jólagjöfum! Það er ekki komin ein einasta spjör ofan í né skór!
Annars held ég að ég sé alveg að verða elliær...í kvöld þá var ég í síðasta leikfimitímanum fyrir jól og þetta er svona lokaður hópur en í kvöld fórum við að mingla við einhvern opinn Hitlershóp sem að var svo erfiður að ég var komin með blóðbragð í munnin eftir 10 mínútur! Nema hvaða að er ekki maðurinn sem ég rauk á og kyssti svo eftirminnilega í forstofunni um daginn í þessum hóp og hann heilsaði vinkonu sinni náttúrulega strax!!! Nema hvað að þessi maður er EKKI Helgi kennari sem var á Eiðum og ég hef ALDREI nokkurn tíma séð hann áður nema þarna þegar ég kyssti hann náttúrulega. Einhver hefði nú þá bjargað þessu með að segja honum að ég farið mannavillt en ég var svo eldrauð í framan með blóðbragð í munninum að ég var ekki alveg í stuði að fara útskýra þessa hegðun mína fyrir manntetrinu!
Veit ekki alveg hvort að ég á kannski bara að skipta yfir í World Class eftir áramót...maðurinn heldur örugglega að ég hafi verið að reyna við sig eða sé gömul viðreynsla eða bara eitthvað þaðan af verra!!!!!
Ekki nóg með það heldur staðnæmdist ég af rælni við óskiladótskassann í Hreyfingu og sannarlega ekki af því að ég taldi mig vanta eitthvað!!! Fyrsta sem ég sé eru rauðir háhælaðir skór af mér sem voru á leiðinni í Rauða Krossinn 30. des ef að ég hefði ekki séð þá þarna!!! Það versta er að ég var ekki búin að taka eftir að mig vantaði þá......! En ég veit að það er ekki langt síðan að var í þeim þarna!!! Ég held svei mér þá að ég fari að fara á hælið sem að mamma hans Skráms er á:o

sunnudagur, desember 17

Køben kallar....

Ég verð að viðurkenna að ég hlakka eiginlega meira til þess að fara til Kaupmannahafnar um miðjan janúar heldur en jólanna, veit ekki hvort að það er mjög guðlegt að hlakkka svona til að komast á útsölurog chilla í borginni minni en.......fataskápurinn er orðinn eitthvað svo tómlegur með haustinu. En jú auðvitað verður notalegt að vera á Íslandinu um jólin það er ekki það. Það snjóar jólasnjó akkúrat núna og voðalega huggulegt inniveður. Kötturinn í húsinu á móti situr í glugganum og skoðar jólaljósin afskaplega spekingslegur og ég er enn í náttbuxunum góðu.

föstudagur, desember 15

Sjálfsblekkingarnar....

Í kvöld fór ég og keypti náttbuxur handa sjálfri mér í jólagjöf sem að ég ætla að telja mér trú um að séu gjöf frá ástríkum unnusta mínum. Um að gera að telja sér trú um það!

laugardagur, desember 9

ógisslega spennnandi............

Orðið steiktur öðlaðist alvega nýja merkingu í mínu lífi í dag. Ég þurfti að hlaupa aðeins í snyrtiv-rubúð og ákvað að gera það í snyrtivörubúð í Kópavogi fyrst að ég var stödd þar. Nema hvað að ég fer að skoða þarna og eigandinn kemur og er mjög kammó og sýnir mér eitt og annað. Í miðjum klíðum kemur einhver stúlkuálfur inn og eigandinn setur hana lauslega inn í afgreiðsluna á mér og fer svo. Ég ákveð mig svo meðan hún er að aðstoða mann sem var að leita að einhverju handa "konunni minni sem á allt"! Síðan kem ég og bið um að þessu sé pakkað í gjafaöskju. Þá byrjaði nú ballið. Stúlkan fann ekki gjafaöskjurnar....þó að hún færi um búðina eins og stormsveipur og togaði út allar skúffur sem hægt var að sjá, um tíma hélt ég að hún væri að bíða eftir því að skreppa saman svo að hún gæti sjálf skriðið ofana í eina skúffuna fyrir framan peningakassann. Ég benti henni þá á öskjurnar sem voru í stafla á borðsenda og spurði hvort að hún gæti ekki notað eitthvað af þeim. Þá var askjan of lítil og hún panikaði yfir því og ég lóðsaði hana í stærri gerðina. Svo hljóp hún um í búðinni inn í bakherbergi að leita að silkipappír og svo þegar hún fór að græja öskjuna þá bara fann hún ekki borðann sem lá þarna beint fyrir framan hana. Ég aðstoðaði með borðann og meðan öllu þessu stóð talaði stúlkan stanslaust um einhverja hluti sem að ég skildi alls ekkki. Glefsur úr hvað verður fínt í nýju búðinni, ilmvatnið sem maðurinn ætlar að gefa henni í jólagjöf, hvað hún hlakkar ógisslega til jólanna og hvor ég væri ekki ógisslega spennt fyrir jólunum og eitt og annað var ógisslegt.En ég fílaði mig sem áttræða þegar ég gekk út og hugsaði bara "blessað barnið"!

fimmtudagur, desember 7

Blessuð baunin!

Það sem á daga mína drífur er hreint ekki eitthvað sem hendir annað fólk! Ég skrapp aðeins í Mál og menningu í kvöld og þar sem ég er að skaka við að bakka inn í stæði ekki sérlega lipurlega þá dettur baksýnisspegilinn í hausinn á mér! Uhu límið sem hann var límdur með á þessa rúðu hefur eitthvað gefið sig. Ég var nú harla ánægð með að vera þó stödd fyrir utan stærstu ritfangaverslun landsins og fór inn og keypti Tonnatak og límdi spegillinn á aftur! Nú er að sjá hvort að hann liggur í sætinu í fyrramálið!!
Ég kvíði fyrir ef eitthvað fleira fer að detta af bílnum sem ekki er hægt að líma með 210 króna Tonnataki!!!!!

miðvikudagur, desember 6

Blogglæsingar.....

Ég er búin að ákveða að læsa blogginu mínu framvegis og hef verið með tilraunalæsingu á því núna undanfarið. Til þess að geta lesið bloggið þarf fólk að eiga gmail og get ég "boðið" fólki gmail og svo gert aðgang að blogginu fyrir það. Þetta er ekki mikið fyrirtæki og mjög gott að eiga gmail til að geyma skjöl á og slíkt, engin krafa um að fólk noti það neitt annað.
Látið frá ykkur heyra með ósk um aðgang.

sunnudagur, desember 3

Smekklegar auglýsingar......

Smit og Norland auglýsa ! Margviðurkennt vöflujárn handa hinum mörgu vöfflufíklum þjóðarinnar!!! Maður veltir fyrir sér hvort að vöflufíklar séu komnir með deild undir OA samtökunum og farnir að hittast í Héðinshúsinu og ræða alvarlegar afleiðingar vöfluáts á líf sitt eða hvort að þeir komi saman einhversstaðar afsíðis og éti vöfflur þar til augun verða blóðhlaupin af sultu.
Misty nærfatabúð augflýsir brjóstahaldara "fylltur og flottur" fyrir nettu brjóstin í BCD skálum og "rosalegur" fyrir stóru brjóstin í CDEF skálum með myndum.
Þetta er líka mjög fyndið með tilliti til þess að glöggir lesendur taka sennilega eftir því að í sömu auglýsingunni eru C og D skálar nett brjóst en í næstu línu fyrir neðan heyra sömu C og D skálar undir rosaleg brjóst!
Konan með rosalegu nettu brjóstin á Ásvallagötunni kveður að sinni;o)
P.S.
Maddaman rúntaði aðeins fram hjá gjöf Oslóar til vinabæjar síns Reykjavíkur áðan. Þvílíka hríslan eins og Túrilla vinkona mín myndi segja. Er ekki hissa þó að það hafi verið grilljón manns að kveikja í þessari hríslu í dag.

föstudagur, desember 1

Magálar maddömunnar.......

Maddaman er búin að vera með magaverk í rúma viku og hafa sumir dagar verið verri en aðrir. Best hefur maddömunni liðið þegar hún hefur legið útaf en það verið ópraktískt að stunda það í vinnunni!!!!
Í gær ákvað maddaman að fara heim úr vinnu sinni sökum verkja og ákvað í morgun að vera heima í dag vegna sömu verkja og leita sér svo lækninga við þeim. Það var auðsótt mál að fá tíma hjá lækni kl 16.20 í dag og gekk maddaman frá þeirri tímapöntun kl 9:00 í morgun. Maddaman hlakkaði nú ekki sérstaklega til að láta bráðókunnungan mann þreifa magála sína og jafnvel kynna sér fleiri óaðgengilegri svæði. Nú undir hádegið ákvað þessi verkur bara að hverfa af sjálfun sér og maddaman orðin eins og tvævetla á ný. Afboðað hefur verið deitið með magálamanninum og allt er eins og blómstrið eina hér í póstnúmeri 101!