fimmtudagur, ágúst 31

Hressóblogg nr II

Maddaman er örugglega komin á terrorlista hjá Samskipum fyrir að vera búin að plaga þá daga og nætur um þennan afleggjara af búslóð. Flestir ættingar og vinir leggja af stað úr bænum í kvöld til að missa örugglega af þessum flutningum!
Maddaman er líka komin með flensustofn haustsins og hefur mest verið í láréttri stöðu síðan seinnipartinn í gær. Brauðstritið byrjar á morgun en þá skilst madömmunni að fara eigi fram sýnikennsla á kaffivélina og er það meginþema fyrsta dagsins! Maddaman tók þó hverfisrölt í morgun og fór aðeins í Melabúðina og sýnist ekkert hafa breyst mikið á þessum 9 árum síðan að maddaman bjó á þessum slóðum!
Í þessum töluðum orðum eru einhverjir hnakkar og undarlegar kvensur í þeirra selskap að bjóða maddömunni að setjast hjá sér ef að ske kynni að henni leiddist....maddaman sagðist skemmta sér konuglega við að hlusta á vitleysuna í þeim og þar með var málið dautt!!!

P.S Liðið við hliðina á mér er alveg að snappa....allt í einu var komin fingur hér yfir tölvuskjá maddömmunnar, eigandinn auðvitað hnakkinn á næsta borði! "Hej nú var ég næstum búin að bösta þig á klámsíðunum!!!! Maddaman sendi honum hárfínt bros samansett af vítissóda og saltsýru! Maddaman veltir fyrir sér sálarástandi svona liðs (þau eru búin að bögga alla á borðunum í kring og þekkja engan)

miðvikudagur, ágúst 30

101 Reykjavík.......

Fyrsta bloggið úr 101. Maddaman situr á Hressó, er formlega flutt til landsins bæði líkamlega og á pappírum. Er búin að eiga við bæði tollheimtumenn og farisea daglega. Búslóðin kemur í dag eða morgun;O) Sjálfboðaliðar óskast.....Íbúðin æðisleg og maddaman er búin að fá allskona flassbakk síðan í gamla daga þegar hún bjó í Vesturbænum! Sami kallinn í Gerplu og bræðurnir í Kjötborg alveg við sama heygarðshornið! Stutt að heimsækja vinkonurnar og vinnan hefst á föstudaginn.

fimmtudagur, ágúst 24

Like a virgin.....

Madonna er mætt til Danmerkur og maddaman kveður. Landið þoldi bara ekki að hafa tvær svona bombur.....;O)
Se jú in 101.......

Leaving Las Vegas.......

Nú hefur maddaman upp raust sína í síðasta skipti úr Kardimommubænum J-604. Hér húkum við Páll í vægast sagt tómum kofunum, ekkert eftir nema skúra sig út og bloggum síðasta danska bloggið. Maddaman ætlar nú samt að kúra í sínu rúmi í nótt og kveðja það vel og vandlega áður en það tekur að þjóna nýjum eiganda. Hafurtask maddömunnar fór áleiðis til skips í dag og geta ættingjar og vinir farið að streyma úr bænum undir næstu helgi en þá kemur góssið. Frumbýli í 101 hefst á mánudag og alvara lífsins viku síðar. Fyrir næstu flutninga eftir tvö ár u.þ.b. ætlar maddaman að vera búin að finna sér mann sem að getur eitthvað við flutninga (og kannski stautað eitthvað annað í lífinu), einnig væri gott að hann ætti íbúð.....eða kapítal til að fjármagna slíka.
Maddaman er þó búin að ákveða ef að fósturjörðin og ábúendur verða ekki góðir við maddömuna þá snýr hún aftur til Dana!!!!
Farvel Frans!

sunnudagur, ágúst 20

Allir bogna þeir í sömu áttina....

Ofan í allt saman er maddaman búin að tileinka sér göngulags Jóhannesar Páls páfa heitins með ívafi af hinu kynþokkafullu göngulagi hringjarans frá Notra Dam. Það verður sjón að mæta maddömunni í Keflavík, en allt hefst þetta nú að lokum

fimmtudagur, ágúst 17

Kleppur hraðferð.......

Hér er allt að verða eins og á vitleysingahæli. Áðan kom kona með svo mikið plast að það er örugglega hægt að plasta húsgögn allra þeirra sem að búa á ganginum og eiga afgang. Kössunum fjölgar bara og fjölgar og maddaman er næstum viss um að þetta endar bara eins og þegar Gógó frænka (the one and only) kom með gáminn frá Noregi forðum daga og enginn treysti sér til að taka upp úr kössunum og þeim var bara hlaðið inn í eitt herbergið!!!! Maddaman búrast við gluggann í stofunni með fartölvuna undir annarri hendinni. Maddaman reiknar fastlega með hvíldarinnlögn á Klepp strax við heimkomu og allir eru velkomnir på besøg!!
Bytheway eldhúsborðið og stólarnir eru ennþá til sölu......

þriðjudagur, ágúst 15

Bloggedíbloggedíblogg

Maddaman er að verða búin að pakka mestöllu lífi sínu í kassa. Sumarhúsarbóndinn sem samkvæmt heimildum býr víst í heilsárshúsi(he,he) átti 66 ára afmæli í gær. Fram fóru hefðbundin hátíðarhöld í Sumarhúsum.
Maddaman getur ekki alveg gert upp við sig hvort að hér verður haldið áfram að blogga við heimkomuna. Ástæðan er náttúrulega sú að í upphafi var lagt upp með að maddaman bloggaði til að halda við kjarnyrtri íslenskukunnáttu sinni og sérílagi stafsetningu, en farið var að bera á því að maddaman mundi ekki hvernig stafsetja ætti einstaka orð. Maddaman fer að tala kjarnyrta íslensku við skjólstæðinga sína þegar heim verður komið og leysir þar með þetta mál. Held að þetta verði látið ráðast allt saman, fer eftir því hvursu mikinn innblástur maddaman fær á Hlemmi!

föstudagur, ágúst 11

Langfeðgatal......

Bara til að míga utan í fræga fólkið eins og öll íslenska þjóðin gerir þessa dagana.

Jóhannes Jóhannesson Guðrún Jónsdóttir
14. september 1850 8. ágúst 1859


Þorbjörg Sigrún Jóhannesdóttir 1891 - 1984 Guðrún Helga Jóhannesdóttir 1896 - 1951
Arngrímur Magnússon 1925 Sigurbjörg Björnsdóttir 1914 - 1995

Ásgeir Arngrímsson 1949 Stefán Sigurðsson 1940
Guðmundur Magni Ásgeirsson 1978 Sesselja Björg Stefánsdóttir 1977


Já já við Magni kallinn erum fjórmenningar, veit ekki hversu vel ættartengslin sjást. En svona fyrir þá sem ekki átta sig voru Guðrún og Jóhannes hjón og áttu mörg börn þar á meðal langömmur okkar Magna þær Sigrúnu og Helgu. Helga átti svo Arngrím sem að er afi Magna og Sigrún áti svo Sigurbjörgu sem að var amma maddömunnar.
Maddaman er reglulega ánægð yfir velgengni hans og finnst hann ekki hafa notið sannmælis sem söngvari á klakanum. Er bytheway búin að lofa góðvinkonu að kenni henni að telja svona "menninga"!!!!! Lífið er stundum svo fyndið.....

fimmtudagur, ágúst 10

Boltaland rúlar......

Þegar við Páll erum blúsuð og syfjuð og leið á störfum okkar bregðum við okkur inn á barnaland.is þar sem viskan er ekki reidd í þverpokum. Þar finnum við alltaf eitthvað til að hressa okkur við og í dag var í boði að segja frá óvenjulegum stöðum sem að þessar ágætu konur hafa stundað kynlíf á. Maddamman nennir nú ekkkert að tíunda þetta fyrir ykkur en þótti tvennt toppa þetta og það var á sjúkrahúsinu á Blönduósi og viðkomandi var sjúklingurinn (kom ekki fram hvort að það hefði verið á fæðingardeildinni) og hins vegar í boltalandi í IKEA og svo upp við Fjórhnjúkagíg eða Þríhnjúkagíg sem að maddaman hefur aldrei heyrt minnst á!!!!! En getur auðvitað vel verið til fyrir því!! Jámm.....misjafnt hafast mennirnir að.......

miðvikudagur, ágúst 9

Mjúka myrkrið......

Uppáhaldsmánuðir maddömmunar hafa alla tíð verið ágúst og september, af því að þá er myrkrið svo mjúkt og haustveður á Héraði geta verið ótrúlega falleg og slegið út góða sumardaga sem þó gerast bestir á Héraðinu. Kannski hefur það líka með það að gera að yfirleitt alltaf hafa verið kaflaskil í lífi maddömmunnar á haustin og nýr spennandi tími framundan, yfirleitt skólaganga. Maddaman hefur alltaf sagt að hún ætlaði að gifta sig í september af því að þá væri hægt að taka myndir í haustlitunum. Ekki að það sé verið að plana giftingar neitt, ó nei það eru aðrir sem að verða fyrri til en maddaman enda með afbrigðum seinþroska í sumu.

mánudagur, ágúst 7

Litlir kassar á lækjarbakka........

Á daginn slæst maddaman við Pál og hitann. Á kvöldin fer Páll í frí og maddaman berst við að pakka lífi sínu niður í þartilgerða flutningskassa sem glöggir lesendur muna að keyptir voru í janúarmánuði! Maddaman ætlar ekki að fara mörgum orðum um allan þann óþarfa sem að hún hefur rekist á meðan hún hefur pakkað í þessa 15 pappakassa sem búið er að pakka í. Svo er verið að tala um að námsmenn séu blánkir eins og kirkjurottur.
Skuggalegasta við þetta alltsaman er að stór hluti af kössunum er fullur af blessuðu postulíninu, sem að ein kélling brúkar auðvitað sjaldan. Hinsvegar möguleiki á að maddaman fengi not fyrir þetta í Fjáreyjum þar sem fjölskylduboðin tröllríða öllu.....en færeyski sætisfélagi maddömunnar sagði henni meðal annars á leiðinni að konan hans (sem er dönsk) treysti sér ekki til að flyta til Fjáreyjanna útaf "social kontrol" og öllum þessum kaffiboðum!! Þá glotti maddaman!
Annars gleðst maddaman yfir öllu smálegu þessa dagana og meðal annars yfir því að leigusalar hennar sögðust líta á maddömuna sem bara eitt nýtt auka barn í fjölskylduna. Leigusalarnir eiga 5 stykki og munar ekkert um eitt barn til. Alltaf gott að vera velkomin þar sem maður kemur.

þriðjudagur, ágúst 1

Glaðir ríða Noregs menn til Hildar ting.......

Maddaman gerði góða för til Fjáreyjanna og er hálf þunglynd yfir því að hafa þurft að yfirgefa þokuna og rigninguna og koma heim í svækjuna til Páls.
Maddaman brunaði um eyjarnar og smalaði lítillega til rúnings með fjárbændum, vitjaði sögustaða og verslaði í Rousa.
Gestgjafarnir voru betri en nokkrir hótelhaldarar og matreiddu skerpikjöt og allskyns kræsingar handa maddömunni mörgum sinnum á dag. Maddaman gat þó alveg hamið sig yfir hvalspikinu sem að þessi ágæta þjóð gaddar í sig eintómt. Maddaman sló í gegn með því að skilja færeyskar samræður þrátt fyrir að bæði ákavíti og fleira gott væri komið í spilið. Hápunkturinn var svo sjálf Ólafsvakan sem gengur út á það að þramma upp og niður götu sem er rétt rúmlega lengri en Bankastræti og hitta fólk. Veðrið var reyndar ansi þokukennt og vott og ausandi rigning seinni nóttina. Færeyski gestgjafinn kvað maddömuna heilsa fleiri innfæddum en gestgjafinn sem þó er borinn og barnfæddur í Þórshöfn!!!!
Laugardagskvöldið sem er aðalkvöldið var þó mesta snilldin en þá tók maddaman þátt í söngnum með innfæddum og fótatraðkaði svo hraustlega á eftir og söng Orminn langa sem er eina færeyska lagið sem maddaman kann. Maddaman komst í kynni við marga efnilega færeyska piparsveina sem allir voru voðalega lítið fráskildir og eiginlega býsna efnilegir, doldið litlir kannski en eins og alltaf röltu myndarlegustu mennirnir um með barnavagna!!!
Annars sá maddaman skýringuna á því afhverju færeyskir karlmenn eru svona kýttaðir í herðunum en það er auðvitað afþví að göturnar eru svo hroðalega brattar og barnavagnarnir svo þungir.
Hápunkturinn var þó íslenski strákurinn sem ætlaði að hössla eina færeyska og stóð í þeirri meiningu að maddaman væri færeysk (afþví að maddaman er seig í færeyskunni) þangað til að maddaman sprakk úr hlátri! Færeyjar svo urla stúttlige!!!