þriðjudagur, maí 31

Ranghverfan...

Maddaman heldur að einhverfa hennar sé að ná hámarki og vonast til að það muni vindast aftur niður af henni seint og um síðir!
En að öðru, hvað er þessi indverjatittur að vilja upp á klakann, svona líka öfga metró eitthvað og hallærislegur kallgreyið, svo er hann grasbítur og ekkert hægt við hann að gera nema opna í hann rúllu! Þessi síðasta setning var í boði bænda á Héraði sem álíta það jaðra við bilun að lifa eingöngu á grænmeti!

sunnudagur, maí 29

Fótatraðkur

Maddaman situr og hlustar á frændþjóð sína Færeyinga kyrja slagara út í garði og mun sjálfsagt bresta á með fótatraðki sem að þýðir dans á færeysku hvað úr hverju. Maddaman getur þó ekki verið að agnúast út í þetta með tilliti til að að hún sjálf sat í sama garði í gærkveldi fram á nótt en var þó ekki að syngja. Maddaman fór nefnilega að spila brennó með íslensku stelpunum hér í gær og það endaði með hvítvínsdrykkju í garðinum. Maddaman þótti fórna sér óþarflega mikið í leiknum með því að henda sér niður en sannleikurinn er sá að maddaman er alltaf á nálum í boltaleikjum um að fá boltann í andlitið. Þarna voru líka skotglaðar konur en að sama skapi ekki sérstaklega markvissar. Maddaman gleymir heldur aldrei þegar jökullinn óviljandi dúndraði fótboltanum í andlitið á henni á Hálsakotsvellinum og tilfinningin þegar gleraugun voru að hamrast inn í hausinn á henni en brotnuðu þó ekki!

fimmtudagur, maí 26

Litli prinsinn

Refurinn í bókinni um Litla prinsinn hvíslaði leyndarmáli að Litla prinsinum: Þú sérð ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er hulið augunum. Maddaman er nefnilega búin að átta sig (reyndar fyrir löngu) á því að þegar lífið er að stríða fólki og það hallar upp á móti þá komi í ljós hverjir eru fágætir í kringum þig. Heimildarmenn maddömunar segja henni reyndar að skilnaðir séu ágætis mælistikur á það. Maddaman skal ekki um það segja fyrr en á hefur reynt!

miðvikudagur, maí 25

Jómfrúarbloggið.....

Fyrsta bloggið á nýju tölvu á maddömunnar! Maddaman ætlar að þreyta lesendur sínar með að útmála hverslags bras þetta hefur verið og gefur ykkur örlítið tóndæmi.
Mánudagur, maddaman fer í búð í nágrenninu í fyrradag og ætlar að kaupa tölvuna. Talvan ekki til. Kemur sennilega á miðvikudaginn, maddaman búin að læra af samskiptum sínum við þessa þjóð að þá kemur talvan örugglega ekki fyrr en í næstu viku ef ekki bara aldrei! Maddömu ráðlagt að beina viðskiptum sínum annað. Maddama fer í gær á annan stað eftir að hafa símað og kynnt sér að gripurinn sé til þar og spurt hvort móttekið sé Visa-kort, mikil gleði brýst út hjá madömunni, það er gleði sem að víst mátti spara sér. Þegar komið er á staðinn getur búðin ekki móttekið þar til gert alþjóðlegt Visa kort af því að þar er ekki til posi!!!! Benda maddömunni á að beina viðskiptum sínum annað! Dagur 3 hjá Skrámi og maddömunni hefði eiginlega átt að byrja með viskí af fenginni reynslu. Maddaman kynnir sér hvort að umrædd talva sé komin á stað númer eitt, af því í dag er miðvikudagur. Talva ekki komin og kemur kannski á föstudaginn! Maddömu boðið að kaupa sýningareintak á fullu verði sem að allir rónar bæjarins eru búnir að þukla og hnerra yfir. Maddaman afþakkar það hljóðlega! Þá er þriðji staðurinn þefaður uppi og þar leynist eitt eintak og þar eru til posar og allar hugsanlegar leifar tæknibyltingarinnar leynast í bakherberginu! Maddaman mætir galvösk með kortið og passann og fjölskyldualbúmið nánast til að gera grein fyrir sér. Upphefjast nú þvílíkar hringingar að maddaman telur að það hefði jafnvel verið auðveldara að ná samband við geimskip en við danska visakortfyrirtækið. Pilturinn kemur úr símanum og tilkynnir maddömunni að það sé ekki heimild fyrir þessu bruðli og hún verði að biðja bankann um að liðka til fyrir því. Maddaman gerir það og bankinn setur heimildina í nánast óendanlegt til að liðka fyrir þessu.
Aftur fer maddaman til piltsins og enn afþakkar danska þjóðin þessar íslensku spírur. Pilturinn léttir ekki lund maddömunnar með því að tjá henni að það hafi alltaf verið nóg heimild á kortinu, það sé eitthvað annað að. Það er nefnilega það. Maddaman vill fá að vita hvað það er en það er ekki hægt því að dönsk þjónustulund finnst ekki!!! Maddaman heyrir þá í skólabróðurlandsbankafulltrúanum í 3 skipti þennan daginn og hann lætur vekja forstjóra Visa Island til að létta á einhverjum varnarmálasáttmála við Danmörku! Forstjórinn gerir það með fullan munnin af smoothie og öðru heilsufæði og enn fer maddaman á stúfana í búðinni.
Allt er þegar þrennt er og nú er ekki hægt að komast undan þessum viðskiptum við maddömuna. Hún neitar hins vegar að kaupa af þeim ýmsan óþarfa sem að þeir telji að hún hafi þörf fyrir eins og þráðlausar mýs og töskur og ýmislegt dót!! Maddaman telur þetta vera mjög lýsandi um hvernig það er að eiga viðskipti við dönsku þjóðina. En hvað um það talvan er komin í hús þannig að nú er hægt að bretta upp ermarnar!!!

þriðjudagur, maí 24

Frumbyggjar

Maddaman ætlaði eiginlega ekki að blogga fyrr en nýja talvan væri komin í hús. En þrátt fyrir að madddaman hefði mikil útispjót í dag þá tókst það ekki! Maddaman er óskaplega þreytt á að leika Pollýönnu um þessar mundir og óskar sér að vera horfin til frumbyggja sem ekki eru plagaðir af vestrænum lifnaðarháttum og gerfiþörfum hverskonar. Maddaman gæti hugsað sér að gegna einhverri virðingarstöðu hjá ættbálknum til dæmis að vera með veðurhorfurnar á hreinu eða eitthvað! Þetta er þó sennilega staða sem ekki er hægt að sækja um frekar en að verða páfi. Maddaman vonar bara að það verði netsamband hjá ættbálknum......

mánudagur, maí 23

Norður og niður....

Ein helsta skemmtun maddömunnar í útlegðinni er að horfa á Út og Suður á netinu, þar sem kunnugleg andlit hafa verið á ferðinni undanfarið. Maddömuna óaði þó ekki fyrir því að það væri lykilnn að blómlegum fyrirtækjarekstri að hafa framliðna við störf eins og kom fram í síðasta þætti!

Kardemommubærinn

Maddaman telur sig vera búin að syrgja innbrotið í Kardemommubæinn nóg (eins gott að þjófarnir voru ekki á höttunum eftir Soffíu frænku sjálfri!!) Í samvinnu við banka allra landsmanna og skólabróðurbankafulltrúans (sem að maddaman talaði svo lengi við í síma um jólin að kona Sumarhúsabóndans hélt að maddaman væri að tala við einhverja vinkonu sína!) stendur til að fjárfesta í nýrri tölvu í vikunni! Neyðarplönin voru þau að maddaman tæki að sér að esskorta ljúfa bissnessmenn einu sinni í viku fram undir sláturtíð en þetta bjargaðist. Önnur fjáröflunarleið er sú að sarga á harmonikku fyrir framan verslunarmiðstöðina en miðað við útganginn á viðkomandi einstaklingum telur maddaman að hún muni einungis geta safnað sér fyrir vasareikni!
Þá fara nú hjólin að snúast á nýjan leik í lífi maddömunnar og leikritið getur haldið áfram. Maddömuna langar hins vegar til að biðja lesendur sína um að hafa augun opin ef að þeir vita af ljúfu ljóni sem langar að flytja til Köben og gæta 28 fermetra íbúðar og einnig væri gott ef ljónið gæti gripið í létt heimilisstörf!
Að lokum vill maddaman bjóða maddömmusysturina sem er ein sinna tegundar eins og þar stedur velkomna í hóp lesenda. Það hlaut að draga til tíðinda með þessi góðu rannnsóknargen!!!

fimmtudagur, maí 19

Ófarir madömunnar

Maddaman segir sínar farir ekki sléttar! Á hátíðinni hans Jesús um helgina var brotist inn hjá maddömunni og kærustu eigum hennar stolið svo sem báðum fartölvunum bæði þessari nýju og þeirri gömlu, peningaveskinu, Ipodinum, lyklum að íbúðinni og peningum. Þetta gerðist um hábjartan daginn meðan húsið var fullt af fólki og enginn heyrði svo mkið sem jarm. Maddaman hafði brugðið sér frá í einn og hálfan tíma til að læra! Það sem er verst af öllu er að hluti af lokaritgerð maddömunnar og ýmislegt skóladót er inni á fartölvunni. Það er því grámórautt skapið í maddömunni um þessar mundir og lái henni það enginn!!

fimmtudagur, maí 12

Kviss

Það er útilokað að maddaman fari að semja kviss um sig, til að lesendur hennar geti keppt í því hver þekkir hana best. Ástæðan er einföld maddama hefur framkvæmt svo marga lygilega hluti um ævina að þeir sem að þekkja hana best myndu ekki einu sinni trúa því og kolfalla þar af leiðandi!!!

Útburður...

Þá er síðasti útburðurinn í bili búinn og búið að skúra sig út úr dyrum. Vinkonur maddömunnar flúnar á ný mið, önnur til Íslands fyrir rúmri viku þar sem hlutirnir gerast greinilega en hún er búin að fá sér vinnu og bíl og íbúð svo lítið eitt sé upp talið!
Hin vinkonan flutt upp í afdali með danska manninn, gamla barnið og nýja barnið sem er alveg að fara að fæðast! Það er ekki laust við að maddaman verði pínulítið angurvær yfir vinkonumissinum og einnig vegna þess að óneitanlega fer að styttast í það að maddaman þurfi sjálf að fara að skúra sig út. Maddaman er voðalega hrædd um að hún muni fella tár ekki af því að það verði erfitt að flytja, heldur vegna þess að vissum kafla í lífinu mun ljúka. En það borgar sig ekki að taka út sorgirnar fyrirfram!
Það barst til tals áðan að það er einkennilegt hvað menn eru lítið spenntir fyrir því að hjálpa öðrum að flytja og allir eru mjög uppteknir þá af ýmsustu verkum. Maddaman er búin að standa í miklum flutningum um dagana bæði fyrir sjálfan sig og aðra. En þegar hún fer að hugsa til baka þá hefur hún oftast verið ein, síðast þegar hún flutti fékk hún hjálp með rúmið og sófann sem að var það eina sem að hún gat ekki sett á herðarnar! En það er líka fínt að vera sjálfum sér nógur.
En maddaman hefur engar áhyggjur af því að hún þurfi að flytja ein næst, því að Brennu-Böðvar er búin að bjóða fram aðstoð sína og vinkonurnar tilvonandi eiginmenn sína!!!! Miðað við undirtektirnar á síðasta bloggi telur maddaman ólíklegt að eiginmaður hennar verði með í flutningunum!!!!

þriðjudagur, maí 10

;o)

Maddaman hefur engin hjúskapartilboð móttekið enn og engin aðdáendabréf! Þó er komin vilji frá einni góðri vinkonu að skaffa einhverja kandídata, en maddömuna grunar að þeir séu ekki Skagfirskir og eigi jafnvel ítök í mafíunni sem að getur nú sossum komið sér vel !

mánudagur, maí 9

Makablogg....

Maddaman sér að menn er með öll spjót úti í makaleitinni og meðal annars að nota bloggið til að koma frá sér tilfinningum sínum, leita ráða í ástamálum og slíkt!
Ekki vildi þó betur til en að aðilinn sem verið var að lýsa velþóknun sinni á blogginu en jafnframt brigsla um framtaksleysi í samskiptum hafði samband við viðkomandi bloggara og frábað sér umtal á bloggsíðunni.
Maddaman var ekki búin að átta sig á að hér væri staðurinn til að auglýsa eftir lítið notuðum, kassavönum, drykkfelldum skemmtilegum hestamanni, gjarnan Skagfirðing og mætti eiga örlítinn kvóta, sama af hvaða dýrategund!!! Þetta finnst maddömunni ekki miklar kröfur og skorar á lesendur síðunnar að beina öllum svona mönnum á síðu maddömunnar og þá geta lesendur fylgst með þessu ferli í beinni og engir óþarfa milliliðir!!!

Rit

Maddaman á sér draum eins og svo margir sem betur fer.
Sá draumur er að koma einhverju frá sér á prenti einhverntímann sem að kengur væri í eins og Jökullinn mundi orða það!
Þess vegna er maddaman alltaf að "niðurhala" efni og verður misjafnlega ágengt en stundum rekur á fjörur hennar fólk sem að eys úr brunni sínum gott betur en hálfu lífshlaupinu og jafnvel hlaupum margra annara íslendinga! Verst af öllu er að maddömunni finnst að það sé búið að skrifa allt sem þarf að skrifa og kannski lítið nýtt koma fram á sjónarsviðið. En maddaman á líka eftir að ná upp 5 ára svelti á íslenskum bókmenntum og þetta sem að hún nær að lesa á hlaupum í Árnastofnun og fyrir háttinn á Íslandi er náttlega ekki upp í nös á ketti.
Las samt lungann úr ævisögu danska forsætisráðherrans í bókabúðinni í tveimur áhlaupum, vinahópnum til mikilar undrunar og uppástendur hann að það sé ekki hægt að lesa bækur standandi í búðum!
En ritdraumurinn mun vonandi rætast á næsta ári.....þrátt fyrir að erfitt verði sennilega að krydda meistararitgerðina með sögum úr mannlífinu!!!

fimmtudagur, maí 5

Sleðbrjótskraftar

Maddaman er í óvenju miklu bloggskapi og leiðari dagsins kemur til að við þrif snéri maddaman sundur skaft nokkurt sem að á endar á sköfu sem að staðsett er á baðherbergi maddömunnar. Þessi skafa er ætluð til að ýta vatni af gólfinu í áttina að niðurfallinu en þetta léttir umgang á þessu kamersi til muna. Maddaman hefur ekki tölu á því hversu mörg svona sköft hún er búin snúa sundur síðan hún hóf búsetju á flatneskjulandi þessu.
Þessir kraftar maddömunnar hafa fylgt henni alla ævi og var hún ung að árum þegar hún rogaðist inn með mjólkurgrindurnar af tröppunum býsna roggin með sig.
Hins vegar voru engin fagnaðarlæti hjá Sumarhúsabóndanum og frú þegar sama dama þá 7 ára sneri sundur bíllykilinn á bifreið sömu hjóna, í einu af fáum sumarfríum fjölskyldunnar á Akureyri. Fyrir einhverja slembilukku var þó varalykill staddur í hanskahólfinu og fékk maddaman ofanígjöf og vinsamleg tilmæli um að halda krumlunum frá lykli þessum.
Nú svo var maddaman liðtæk í böggum rigningarsumarið mikla og síðast en ekki síst góð í því að lyfta nýbornum rollum yfir milligerðin í fjárhúsunum, Sumarhúsabóndanum til skelfingar. Einu sinni brá hann sér nefnilega í kaupstað og maddaman var heima hjá rollunum og svo bar ein bústin tvævetlan á meðan og eina leiðin til að koma henni vel fyrir til bráðabirgða var að lyfta henni yfir. Svo kom Sumarhúsabóndinn heim og fór að athuga aðstæður og spurði maddömuna hvernig tvævetlan hefði eiginlega komist yfir milligerðina. Þegar maddaman sagðist hafa lyft henni yfir, þá glotti Sumarhúsabóndinn aðeins og sagði;Nú ætli mig muni þá nokkuð um að lyfta henni til baka!

þriðjudagur, maí 3

allt í drasli....

Maddaman horfði á þátt í vetur sem að er sýndur á Sýn og heitir Allt í drasli, þetta var fyrsti þátturinn sem var sýndur. Maddaman horfði svo með öðru auganu á þætti sem eru á netinu áðan! Maddaman ætlar ekkert að fjölyrða um draslið í þessum húsum en á öllum stöðunum 4 sem að maddaman hefur séð hafa verið húsdýr. Á þremur stöðum var köttur og á einum stað hundur. Maddaman hefur líka tekið eftir því að það virðist ekki fara vel saman að eiga svo 3 stk börn, þá virðist mönnum verða það ofviða að henda nokkrum sköpuðum hlut eða bara vaska upp! Merkilegt að hvorugt er á óskalista maddömunnar að eiga kött eða bara húsdýr og þaðan af síður mörg börn!!!! Hlýtur að benda til að það verði snyrtilegt á heimili hennar!

Sumarið komið...

Það er 20 stiga hiti hjá maddömunni í dag og ömmubróðir hennar heitinn hefði bætt á sig ullarpeysu ef að hann hefði verið að slá. En það var hans siður að klæða af sér hitann og sást oft við slátt með orf og ljá í þykkum ullarpeysum. En hann slær ekki meira hérna megin og óvíst hvað hann er að fást við hjá honum Gvuði!
Maddaman er annars að sækja í sig veðrið við lesturinn rétt eins og vant er þegar "kvikasilfrið mælinn tryllir" reyndar í öfuga átt við það sem Stuðmenn sungu um!

sunnudagur, maí 1

Dagur verkamanna.......

Dagur verkalýðs hefur sannarlega verið haldinn hátíðlegur hérna á Eyrarsundssgarði.
Fyrst fór maddaman ásamt Hróarskeldubændunum á safn hérna í nágrenninu sem að heitir Litla-Myllan og er gömul mylla eins og nafnið gefur til kynna, sem að var upphaflega malað korn í en var innréttuð sem íbúðarhúsnæði um 1920 og það ekkert smá húsnæði! Húsmóðirin bjó þarna fram undir 1972 en þá fór hún á elliheimili og það er bara eins og hún hafi skroppið út í göngutúr, inniskórnir og sloppurinn í forstofunnni. Þetta var afskaplega gaman! Maddaman sér í hendi sér að maddömumóðirin mundi hafa gaman af slíkri kynningu.
Nú síðan var haldið heim og snædd súkkulaðikaka sem að maddaman bakaði i tilefni dagsins og svo kíkti stórfjölskyldan ofan úr Herlev við í kaffi þannig að þetta var allt hið besta mál.
Maddaman er hins vegar alveg afvelta eftir þetta súkkulaðikökuát og hyggst reyna að taka hraustlega á því í bikkinu á morgun:o) Batnandi mönnum er best að lifa.......