miðvikudagur, mars 30

Hjartanlega.....

Maddaman var aldrei þessu vant viðlátin á fréttatímanum og horfði á ýmislegt sem fyrir bar í honum. Meðal annars um blinda sem að voru á handverksnámskeiði og er ekkert nema gott um að það að segja. Nema að maddömunni finnst ekki traustvekjandi að blindir séu mikið að föndra með vélsögum......enda tók fréttamaðurinn sérstaklega fram að enginn þáttakandanna hefði slasast á námskeiðinu.... en maddaman sér með skelfingu fyrir sér blóðsúthellingar þegar þáttakendurnir skella sér út í jólagjafaframleiðsluna heima í stofu!!
Sparnaðarráð dagsins er allavega ekki að kaupa hjartarhakk á tilboði í búðinni....maddömunni fannst á lyktinni sem að elgurinn væri kominn með hornum og öllu tilheyrandi heim í stofu í fengitímafíling! Bragðið var eftir því...

mánudagur, mars 28

Skattmann

Jæja páskaegg maddömunnar er á hraðferð um holræsin en á hana herjuðu uppköst í tilefni páskanna. Aumingja maddaman hélt að hún væri að andast í þessu ferli sem að uphófst þegar verið var að gera skattaskýrsluna, en systir var á línunni með faglega ráðgjöf um skattamál. Maddaman pantar að kasta ekki upp á komandi meðgöngum! Sæðisgjafinn þó ekki fundinn.....

föstudagur, mars 25

Lange Fredag

Maddaman er orðin hálf þreytt á Hugh Grant sem að virðist vera fluttur inn í danska sjónvarpið á stórhátíðum í væmnum "stelpu og fjölskyldumyndum" sem eru mjög fjarri raunveruleikanum og er alls ekki nógu "ruddaleg týpa" fyrir maddömuna.
Hins vegar brá maddaman sér í göngutúr um Kristjánshöfn í dag í góðviðrinu eins og allflestir á eyjunni Amager og var það hið besta spásseri. Maddaman tekur stundum félaga Ipod með sér en ekki þegar hún þarf að viða að sér efni um náungann. Ein af piparjónkupassjónum maddömmunnar í þessu lífi fyrir utan það að safna postulíni er að stúdera fólk og þá er Kaupmannahöfn nú aldeilis staðurinn. Hér er svo mikið af mismunandi fólki sem betur fer. Í dag sá maddaman td. manninn sem að sat á næsta borði við hana á kaffihúsi fyrr í vikunni ásamt móður sinni sem að einnig var með í för. Maðurinn með apanna á lírukassanum í rauðu dressi með stóra gyllta hnappa var einnig á vappi með félaga sínum. Hamingjusömu pörin sem vappa um með afurðir sínar í vögnum og kerrum. Líka óhamingjusömu pörin sem pexa og strunsa svo á undan hvort öðru í mótmælaskyni við rangar replikkur í leikþættinum. Svo var það konan í tiger pilsinumeð kaupstaðarlyktina sem að slagaði út af búllu í Kristjánshöfn og söng hástöfum fyrir maddömuna og tvo myndarlega stráka sem að teymdu hjól og spjölluðu um djammið í gær.
Svo voru miðaldra hjón með hálfvaxna unglinga sem að smsuðu félögunum stanslaust um hvað þetta væri glatað að vera á þessu rölti með gamla fólkinu. Svo eru það einfararnir og að sjálfsögðu maddaman kerlingartetrið!

fimmtudagur, mars 24

Grafarþögn....

Maddaman hefur haft það ákaflega rólegt í dag. Þykist vera að læra en veit betur innst inni.....!
Kona sumarhúsabóndans hringdi í bítið og lá það helst á hjarta hvort að maddaman ætlaði að fara og ná í Fischer kallinn á völlinn. Maddaman reiknar með að Sæmundur verði á vellinum keikur á kantinum (eins og maddaman lærði af únglingunum á Íslandinu) í einhverju hlébarðadressinu!
Hins vegar er það alveg merkilegt með maddömuna að hún er hálf óróleg yfir þögninni í húsinu og minnti það maddömunna á hobbita nokkurn af Héraðinu sem að bjó með aldraðri móður sinni! Gamla konan var afskaplega málgefin og svolítið svona tuðin (þetta nýyrði heyrði maddaman líka um daginn og þótti sérstakt) Síðan fór móðirin eitthvað af bæ og sonurinn varð eftir heima. Hann bar sig svo upp við granna sinn og sagði honum að hann vissi svei mér þá ekki hvort hann væri þreyttari á tuðinu í mömmu sinni þegar hún væri heima eða þessari grafarþögn sem að ríkti þegar hún væri að heiman!
Svona fer maddömunni eins, hún veit ekki hvort hún er þreyttari þegar þögn ríkir á ganginum og hún veit að börnin hamast á herðablöðum foreldra sinna í þröngum íbúðunum, eða þá þegar allar dyr standa upp á gátt og börnin skakast um á ýmsum samgöngutækjum gólandi og hvíandi!
Fyrst að maddaman er farin að tala um málfar og nýja notkun á ýmsum orðasamböndum og orðum, þá má hún til með að segja lesendum sínum frá því að í Rvk. dvölinni um daginn fór maddaman og fékk sér innlegg hjá Össuri. Það var löngu vitað að blessuð maddaman þyrfti á þessu að halda og hitti hún þar fyrir viðkunnalegan pilt á sínum aldri sem að skoðaði á henni býfurnar af mikilli kunnáttu. Fyrir utan það að annar fóturinn er töluvert styttri á maddömunni kom svo sem ekkert nýstárlegt í ljós við ganglimi maddömunnar. Það var bara að reyna að gera þessi innlegg svoleiðis að þau væru "notendavæn" fyrir alla háhæluðu skó maddömunnar!!!!Pilturinn talaði hins vegar mikið um að "setja undir þig innlegg" "og setja undir maddömunna hitt og þetta" Það þótti maddömunni ákaflega sérstakt orðalag og dulítið fyndið. Minnti meira á þegar verið er að setja ný dekk undir bíl.

miðvikudagur, mars 23

Grrrrr

Grrr maddaman var búin að bloggga í dag og það skilaði sér ekki!
Hér er alger gúrkutíð, en þó er ísöldinni að ljúka og fuglarnir farnir að kvaka og maddaman er búin að þrá þá svo mikið að hún er ekki einu sinni pirruð þegar hún vaknar við þá snemma á morgnana! Maddaman vaknaði hins vegar við barnsgrát um tvö leytið í nótt og var alvarlega að hugsa um að stökkva upp á 7undu hæð og bjóðast til að labba um gólfin með viðkomandi barn í hálftíma eða svo, svoleiðis að foreldrarnir gætu klárað að rífast um eitthvað sem að evt. bráðlá á að afgreiða fyrir páskafrí. Það er nú svoleiðis að í samfélaginu sem að maddaman býr í vill nálægðin stundum verða óþægilega mikil! Samt er þetta mesta furða hvað þetta sleppur en oftar en ekki þá er það sem maddaman verður vör við svona á persónulegri nótunum eins og td. rifrildi, klósettferðir og fleira. Maddaman stillir sig td. alveg um að kveða rímur í baði eins og henni er einni lagið vegna gríðarlega góðra hljómgæða gegnum loftræstikerfið sem þjónar sannarlega öllu öðru en loftræstingu, er meðal annars transportdeild fyrir kakkalakkafjölskyldur sem að fara í hópferðir milli hæða.
Ætla samt að taka fram að maddaman hefur alveg sloppið við innrás af þessum skepnum enda dýrahald bannað hér nema í búrum. Góðvinkona maddömunnar niðri á þriðju hæð hefur þó orðið þess heiðurs aðnjótandi að það er flutt inn kanína á ganginn hjá henni ásamt eiganda og barnunga. Eigandi kanínunnar sem er gleðikvendi mikið er með aðstöðu til þess að þurrka þvott fyrir framan íbúðina sína. Miðað við nærfataúrvalið sem að hékk þarna í síðustu viku þá geta Istegade búðirnar bara pakkað saman strax á morgun. Tveir barnavagnar eru þarna á góðum dögum, og öskubakki sérlega hannaður úr 2 lítra kókflösku, plús ýmislegt tilfallandi rusl ásamt kanínunni sem að þó sannarlega samræmist ekki húsreglum og dýramannréttindum og guðmávitahvað. Þó tók nú steininn úr um daginn þegar góðvinkonan kom heim og fann 3 ára barn sofandi fyrir framan hurðina hjá sér með kodda og sæng og allan útilegubúnað mitt í haugnum. Enginn kannaðist við barnið á ganginum og ekki þýddi að reyna að vekja það til þess að reyna láta barnið gera grein fyrir sér! Nokkrum tímum seinna var barnið horfið og hefur sennilega rölt heim eða einhver kannski farið að sakna þess!!
Þess ber að geta fyrir lítt kunnuga að reykingar eru stranglega bannaðar á göngunum hér, hverskonar dót á sameiginlegum gangi samræmist eigi brunavörnum og dýrahald á göngunum almennt ekki vel séð!
Maddaman með vísifingurinn á lofti í dag allavega......

fimmtudagur, mars 17

Af gemsum og öðrum kindum....

Maddaman spásséraði í gær til þess að kapa sér nýjan gemsa og fór í þar til gerða búð á horninu! Þar hitti hún fyrir ungan mann sem að hún kolféll fyrir og vissi ekki fyrr til en að hann var búin að selja henni þvílíkt tæknilegan síma sem að tekur myndir, spilar músík og þvær, straujar og bónar skilst maddömmunni!
Það er bara einn galli á gjöf Njarðar og hann er sá að maddaman kann EKKERT á símann og mun örugglega aldrei læra á hann! Ótrúlegt að það skuli ekki vera til símar sem að eru fyrir nörda eins og maddömunna sem að kunna ekkert á svona tæknivæðingu. Maddaman er nefnilega ennþá á því stiginu að finnast gúmmístígvélin mesta tæknibyltingin! Madömunni finnst alveg skelfilegt að hafa látið glepjast svona af þessari karlkyns veru og sitja uppi með síma sem að hún kann ekki að nota!

þriðjudagur, mars 15

Long time.....

Madddaman er búin að vera í gríðarlöngu og góðu blogghléi. Sumpart vegna þess að hún brá undir sig betri fætinum og fór til Íslands í viku um daginn í menningar og gagnasöfnun!
Það var mikið góð ferð og gafst tími til að stunda Bókhlöðuna þar sem maddömunni finnst gott að vera, enda maddaman nánast alin upp í hlöðu. Svo voru frændur og vinir sóttir heim og allt saman hið mesta ágæti. Maddaman fékk að búa á Ljósvallagötu guesthouse og þar voru hjónaleysin bara í góðum gír og í óða önn að verða "alvöru hjón". Maddaman bíður spennt eftir "Hvurjum klukkan glymur næst í saumaklúbbnum!
Einnig var skoðuð nýjasta sending af íslending eimitt í sömu saumaklúbbskressu og mikill myndarpiltur, þrátt fyrir að hann kynni illa við sig í örmum maddömunnar, blessaður drengurinn veit ekki að sá staður er friðaður og er að komast á fornminjaskrá UNESCO innan skamms. Fylgist með fréttum.
Hér er Danmörku er ömurlega niðurdrepandi veður og hafísinn örugglega að leggjast upp að gluggunum hjá madddömunni í þessum töluðum orðum! Þvílíkt og annað eins. Maddaman man þá tíð að hún sólbrann á skírdag, lítur út fyrir að maddama fái kalsár næsta skírdag ef að líkum lætur.
Svo er vert að benda hörðustu aðdáendum maddömunnar á það að Siemens M50 gerðin af gsm kann því illa að synda um í 2 tommu borði af Pepsi Max oní handtösku og lét við það lífið. Þannig endilega talið inn skilaboð og kveðjur í stórum stíl....

þriðjudagur, mars 1

Ferskleiki í fyrirrúni!

Andleysið þvílíkt.....mun koma með eitthvað ferskt síðar.
Ykkar maddama.