þriðjudagur, nóvember 28

Helgaddað.....

Heili maddömunnar hrörnar mjög hratt um þessar mundir. Í morgun þegar hún ætlaði að veiða í morgunmatinn og opnaði frystinn verður fyrir henni beingödduð krukka með piparsósu frá Jóa Fel. Ekki er um að marga að velja í þessu samhengi sem eru líklegir til að hafa komið krukkunni fyrir. Þetta skrifast allt á frúna sjálfa!
Maddaman hefur ekkert séð ugly naked guy sem býr á móti henni nýlega en hann hleypur gjarnan um allsnakinn eftir bað kafloðinn sá langt sem augað eygir. Það verður alltaf að vera einn svona í lífi maddömunnar en þó ekki neitt close up!!!

fimmtudagur, nóvember 23

Af lagningum og öðru

Miðað við hvað maddaman var lítill bíllstjóri í henni Rvk. fyrir rúmum mánuði síðan hefur henni fleytt ótrúlega fram. Uðvitað gerir hún smá villur af og til en sem betur fer tekst henni yfirleitt að bjarga sér út úr því. Í tilefni af þessu lagði maddaman kolólöglega í Fischersundi í dag meðan hún skaust til skósmiðsins og sótti skóna sína. Skósmiðurinn er svo kammó og kumpánalegur að maddaman ætlar alltaf að fara til hans með sínar túttur í viðgerð og kannski láta hann brýna eldhúshnífana sína líka.
Lesendur maddömunnar velta ef til vill fyrir sér hversvegna lítið sé fjallað um vinnu maddömunnar hér á síðunni en það er bara ein ástæða fyrir því og það er að maddaman er bundin trúnaði við skjólstæðinga sína og í eins litlu landi og Ísland er þá er ekki ráðlegt að vera fjalla mikið um vinnuna á prívat bloggsíðum. En maddaman getur þó upplýst að henni líkar mjög vel í vinnunni sinni og líkar vel við vinnufélaga sína.
En að öðru máli veit einhver um bílferð frá Egilsstöðum city til Reykjavíkur þar sem að bíllinn er sæmilega rúmgóður og ekki fullur af fólki og dóti. Maddömuna langar að fá skrifborðið sitt í svítu sína en er ekki spennt fyrir að láta flytja það með flutningabíl þar sem það er meira en 100 ára gamalt og óbætanlegt ef eitthvað kemur fyrir það. Kommentið eða hringið ef að einhver gæti leyst úr þessu máli.

Mjúkt og hlýtt

Maddaman var spurð að því í dag hvað hana langaði i jólagjöf og varð að viðurkenna að hún hafði ekki velt því fyrir sér. Það er einhvern veginn ekki eins spennandi að óska sér jólagjafa þegar maður er hættur að vera smákrakki og á ekki kærasta/mann til að óska sér einhvers spennandi frá (reyndar er það víst gríðarlegt happdrætti bæði með mennina og jólagjafirnar!!!)
En ef að maddaman ætti að nefna eitthvað þá langar hana í eitthvað hlýtt og mjúkt. Það er svoooo kalt í Rvk. Maddaman mátaði t.d. voða fínar flísbrækur frá 66 og það er hrollur í maddömunni.

fimmtudagur, nóvember 16

Kuldi...

Brrr hér er bítandi kuldi og maddaman kyndir og kyndir en er samt að frjósa! Það er eins gott að maddaman býr ekki í forsköluðu timburhúsi. Maddaman lifði skítakaldan vetur í Kaupmannahöfn í fyrravetur og hann kláraðist í byrjun apríl ef hún man rétt. Þess vegna er full snemmt að byrja aftur núna.

þriðjudagur, nóvember 14

Dolli

Maddömunni þykir stórskemmtilegt að nokkrum lifandi manni hafi dottið til hugar að Hitler væri bara að chilla upp í Fljótsdal í stríðslok. Bara að þamba gambra með köllunum og tína undan hænunum og jafnvel aðstoða við undirbúning sauðburðar og svo heyrt í strákunum hvernig gengi gegnum símstöðina!!!!!! Maddaman dregur það hinsvegar stórlega í efa að Hitler hefði fittað vel inn i menningu í Fljótsdal á fimmta áratugnum!!!!

mánudagur, nóvember 13

Maddaman heldur að hún hafi skandaliserað smá í kvöld......!
Í hliðinu inn í búningsklefann í Hreyfingu í kvöld voru axlir sem að maddömunni fundust gríðar kunnulegar. Þessum öxlum tilheyrði bæði haus og búkur sem að maddaman taldi sig tilheyra gömlum kennara sínum. Þess vegna heilsaði maddaman manninum öllum með kurt og pí og sagðist hafa þekkt baksvipinn. Maðurinn var með tösku svo óhönduglega vafða utan um heilsihendina þannig að maddaman knúsaði hann bara og fannst hann fara full mikið fram hjá sér við það. Svo segir maðurinn: Já hvað er eiginlega langt síðan og maddaman svarar að það séu ein 10 ár sem er lygi...það eru allavega 13 ár síðan hann kenndi maddömunni ásamt tug sturlaðra borgfirðinga á Eiðum. En maddömunni fannst fylgja þessu einhver tvíræður svipur og er eiginlega bara alveg í vafa um hvort að þetta var kannski bara bláókunnugur maður og alls ekkert gamli kennarinn hennar! Samt er maddaman gríðarlega mannglögg og á bágt með að trúa því að henni hafi skjöplast!

föstudagur, nóvember 10

de danske

Einstaka sinnum man maddaman eftir því að hún bjó í 7 ár í Danmörku. Það er helst að hún rekist á svona smáhluti á heimili sínu, beyglaða Metro miða í töskum, danska smápeninga á ótrúlegustu stöðum og svona skrýtna hluti sem ekki skipta máli en minna maddömuna á ákveðna staði og ákveðna lykt. Það skrýtna er að maddaman sem er að öllu jöfnu reglumanneskja hvar allt á að vera tímir ekki að henda þessu soldið nostalgísk.
Annars er snjór í henni Reykjavík!

fimmtudagur, nóvember 9

Maddaman fékk góðan mann í heimsókn með borasettið sitt sem boraði 4 göt fyrir hana og síðast ekki síst setti hann upp þesssa glæsilegu ljósakrónu fyrir maddömuna. Hinsvegar voru ekki til perur í hana en maddaman fór og keypti þær áðan. Perurnar reyndust kosta tæp 10% af verði ljósakrónunar. Maddaman vonar að þær fari ekki að springa á 6 mánaða fresti en þá verður hún búin að leggja út sem svarar andvirði nýrrar ljóasakrónu eftir svona 6 ár!!!
Segið svo að maddaman kunni ekki hagfræði. Annars er allt vel á Ásvallagötunni og afskaplega bjart hreint í stofunni. Næsta verkefni verður að draga í ógeðslega flottu sixties ljósin sem maddaman keypti á loppumarkaði fyrir utan Esbjerg í sumar á 1000 kall íslenskar! Þau er rauð og passa vel við rauða sófasettið. Allt í stíl hérna.
Maddaman var ansi stóreygð þegar hún sá jólaljósin í Kringlunni í gær þegar hún ók á drossíunni framhjá. Maddaman hélt að þetta ætti ekki að koma fyrr en 1. desember. Svo sýndist henni vera komnar jólasmákökur í Krónunni áðan. Maddaman er ekki mikið fyrir að jóla fyrr en í desember. En það er kannski vegna þess að maddaman þarf svo lítið að jóla. Samning jólabréfsins fræga fer aldrei fram fyrr en undir miðjan desember( ásamt ljúfu glasi af rauðvíni) , yfirleitt bara svo að það næði í síðasta póst til Íslands. Jólagjafirnar eru yfirleitt keyptar jafnt og þétt, stundum sú fyrsta í ágúst, fjölskyldan aukin heldur lítil. Skúringarnar í 28 fermetrunum fóru ævinlega fram á Þollák með jólakveðjurnar í beinni og svo veiddi maddaman í matinn sama dag og það sem gleymdist daginn eftir. Jú og svo föndrar maddaman alltaf aðventukrans.

þriðjudagur, nóvember 7

Grámórautt....

Í kvöld var grámórautt í maddömunni og hún ákvað því að endurnýja kynni sín við Vesturbæjarlaugina og á leiðinni fékk hún skemmtilegt símtal svo að heim kom hún miklu hressari. Annars háir það maddömmunni óskaplega hvað hún er sjónskert þegar hún er í sundi. Álpaðist oní alltof heitan pott og sér engar merkingar á einu né neinu fyrr en hún rotar sig á því. En maddaman þorir ekki í leiser aðgerð og veit bara ekki hvort hún kann við sjálfan sig án gleraugnanna hvað þá samferðamennirnir. En kannski vex maddömunni kjarkur með árunum..... Viskum vona það ef ekki í þessu þá öðru!

fimmtudagur, nóvember 2

Lestur góðra bóka....

Maddaman hyggede sig upp á danskan máta áðan, fór og settist á Súfistann sem er eitt uppáhaldskaffihús maddömunnar bara ekki um helgar þegar barnaskríllinn er þar. Maddaman hefur samt síður en svo á móti börnum, finnst bara að það gæti verið sérstakt bókahorn fyrir blessuð börnin og annað horn fyrir maddömunna og fólk af hennar kalíber.
Maddaman endaði á að sitja í tvo tíma og lesa alla bókina um hana Karítas eftir Kristínu M Baldursdóttur. Renndi lauslega gegnum nýju ljóðabókina hans Einars Más sem að maddaman kann vel að meta. Maddaman er búin að sjá að það er miklu betra að lesa bækurnar þarna en að fara á bókasafnið. því að nýju bækurnar eru alltaf útláni þar. Maddaman hefur lesið bækur í bókabúðum í öðrum löndum. Í henni Ameríku, í bókabúð í Sacramento las maddaman ævisögu Hillary Clinton og bróðurpartinn af ævisögu Bill Clinton. Í bókabúðinni Bog&Idé í Amagercentrinun las maddaman margar góðar bækur, meðal annars ævisögu Anders Fogh Rasmussen og líka bók sem María nokkur Hirse gaf út.

miðvikudagur, nóvember 1

Ehhhh

Um helgina var næturlífið testað. Maddaman var búin að gleyma hvernig Íslendingar hegða sér á djamminu. Maddaman var tæplegast bara í nógu góðu formi til að standa af sér troðninginn og skrílslætin. En spaugilegur var hann piltungurinn sem trítlaði upp Skólavörðustíginn um hádegisbilið daginn eftir léttmyglaður í djammgallanum og á sokkaleistunum. Blankskórnir hafa tæpast verið að gera sig.
En talandi um skó þá fékk Hr. Jaris vetrarskó í dag. Dýrari skó en maddaman hefur nokkurn tímann fengið....Það er eins og maddömuna grunaði það mun allt auka fjármagn fara í þessa nýjustu handtösku!!!!