föstudagur, ágúst 8

Blogg hvað er nú það?

Ég er orðinn eins og gamla fólkið sem ég umgengst reyndar mjög mikið gleymi að ég er með blogg nema endrum og sinnum!!!! En í dag er góður dagur og ég man eftir blogginu.....Ég sé að bloggið er svona eins og um Öddu bækurnar en þegar Adda trúlofaði sig þá var ekki meira frásagnarefni!!! En sem betur fer er ég aðeins nútímalegri en blessunin hún Adda okkar!!!Við hjónin fórum til Færeyja og hoppuðum og trölluðum á Ólafsvökunni. Niels varð móðurbróðir þann 23. júlí en þá fæddist systur hans aldeilis yndisleg lítil stúlka með mikinn lubba. Við leggjum í hann aftur til Norges 22. ágúst og ég fer svo áfram til Kaupmannahafnar á námskeið..... over and out í bili....

föstudagur, apríl 25

Páll minn

Meldingar hafa komið um það að Kaupmannarhafnarháskóli hafði mikið spé fyrir Páli títtnefndum og mun ég því verða formlega tal, heyrnar og lestarfræðingur um miðjan maí ef mér skjöplast ekki mikið. Ég er þó búin að starfa við fagið í 1 ár og 9 mánuði þegar þetta plagg kemur, en það er margir búnir að vera lengur með GíslaMarteinsgráðuna en ég. Það ríkir mikil kátína með þetta á Ljósvallagötunni eins og gefur að skilja!
Blóðsugurnar á Landakoti úrskurðuðu hinu ýmsu vessa úr mér heilbrigða og andsetni heimilislæknirinn sagði að ég hlyti bara að vera óheppin með flensuvetur. Skítt með þegar ég er svona vel gift og á svona frábæra vini og skemmtilegan vinnustað.

föstudagur, apríl 18

Peningar og blóð

Það er full vinna að líta eftir því að lánastofnanir og fólk sem hefur atvinnu af því að færa peninga á milli staða sé að gera það sem þá að vera að gera og færi rétta peninga á rétta staði. Til dæmis þegar ég athugaði reikninginn minn í gær var hann komin í mínus 12 milljónir og þó að ég hafi nú stundum keypt óþarflega mikið af kremkrukkum og kjólum í sömu ferðinni þá hafa upphæðirnar nú ekkert verið í líkindum við þetta. Föðurlegi bankastjórinn í útibúinu spurði bara hvað ég væri alltaf að þvælast inn á einkabankanum til að taka eftir þessu...hinn sami föðurlegi bankastjóri ráðlagði mér líka að reyna að eyða þessu nú ekki vitleysu þegar búið var að koma þessu í plús aftur!!!!! Ég sé fyrir mér forsíðufrétt að færeysk/íslenski hjón í vesturbænum fóru á eyðslufyllerí í kreppunni og notuðu peninga sem áttu að fara til íbúðakaupa til þess! Ég er heima í dag lasin eina ferðina enn í vetur en ég hef fengið mjög oft hita og flensueinkenni í vetur og stundum verið í vinnunni með hita og stundum verið heima með hita, hvorugur kosturinn er góður. Dreif mig að hitta heimilislækninn í fyrradag sem ekki hefur áhuga á að snerta fólk og grefur sig á bak við möppurna og skrifborðið. Hún hafði heldur ekki neinn áhuga á að snerta við mér en ég píndi hana þó til að taka í hendina á mér þegar ég fór og hún hefur örugglega sótthreinsað sig mjög vel á eftir. Blóðsugurnar á Landakoti sugu svo úr mér blóð í bítið í gærmorgun og ætla að rannsaka það. Ég þraukaði með hita í vinnunni í gær og fyrradag en ákvað að vera heima í dag. Annars brosir lífið við okkur hjónunum í þessari indælu íbúð okkar;O)

fimmtudagur, apríl 10

Flutningar afstaðnir

Það hefur verið ansi langt milli blogga núna en það helgast annríki við flutninga. Við erum búin að koma okkur vel fyrir á Ljósvallagötu 14 og það er svona smá dúllerí eftir hérna en í stórum dráttum búnar framkæmdir í bili. Á næsta ári vonumst við til að geta skipt út eldhúsinnréttingunni og lagað eldhúsið:O) Það er voðalega gaman að eiga sína eigin íbúð og mig hefur aldrei í lífinu dreymt eins ógurlega mikið og síðan ég flutti hingað. Fyrri eigendur segja þetta nágrennið við kirkjugarðinn en það er nú friðsamt fólk þar og allra besta er að íbúar Hólavallakirkjugarðs þurfa engin bílastæði og því er nóg pláss til að leggja hérna. En hvað um það allir velkomnir í heimsókn og við erum mest heima í sumar tökum viku hér og þar í frí. Nýtt heimilsfang og símanúmer er Ljósvallagata 14, 101 Rvk og 551 5378

sunnudagur, febrúar 24

Konudagur,,,,

Mér hafði mistekist eitthvað að vista myndirnar af fasteignasíðunni en getur verið að eigendurnir lumi á þeim og ég láti þær inn seinna;o)
Í dag er konudagurinn og á morgun 25. verð ég 31. árs. Það er hafinn andlegur undirbúningur yfir því að vera komin á fertugsaldur en hvað um það ég hef allavega aldrei verið eins hamingjusöm og glöð á ævinni. Eiginmaðurinn elskulegi færði mér blómvönd áðan í tilefni konudagsins og svo afmælisgjöf líka. Við hlökkum ægilega til að fara að hreiðra um okkur á Ljósvallagötunni Nýtt heimasímanúmer þegar við flytjum þangað verður 5515378.

föstudagur, febrúar 22

Myndir

Get einhverra hluta vegna ekki sett myndirnar inn!!! Verð að lofa myndum eftir framkvæmdir;O)

þriðjudagur, febrúar 19

Tveggja blogga mánuður;O)

Í fréttum er þetta helst að við Niels tæmdum vasana heldur betur og keyptum okkur ægilega sæta 3 herbergja tæplega 70 fermetra kjallaraíbúð sem stendur við Ljósvallagötu 14. Íbúðin er á besta stað í bænum og rólegir nágrannar í Hólavallakirkjugarði. Við fáum hana núna í mars og ætlum að strjúka yfir með pensli og leggja smá parkett og vera flutt inn fyrir páska. Ég læt inni myndir á morgun til að sýna ykkur dýrðina;O)

mánudagur, febrúar 4

Nýtt blogg á nýju ári.......

Hér hefur óneitanlega ekki verið mikið líf undanfarið......en allavega gleðilegt nýtt ár kæru lesendur. Héðan af Ásvallagötunni er allt gott að frétta brjálað að gera í vinnunni hjá okkur báðum. Ég er búin að bregða mér í eina vinnuferð í janúar til Köben þar sem prógrammið var frekar stíft en lofa að bæta ykkur það upp síðar Köbenbúar!