þriðjudagur, nóvember 6

Brúðkaupsdagurinn

Laugardagurinn var tekin frekar snemma eða um hálf átta en hárgreiðslukonan mín hún Hrefna á Mojo ætlaði að koma um hálf níu og greiða mér. Hún kom svo á tilsettum tíma og um níu leytið kom Gréta Boða til að farða mig. Það var voða huggulegt að fá þær hingað heim og mjög tímasparandi fyrir okkur því að allt miðaðist við að ná síðasta flugi til Kaupannahafnar sama dag. Um klukkan tíu komu svo Dögg og Óli vinir okkar sem voru svaramenn okkar (við buðum okkur í mat til þeirra á fimmtudagskvöldinu og báðum þau um að skrifa undir blað fyrir ,en þau tóku ekki annað í mál en að fá að koma með í kirkjuna enda var það mjög ánægjulegt) og Dögg hjálpaði mér í kjólinn. Óli var búin að hafa mikið fyrir okkur og var mættur fyrir utan blómabúð klukkan tíu um morguninn og beið eftir að opnað yrði. Spurði svo hvort að blómabúðin tæki að sér að skreyta brúðarbíla. "Já ekkert mál, hvenær er brúðkaupið? Jú athöfnin hefst eftir 20 mínútur....aumingja konurnar fórnuðu bara höndum en redduðu þessu eins og öllu er reddað á Íslandi. Við Dögg fórum svo saman niður í Fríkirkjuna. Þegar ég var tilbúin að ganga inn kirkjugólfið þá allt í einu uppgötvaði ég að ég hefði gleymt vendinum. Við vorum svona í seinna lagi í kirkjuna svo að svaramennirnir máttu fara upp brekkuna aftur heim til þess að sækja vöndinn og á meðan laumaðist presturinn okkar hann Hjörtur Magni inn til Niels og hvíslaði: "Þetta er allt í lagi hún ætlar alveg að koma....hún gleymdi bara vendinum". Niels sagði nefnilega við mig mjög fljólega efir að við kynntumst að hann væri handviss á því að ég yrði alltof sein í eigið brúðkaup en honum finnst ég oft vera svo sein ef að við erum að fara eitthvað. Það rættist svo sannarlega þarna. Síðan var brúðarvalsinn leikinn og við Dögg gengum inn kirkjugólfið og þar biðu Niels og Óli. Athöfnin var mjög hátíðleg og falleg og organistinn Carl Möller spilaði fyrir okkur þrjú lög: Ísland er land þitt, Í bljúgri bæn og Færeyska þjóðsönginn. Eftir athöfnina tók ljósmyndarinn hún Gréta myndir fyrir okkur í kirkjunni og svo fórum við í Grasagarðinn í hífandi vindi, úrkomu, sól og enduðum á hellidembu!!! Síðan fórum við hingað heim með svaramönnunum okkar og borðuðum dögurð sem Niels hafði sótt um morguninn í Ostabúðina á Skólavörðustígnum. Svaramennirnir skáluðu svo í dýrindis kampavíni við okkur og svo létum svo fjölskylduna hans Niels vita gegnum skype svo að þau gætu séð okkur og talað við okkur. Þar var mikil gleði yfir þessum ráðahag. Síðan keyrði Dögg vinkona okkar út á völl. Á leiðinni hringdi ég í mína fjölskyldu sem var dreifð um landið við ýmis störf ss. sláturgerð, elta fé, undir stýri og í búðum á Akureyri!!!! Þar var fréttunum einnig tekið með ánægju. Við höfum aldrei haft svona góðan tíma út í flugstöðinni enda ekkert sem við þurftum að gera!!! Héldum að við yrðum svo sein! Þegar við komum í vélina fengum við að sitja í Saga Class sætum ásamt kampavíni og hamingjuóskum, þökk sé Dröfn okkar sem hafði látið vita af okkur. Það var frábært að fá að sitja í svona góðum sætum á leiðinni út. Um kvöldið komum við á svo á hótel Hilton á Kastrup og þar fengum við meira kampavín og súkkulaði og rauðar rósir sennilega frá París Hilton sjálfri!!!Þetta var ánægjulegasti dagur í lífi okkar Niels og höfum við þó átt marga góða daga í lífinu. Allt gekk eins og í sögu og allir voru svo góðir við okkur...okkur langar enn og aftur að þakka ykkur innilega fyrir kveðjurnar og tölvupóstinn sem að við höfum fengið.

sunnudagur, nóvember 4

Efter bryllaupet....

Þá erum við komin heim eftir frábæra brúðkaupsferð sem farin var til Feneyja og Flórens. Ég hendi kannski inn lýsingu af deginum seinna og nákvæmari ferðasögu. Okkur langar bara að þakka ykkur fyrir kveðjurnar og hamingjuóskirnar allar. Ég hef reynt að svara sem flestum tölvupóstum en hef ekki gefið mér tíma að svara kommentunum hérna á síðunni.
Arna: Já endilega reynum að hittast sem fyrst, ætlaði jú að koma um daginn en þá breyttust plönin vegna veikinda.
Linda: Já Feyneyjar og Flórens eru æðislegir staðir og haustið er góður tími til að sækja borgirnar heim.