mánudagur, janúar 31

Skjáftar, Roskildesyge og fleira....

Maddaman gat loksins gert það upp við sig að taka ákvörðun í því að fara á þorrablót íslendinga! Maddömunni finnst tilheyra þorranum að fara á blót enda er gríðarlega mikil hefð fyrir því heima í Héraði (athuga maddaman er samt ekki hobbiti!!!)
Enda ætlar stórfrændi maddömunnar að leika fyrir dansi og er víst búin að lofa kokknum og fleiru tilheyrandi. Það er þá eins gott að maðurinn í Gefjunnarpeysunni verði með þetta árið til að dansa við suma sem maddaman þekkir....humm ha!!! Maddaman getur allavega veðjað skotthúfunni sinni upp á að hann er ekki unglegri en í hittiðfyrra, en maddaman gleymir aldrei tanngörðum Gefjunnarpeysumannsins sem að minntu helst á tannheilsu afsláttarhrossa Sumarhúsabóndans!!
Annars eru víst jarðskjálftar austur á Héraði og spurning hvort að fornar gosstöðvar fari að taka við sér! Maddaman er með viðbjóslega pest sem að heitir "Roskildesyge" á dönsku og ætlar ekkert að útmála það meira fyrir lesendum.
Maddaman stefnir á U2 í Parken 31. júlí sem er gríðarlega vænlegt....býður aðdáendum að slást í för með sér

laugardagur, janúar 29

Det var brændevin í flasken.......

Maddaman er búin að klikka á blogginu undanfarið, en það stafar af mestu af því að á fimmtudaginn fór hún í sakleysislegan saumaklúbb sem að endaði í karokísöng og mikilli gleði og marineringu á innyflum! Maddaman veit ekki alveg hvenær hún komst heim...en sem betur fer stutt að fara. Í gær þurfti maddaman að hitta drengina sem að fannst maddaman venju fremur framlág. Síðan fór maddaman út að borða á Tíbetanskan veitingastað með bekknum sínum og eftir það var haldið að hitta Ingur og Möggur sem og Rambó sem að bættist í hópinn seinna. En er það færeysk vinkona Möggunnar frá steinöld og af nafninu að dæma hélt maddaman að hér væri komin ekta færeysk trukkalessa, en þetta reyndist vera stúlka á stærð við annað lærið á maddömmunni og aldeilis laus við umsnúninga. Urðu fagnaðarfundir þegar færeyskur kærasti Rambó dúkkaði upp líka en maddaman þekkir hann að góðu!! Síðan var haldið á djammið niðrið í Studiestræde og var hin besta skemmtun! Maddaman gerir allt með trompi og er að spá í hvort að hún eigi ekki að kíkja eithvað út á lífið í kvöld.......

þriðjudagur, janúar 25

Schneller bitte......

Maddaman hefur verið að laumast til að horfa á listdans á skautum með öðru auganu, en það er íþrótt sem að henni finnst gaman að horfa á og sannarlega ein af fáum. Sérstaklega gaman að sjá parakeppnina og núna áðan var eimitt par að keppa sem að stóð sig prýðilega. Maddaman náði ekki að sjá frá hvaða landi þau voru en miðað við búnig mannsins dettur henni helst til hugar Þýskaland. Hvað er málið með að vera í þvílíkt fínum skautabúning með glimmer og öllu ef að það er svo V-hálsmál framan á þar sem á gefur að líta þessi líka ræktarlega bringuhársmotta!! Maddömunni datt helst til hugar að hann hefði verslað þau í lausavikt, slíkur var skógurinn.
Turn off þegar menn eru á skautum!

mánudagur, janúar 24

Ég skal með gullinu gleðja þig og silfrinu seðja þig...

Maddaman skilur ekki hví hún gerðist ekki spákona til að drýgja tekurnar, en það gefur víst mest í aðra hönd á eftir esskortinu. Ein skólasystir maddömunnar strippar reyndar svona til að eiga fyrir sméri á brauðið. En maddaman erfði engar fínhreyfingar úr Gunnhildargerðisættinni ( enda bara tímaspurssmál hvenær Kári Stefánsson finnur út að þau gen eru ekki til í þeim ágæta ættbálk) þannig að hún getur ekki strippað. Svo er helvíta mikill stofnkostnaður við að kaupa brjóstin ( sem að fyrirfinnast í sýnishornum á þessari sömu ætt:o)
En spákona heldur maddaman að hún geti orðið, það er bara gamla góða netakúlan og svo er þetta allt sama tóbakið, ferðalög, ný ást að koma gömul að lognast út, passa bara að það sé í réttri röð og síðast en ekki síst bjartir tímar framundan með spennandi möguleikum, sem að getur verið allt frá því að það kemur nýtt morgunkorn á markaðinn eða þú vinnur í getraunum!!!
Rúsínan í pylsuendanum er svo gömul, gráhærð kona með rúðótta svuntu sem að vakir yfir hverju fótmáli þínu. En þessi lýsing getur gilt um 6 ættliði afturábak frá 1980 hjá hverjum einasta núlifandi íslending og þó víðar væri leitað!
En ástæðan er einföld fyrir spákonuhugleiðingum maddömunnar og hún er að það er aftur sprungið á hjólinu!

laugardagur, janúar 22

Bókadómar.....

Maddaman er búin að vera að glugga í ævisögu Halldórs Laxnes eftir nafna hans Guðmundsson. Maddaman er þó ekki frá því að henni finnist frásagnarmáti Hannesar Hólmsteins skemmtilegri en maddaman hlaut fyrsta bindið af honum af honum í fyrra. En eitt finnst maddömunni óborganlegt atvik í bók Halldórs. Hann var mjög kröfuharður á Auði og á einum stað í bókinni er eru eftirfarandi línur.
Hvar er Auður? spurði hann Sigríði dóttur sína eitt sinn. Hún skrapp út á snúrur. Nú, alltaf úti að skemmta sér?
Maddaman heldur að að öllum ólöstuðum, þá hefðu ekki allar konur getað búið með skáldinu góða! Annars er komið bítandi frost fann maddaman þegar hún skrapp að veiða í matinn áðan enda janúar ennþá sem að reyndar hefur verið óvenju mildur hérna.

föstudagur, janúar 21

Bóndadagsblogg....

Maddaman eldaði hangikétsflís úr reykhúsi Sumarhúsahjónanna handa bóndanum í tilefni dagsins.....hann lét náttlega ekki sjá sig frekar en vant er þannig að aðstoð var sótt á neðri hæðina við að borða kétlúsina. Það gekk alveg prýðilega og kétið alveg einstakt eins og við er að búast úr smiðju þeirra hjóna. Ora baunir með og alles. Já maddaman klikkar ekki þá sjaldan hún smakkar það.

miðvikudagur, janúar 19

Skyldi það vera jólahjól......

Maddaman fór með rauðan fák sinn i viðgerð áðan. Maddaman á í stórbrotnu vinasambandi við hjólreiðaviðgerðarmanninn sem á tímabili hélt örugglega að maddaman væri að reyna við hann, því að eitt haustið var alltaf að springa á gamla hjólinu og maddaman var þarna að snússa vikulega. Á endanum féllst maddaman á að fjárfesta í nýjum dekkum á hjólið sem að áttu að þola ýmis konar misþyrmingar. Þau gáfust líka gríðarvel þar til að hjólinu var stolið. En nú er spurning hvort að allt stefni í sama farið með nýja hjólið og maddaman geti tekið upp vinasamband við manninn að nýju!

mánudagur, janúar 17

ungir menn

Rétt áðan var bankað á hlerann hjá madömmunni mjög varlega. Maddaman fór og opnaði líka varlega ( alltaf lúrir óttinn í brjósti maddömunnar um að sendiboðar innheimtudeildar danska ríkissjónvarpsins nái henni á ögurstundu), fyrir utan stóð ungur og myndarlegur maður og miðaði á maddömuna stórri hríðskotabyssu!
Þennan unga mann þekki ég að góðu en hann er 2 ára Færeyingur og heitir Tóki.
Hann er góðvinur minn og uppástendur að maddaman sé guðmóðir hans af því að maddaman kann svooo skemmtilegar sögur! Snemma beygist krókurinn og eftir stóran og blautan koss af hálfu unga mannsins, ákváðu maddaman og ungi maðurinn í samráði við móður piltsins að deita einhvern góðan sunnudag, eftir lagningu og fara á leikvöllinn saman!

Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað......

Maddaman er í einhverju þvílíku óstuði að blogga að það hálfa væri feykinóg. Það er bara ekkert nógu krassandi einhvernveginn....annars veit maddaman um eina gríðarlega góða sögu handa bloggurum....málið er bara að þá er maddaman búin að brjóta eina af prinsippreglunum sem að hún setti sér í upphafi bloggsins! Maddaman saltar hana aðeins allavega....
Annars horfði maddaman á íslenska sjónvarpið gegnum tölvuna á laugardaginn! Maddaman hélt fyrst að það væri verið að sýna falda myndavél beint úr 101 stofunni hjá "ofurparinu" en varð svo vör við að það var líka verið að safna fé til hjálpar nauðstöddum í Asíu! Kannski full mikið kið svona fyrir risaeðlu eins og maddömuna!!
Í þessu prógrammi fór einnig hamförum maður nokkur sem ég held að hljóti að hafa verið meira á einhverju en lífsgleðinni...kannski hefur hann komist í hræ eins og stundum er sagt í minni fjölskyldu!!!!



fimmtudagur, janúar 13

Everybody is talking.......

Maddaman hefur ekki mætt fleiri ástmönnum í draumum sínum né live! Ergilegt en það er gúrkutíð hjá maddömmunni sem og fleirum kannski! Vill hins vegar benda dyggum lesendum á að ef þeir linka á maddömuna (sem að linkar ekki á móti, afþví að hún heldur að þetta sé einkablogg!!!) að linkurinn má gjarnan heita Maddaman eða Seljan. Maddaman vill ekki íþyngja danska póstinum um of með fanbréfum, enda hefur hann í nógu að snúast!!!!
Þangað til næst...

miðvikudagur, janúar 12

Dagbók, draumar og fleira......

Maddaman var í tygjum við pilt nokkurn á síðustu öld. Hann reyndist hvorki vera til frambúðar né sambúðar eins og sagt er. En það skiptir nú engu, mál málanna er að maddömuna dreymdi piltinn hér nýverið og var það ákaflega sérkennilegur draumur. Voru þau að marséra um sveitahótel nokkuð í eigu móður piltsins sem að maddaman heldur að hafi sannarlega fengist við allt annað en hótelrekstur um dagana. En þetta hótel var allavega rosalega flott með turnum, útskotum og allskyns skúmaskotum og á efstu hæðinni var veitingastaður og á öðrum stað krá og þriðja staðnum dansgólf. Þarna voru líka mjög flott svefnherbergi með gömlum útskornum mublum og þarna var maddaman leidd um og sýnt allt hátt og lágt. Það var brjálað að gera á hótelinu og fólk allstaðar þar sem við komum. Minnti á þýskt stórhótel og stóð í fjalllendi.
Maddaman heldur þó að draumurinn hafi í sjálfu sér enga merkingu, hann styður bara það sem maddaman hefur oft tekið eftir áður og það er að þegar maddaman er að lesa fyrir próf þá dreymir hana ótrúlega mikið og það kemur oft fyrir fólk í draumum hennar sem að hún hugsar sjaldan eða aldrei um eða hefur ekki séð í háa herrans tíð. Maddaman heldur að undirmeðvitundin sé undir mikilli pressu að senda upplýsingar á góða staði á nóttunni og þá slái svona stundum saman nokkrum línum!!!! Það er svo sem allt í lagi - bara að það komi fram í hugann réttar og nauðsynlegar upplýsingar á prófinu:o)

Gekk ég yfir sjó og land....

Maddaman fór allt í einu að hugsa um sína fyrstu sundferð í dag, afhverju veit hún eigi svo gjörla en stundum dettur maddömunni ýmislegt í hug úr fortíðinni og erekki alltaf gott að rekja hversvegna það skaut upp kollinum.
En allavega hefur maddaman alltaf verið áhugasöm um vatn og veru í vatni, í föðurgarði var þó ekki mikið um heita potta og spaaðstöðu. Þannig að þá var bara að taka ráðin í sínar hendur. Landslagið í kringum óðalið er þeirri náttúru gert að það eru ótal tjarnir með vatni í sem að geta þornað upp á góðu sumri.
Ein af þessum tjörnum er beint fyrir neðan bæinn og í henni var mikið vatn þetta sumarið. Þangað var sprangað í félagi við frænku og vinkonu sem að var árinu eldri. Ekki var til neitt sundress en móðir maddömunnar hafði saumað sóldress fagurbleikt upp úr Burda handa dömunni og í því var skálmað af stað og svamlað um í tjörninni. Þessi fyrstu sundtök vöktu vægast sagt ekki neina gleði hjá fjölskyldu maddömunar því að þetta var fyrir daga rotþrarinnnar á bænum og hafnaði úrgangur fjölskyldunnar víst í fagurgrænni brekku ofan við þessa tjörn. Maddömunni og frænkunni var ekki meint af.
En maddaman hefur seinna snorklað við erlenda strönd og sá þá alvöru kúka.....enga fallega fiska eins og stóð í bæklingnum!

þriðjudagur, janúar 11

ps.

Maddaman heldur að hún hefði bara látið sig hafa það að eiga eins og eitt barn með Pittaranum þrátt fyrir að frú Jennifer hafi ekki haft áhuga!!!! Svona ef að maddömunni hefði verið boðið upp á það....en svona er misjafn smekkur mannanna

já droppaðu við hjá dópmangaranum........

Maddama droppaði við hjá dýralækninum sínum áðan, sem glaður í bragði útdeildi tilvísun á ýmsa sérfræðinga sem eiga að rannsaka óumbeðið transport á hælbeini maddömunnar. Gaman að því! Jón dýri hótaði meðal annars sérsmíðuðum skóm ef að í harðbakkann slægi. Alltílæi sagði maddaman, bara ef þeir verða með hæl. Dýri hnussaði og sagði að þeir yrðu allavega ekki með hæl og doldið ljótir..........leit svo á umræddar fætur maddömunar og sagði "allavega ekki ljótari en þessir skór sem að þú ert í!!!!!
Sem að voru í boði Camper! Annars er sumarblíða hérna og próflesturinn heldur áfram...á morgun!
Góðar stundir lömbin mín

miðvikudagur, janúar 5

Tuð maddömunnar.....

Maddömmuskarnið heldur að hún sé með alla sjúkdóma sem að hún hefur verið að lesa um undanfarið og sé alveg á nippinu að missa heyrnina ásamt vitglórunni. Maddaman huggar sig þó við það að hún hefur góð sambönd til þess að fá eitthvað töff heyrnartæki!! En það er nefnilega tískuvara eins og allt annað. Víst er maddaman glysgjörn eins og hrafninn og fagurkeri en stundum finnst henni nú hönnunar og tískubrjálæðið ganga úr hófi fram. Til dæmis klósettburstar og ruslafötur sem að er sérhannað, maddaman hefur séð með eigin augum einhverjar VIP-ruslafötur á 1000 Dk og svo fjölgar eða fækkar 100 köllunum eftir stærðinni. Alveg bráðnauðsynlegt í barnaherbergið fyrir bleiurnar las maddaman í ónefndu tískublaði sem að hún stelst stundum til að kaupa. Ætli VIP standi fyrir very important person er að henda rusli í þessa ruslafötu!!!
Það er þá einn iðnaðurinn sem hægt er að gagnrýna þessi barneignarstartkostnaður. Öllu má nú ofgera. Kannski væri við hæfi að koma með "að það var annað í þá gömlu góðu daga þegar húsmóðirin kom með fermingarkommóðuna í búið og öll börnin sváfu í henni fram að x ára aldri og varð engum meint af" En maddaman ætlar ekki að koma með þetta komment því að það er bara ekki málefnalegt. Það eru breyttir tímar og efnahagur fólks er betri og flestir eru í þeirri aðstöðu að eftir að vera búnir að brauðfæða og klæða sig og sína, koma yfir sig þaki að ógleymdum skattinum, þá eiga menn peninga eftir sem að menn ráða yfir sjálfir (eða fá þá lánaða hjá bönkunum!!! ) En hvað um það þá hefur maddaman mikið hugsað um setningum sem að hún heyrði um daginni : að það væru forréttindi að búa í landi þar sem fólk hefði það svo gott að það ætti peninga afgangs sem að þeir gætu ráðstafað að eigin vild.
Maddaman las líka viðtal á dögunum við konu sem að sagði að það væri bara ekki hægt að lifa af einum tekjum, alltsvo fyrir fjölskyldu nú á dögum. En þá spyr maddaman hvað er að lifa; er ekki þrengsta útfærslan á því að hafa í sig og á og draga andann. Kynslóð maddömunnar setur bara aðra merkingu í að "lifa" nú orðið en var og er það vel.
Maddaman heldur að það sé hægt að lifa af einum tekjum ef að menn lifa á sömu forsendum og kynslóð foreldra maddömunnar gerði. Þar sem menn leyfðu sér heldur ekki ferðalög, tískufatnað, flotta bíla, gsm og þar fram eftir götunum.
Maddaman veit þó alveg að tekjur manna og aðstæður eru mismunandi og er ekkert að að alhæfa fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Maddaman er bara svona að velta þessu upp!

þriðjudagur, janúar 4

Hrós dagsins...

Maddaman fór að finna drengina sína í dag og þóttust þeir heldur betur hafa heimt maddömuna sína úr helju og spurðu mikið frétta af sinni gömlu nýlendu. Eru spenntir fyrir fjárbúskap Sumarhúsabóndans og hrossaeign jökulsins. Seinnipartinn fór svo maddaman að snyrta til á skrifstofunni hjá drengjunum sínum og felst það meðal annars í því að þurka af skrifborðunum þeirra sem að var ekki praktíserað fyrir daga maddömunnar í fyrirtækinu!
Svo þegar madddaman er búin að því segir einn þeirra við mig að skrifborðin þeirra hafi aldrei verið svona hrein og fín og svooo góð jarðarberjalykt (Ajaxið) af þeim og bætir svo við að það að fá maddömuna til starfa væri það besta sem hent hefur þá á sl. ári og líkti því við lottóvinning að svona heppin væri maður bara einu sinni i lífinu!
Maddaman gat ekki annað er bráðnað örlítið þrátt fyrir að hún viti að þá sárlangi í meiri heimabakaðar kökur!

mánudagur, janúar 3

Dagen derpå....

Maddaman er ósköp andlaus af lestrinum og það eru ekki jólabækurnar lömbin mín. Einnig finnst henni þessar hörmungar í Asíu óskaplegar og ekki séð fyrir endann á því öllu saman.
Maddaman gleymdi reyndar að segja frá því í nýársdagsblogginu að Sumarhúsabóndinn átti gríðarlega gott komment á aðfangadagskvöld þegar hann var að skoða jólakortin. Það er alltaf byrjað á því á heimili maddömunnar að opna kortin á undan pökkunum og er það íþrótt sem að Sumarhúsabóndanum hugnast lítt..hann segir réttilega að þetta sé alltaf frá sama fólkinu og það sé einkennilegt hvað við kvenþjóðin getum verið upprifin yfir berum barnungum á gæruskinni númeri stærri en í fyrra!!! Nema hvað að kona Sumarhúsabóndans er ströng kona og það þrátt fyrir jólahátíðina! Sumarhúsabóndinn skoðar því kortin með hangandi hendi eftir að kona hans hefur opnað, lesið og rétt honum kortin. Bóndinn fékk í hendur logagyllt kort með mjög svo framúrstefnulegum englum sem að voru að föndra eitthvað sem ekki lá alveg ljóst fyrir svona í fljótu bragði! Rumdi þá í Sumarhúsabóndanum, Jæja alltaf sér maður eitthvað nýtt , englarnir komnir í skítkast hver við annan!!!
Þetta þykir maddömmunni bæði jólalegt og huggulegt og minnir hana á upprunann sem hún er svo ósköp ánægð með!!!

laugardagur, janúar 1

Nú árið er liðið...og aldrei það kemur til baka

Gleðilegt nýtt ár.
Hafið þökk fyrir samfylgdina á því gamla og gegnum lífið svona almennt!

Maddaman er komin aftur heim til DK. Það er ósköp gott að koma heim þó að það hafi verið handleggur að tæta út á BSÍ kl 5:30 í morgun til að taka rútuna með fræga fólkinu sem var álíka myglað og maddaman þrátt fyrir frægðina!! Maddaman átti góð jól og áramót...jólin með Sumarhúsafjölskyldunni og áramótin með góðum vinum og einni af aukafjölskyldu maddömunnar.
Mikil og góð bókajól í ár fyrir utan skólabókajólin margumtöluðu!!! Bylur nánast allan tímann og maddaman fór ekki spönn frá rassi... enda vaðmálspilsin óþægileg í byljunum!
Það sem toppaði þó þesssi jól voru þrjár jólagjafir sem að maddaman átti þó enga hlutdeild í

1. Fullorðinn frændi maddömunnar sem að deilir rausnarlega út jólagjöfum til barna og fullorðinna og gaf klæðskera fjölskyldunnar (sem að er um fertugt justbytheway) saumahandbókina 100% Nylon nema hvað!!!!!!

2. Sorptunna af stærri gerðinni sem að maddömmumóðirin fékk frá góðum granna!!! Sumarhúsabóndinn hélt nú að þettta múv hefði ekki verið vel séð af hans hendi!!!!

3. Sami nágranni sem að hlotnaðist peysa frá Stressmann í jólagjöf....snilldarheit á þeirri ágætu sjoppu!

Áramótatoppið var tvímælalaust flugeldarnir sem að maddömunni finnst vera eins og sáðfrumur í samhæfðu sundi!!! Voru ekki fleiri sem að sáu þetta, maddömunni er spurn!
Og skaupið sem að maddömunni þótti snilld og hlutur Kristjáns Jóhannssonar síst of lítill!

Lifið heil.....þar til næst