föstudagur, mars 31

Puð....

Jökullinn segir stundum að það sé puð að vera strákur, ekki er nú minna puð að vera stelpa...þó að hún sé orðin 29 ára!!!

fimmtudagur, mars 30

Péningar.....

Fátt fer meira fyrir brjóstið á maddömunni en þegar menn sjá ekki út fyrir túngarðinn heima hjá sér. Já jafnvel ekki út fyrir útidyrnar. Svoleiðis umræða kom á kaffihúsinu. Sú eina í hópnum sem lifir hinu fullkomna fjölskyldulífi með mann og barn og 118 mismunandi kryddtegundir í vel merktum krukkum var með nýja leðurtösku sem að maddaman og stöllur hennar voru býsna hrifnar af. Þá barst til tals hitt og annað af nauðsynjum (lesist föt og skór) sem konurnar vantar til að geta mætt komandi sumri sómasamlega.
Þá kom fjölskyldumanneskjan með það komment að henni finndist við þessar einhleypu nú kaupa fullmikið af fötum og skóm og hvernig við hefðum efni á þessu.
Við einhleypurnar litum hvor á aðra og andvörpuðum mæðulega innbyrðis....ekki þetta eina ferðina enn.
Sú sem orðin beindust að ásamt maddömunni föndrar til dæmis við það að sjúga blóð úr sjúklingum á ríkisspítalanum eldsnemma um helgar og þegar hún er ekki í því þá selur hún sauðdrukknum Færeyingum og Grænlendingum brennivín til klukkan 9:00 á sunnudagsmorgnum. Lesendur maddömunnar vita allt um hennar sorphirðu.
Maddaman benti svo á það væru allt aðrar áherslur á svona einsmannsheimilum td. í matarinnkaupum og svo tækjakaupum svona til að nefna einhver dæmi.
Svo er bara misjafnt hvað fólk eyðir peningum sínum í og það er bara allt í lagi, sumir éta mikið aðkeyptan mat eða borða úti, sumir eiga öll nýjustu raftækin, aðrir leggja mikla áherslu á að kaupa tónlist og kvikmyndir, sumir vilja kjóla og hvítvín.
Það sem bara skiptir máli er það að fólk hefur yfirráðarétt yfir eigin fjármagni og á ekki að þurfa að svara fyrir það í hvað þær tekjur fara, allavega ekki fólki sem að kemur það ekki við. Svo það sem er lykilatriðið þarna er það að það er munur á þvi að vera einhleypur eða fjölskylda. Húsmóðirin meldaði svo út að það er verið að safna fyrir húsi í litlu fiskiþorpi í Færeyjum og í það fer náttúrulega peningur sem að hinir vitleysingarnir bruðla með í eitthvað annað. En kannski verður eilítið minna framboð á kaffihúsum og kjólum í Klakksvík!!!
Fyrir utan það hvað það er nú óþolandi að tala um peninga sýknt og heilagt!
Kvöldið var svo toppað þegar sú hin sama dró upp símann og sýndi mynd af barnunganum sem hefur erft full mikið af óheppilegum andlitsdráttum föður síns og spurði hvort að barnið væri ekki það fallegasta undir sólinni. Maddaman faldi glottið á bakvið belgvítt hvítvínsglasið......

miðvikudagur, mars 29

Í bláum skugga.......

Maddaman er að hugsa um að fara að praktísera að fá sér í tánna á hverju kvöldi...það gerir lífið eitthvað svo mikið léttara!!!!
Í kvöld kaffihúsuðust vinkonur maddömunnar og hún og drukku hvítvín á kostnað....ja allavega maddömunnar því að hún borgaði reikninginn!!! En fær hann endurgreiddan;O)
Hins vegar hafa ákvarðanirnar í lífinu oft tekið maddömuna en hún ekki þær og hún á það til að verða hissa þegar lífið fer stundum í þveröfuga átt við það sem maddaman ætlaði því og þveröfugt á hennar prinsipp og mottó. En maddaman getur ekki snúið ánum fram til heiða....þó að hún sé handsterk kona og fylgin sér. La vita bella og vorið er komið maddaman sá könguló í dag!

mánudagur, mars 27

Maddaman eldaði sunnudagssteikina í kvöld sem að var frekar plebbaleg naut og kartöflur og sósa. Ákvað svo að opna rauðvín handa sjálfri sér sem að maddaman gerir nánast aldrei fyrir sig eina. Það endaði í rauðvínslettum um allt eldhús í svuntu, fötum og hári maddömunnar. Eldhúsið er eins og eftir loftárás og andsk.... butlerinn akkúrat í fríi í dag!!!! Annars er keimur að vori í dag.....

Einstök....

Hinar ein-stöku vinkonur maddömunnar hafa meldað sig á síðustu færslu, glaðar og reifar og er það vel að vér stöndum ekki einar á síðustu og verstu tímum.
Annars er maddaman búin að skipta yfir í sumartíma eins og Evrópa öll svosem, sem að þýðir það að nú er hún tveimur tímum á undan Íslandi. Alltaf skrefinu á undan!
Annars er maddaman að færa sig í nútímann í skriftunum og er það vel.

Þegar maddaman var 8 ára ung kona í föðurgarði fóru foreldrar hennar í sjötugsafmælið hennar Nýju í Másseli. Maddaman átti hinsvegar að mæta í skólann á mánudagsmorgni og þótti ekki ráðlegt að hún sækti þetta samkvæmi. Kona Sumarhúsabóndans er ráðagóð kona og samdi við maddömuna um að hún fengi sér bók að lesa eins og myndi svo sofna í hjónarúminu (staður sem að maddaman var annars ekki ginkeypt fyrir að vera á). Úti voru gríðarmiklir frostbrestir og maddaman átti heldur ekki að vera að hrædd við þá, sem og hún heldur ekki var. Maddaman las svo lengi og fór svo að sofa í hjónarúminu og færði sig svo í sitt ból þegar Sumarhúsahjónin kom heim. Í afmælinu var bóndi úr sveitinni Eríkur heitinn í Hlíðarhúsum, mikill vinur Sumarhúsabóndans og stórvinur maddömunnar. Hann spurði strax eftir maddömunni og fékk að vita að hún hefði ætlað að vera ein heima og fara svo í háttinn. Þá sagði Eiríkur og dró seiminn aðeins, eins og hann gerði svo gjarnan:Njaaaa hún hefur nú líka alltaf verið svo einstök!
Maddömunni hefur alltaf þótt vænt um þessi orð og sennilega ekki síst afþví að henni þótti svo vænt um Eirík. Stundum hefur maddömuna dreymt gamla manninn hérna úti í Kaupmannahöfn og það hefur ævinlega verið góðs viti.

föstudagur, mars 24

Betra er autt rúm en illa skipað.....

Í tímaritinu Birtu er grein sem að er maddömunni að skapi eftir konu sem heitir Jóhanna Sveinsdóttir. Greinin heitir: Betra er autt rúm en illa skipað og segir allt sem segja þarf! Slóðin er hérna http://www.visir.is/ExternalData/pdf/birta/B060324.pdf og greinin á bls 28!
Góða helgi

fimmtudagur, mars 23

Hvað á barnið svo að heita.......

Maddaman er að hjálpa til (með alkunnri stjórnsemi sinni) við að velja nafn á afmælisgjöfina sína. Maddaman hefur þess vegna verið að plægja gegnum mannanöfn á síðunni wwww.rettarheimild.is. Þar komst maddaman að því sér til mikillar undrunar að það eru til 7 rithættir af nafni hennar; Seselía, Sesilía, Sesselja, Sessilía og Sesselía, Cecilia og svo Cecilía, Maddaman var aldeilis hlessa en þykir auðvitað sitt flottast...og minnst útlenskt. Hverjum þykir sinn fugl fagur.......
Hins vegar má skíra íslenskan karlmann Cecil og er því hérmeð komið á framfæri við aðstandendur afmælisgjafarinnar!!!!

Star.....

Maddaman varð greinilega fræg í gær. Í búðinni í dag kallaði einn af strákunum sem að vinnur þar;Varstu ekki í sjónvarpinu í gær? Maddaman játti því og strákurinn sagði henni að hann hefði þurft að hugsa þetta lengi, þegar hann uppgötvaði að maddaman væri kúnni hjá honum!Svona er að vera frægur á Amager allavega!!!

miðvikudagur, mars 22

Sjónvarpsstjarna.......

Það er svo brjálæðislega mikið að gera í pappírsvinnunni og bókhaldinu hjá maddömunni að það er að verða kvart staða fyrir einhvern áhugasaman.
Ekkert grín að lifa tvöföldu lífi í tveimur löndum og vera með tvær skattaskýrslur í gangi. Maddaman er að hugsa um að skipta um banka og kaupa smá í bankanum líka bara svona til öryggis. Annars var maddaman sjónvarpsstjarna í kvöld, kom í rúllustiganum í Go Aften Danmark og líktist óþarflega mikið Dúdda þegar hann var í skyggnilýsingunum um árið, svona fyrir smekk maddömunnar!!!! Það er hægt að borga fyrir að sjá þessar 20 dýrðlegu sekúndur með maddömunni á heimasíðu Tv2.

Maddama, kerling, fröken, frú

Vinkona maddömunnar sagði henni um daginn að hún og móðir hennar hefðu í sameiningu fundið út að maddaman hefði ( ef að hún hefði lifað á 19 öld eða byrjun 20. aldar)átt að vera sýslumannsfrú eða prestfrú á gullslegnum upphlut með skotthúfu
og stjórna stóru heimili og fjósi, fullu af vinnufólki og smákrökkum, og láta eiginmanninn (sýslumanninn/prestinn) halda að hann stjórnaði öllu og væri rosa sniðugur og duglegur strákur. Maddaman efast ekki um að hún hefði farið létt með þetta. Maddaman heldur samt að það sé best að hún hefði sjálf verið sýslumaður!!!!

Eitt að lokum, hvað er fyndara en þegar þrjár kynslóðir blogga allar og eru í þokkabót allar jafn steiktar eins og æskan segir!!!!

mánudagur, mars 20

Jeremías og jólasveinarnir......

Loxins er maddaman búin að sjá hvað Geir H Haarde sagði á fundinum um helgina, þar sem að verið var að ræða brottför hersins:„Það er ekki alltaf hægt að fara heim með sætustu stelpunni á ballinu, en önnur gerir kannski sama gagn“, Geir er greinilega búin að fatta pointið í lífinu!!!
Maddaman getur ekki ímyndað sér að Geir hafi nokkurn tímann fengið að fara heim með sætustu stelpunni á ballinu, en Inga Jóna hlýtur að gera sama gagn!!!

Félagslíf.......

Félagslíf heyrnarlausra hefur verið á dagskrá í dag og andleysið hreint ógurlegt!!!!
Þeir stofnuðu skíða og skákklúbba sýndu bíomyndir frá Danmörku og tóku sér ýmislegt fyrir hendur. Annars er sviptivindasamt þessa dagana á hinum ýmsustu vígstöðvum!

sunnudagur, mars 19

Gvuðshús

Maddömusystir gerði góða för yfir hafið í vikunni. Maddaman er að trappa sig niður eftir allan þann góða mat&drukk sem að var innbyrtur. Guðshús og H&M mikið sótt heim i förinni. Stefnt á meinlætalíf....á morgun! Loppan er hins vegar að stríða maddömunnni og stigagöngurnar ekki að gera sig. Í gær var fyrsti frostlausi dagurinn í mjööööög langan tíma. Maddaman er að vonast eftir vorinu....veit ekki hvað verður.

mánudagur, mars 13

Um mig

Ég hef...

( ) klesst bíl vinar/vinkonu
( ) stolið bíl (foreldranna)
(x) verið ástfangin/n
(x) verið sagt upp af kærasta/kærustu
( ) verið rekin/n
( ) lent í slagsmálum
( ) læðst út meðan þú bjóst ennþá heima hjá foreldrunum
(x) haft tilfinningar til einhvers sem endurgalt þær ekki
( ) verið handtekin/n
(x) farið á blint stefnumót
(x) logið að vini/vinkonu (jámm en ekki alvarlega....)
(x) skrópað í skólanum
( ) horft á einhvern deyja
( ) farið til Canada
( ) farið til Mexico
(x) ferðast í flugvél
( ) kveikt í þér viljandi
(x ) borðað sushi
( ) farið á sjóskíði
( ) farið á snjóskíði
(x) hitt einhvern sem þú kynntist á internetinu
(x) farið á tónleika
(x) tekið verkjalyf
(x) elskar einhvern eða saknar einhvers akkurat núna...
(x) legið á bakinu úti og horft á skýin
(x) búið til snjóengil
(x) haldið kaffiboð
(x) flogið flugdreka
(x) byggt sandkastala
(x) hoppað í pollum
(x) farið í "tískuleik" (dress up)
(x) hoppað í laufblaðahrúgu
(x) rennt þér á sleða
(x) svindlað í leik
(x) verið einmana
(x) sofnað í skólanum
( ) notað falsað skilríki
(x) horft á sólarlagið
( ) fundið jarðskjálfta
(x) sofið undir berum himni
(x) verið kitluð/kitlaður
(x) verið rænd/rændur
(x) verið misskilin/n
(x) klappað hreindýri/geit/kengúru.....hreindýrskálf
(x) farið yfir á rauðu ljósi/virt stöðvunaskyldu að vettugi (jámm á hjólinu)
( ) verið rekin/n eða vísað úr skóla
(x) lent í bílslysi (sem betur fer ekki slysi en útafkeyrslum)
( ) verið með spangir/góm
(x) liðið eins og þú passaðir ekki inn í/þriðja hjól undir vagni
(x) borðað líter af ís á einu kvöldi
(x) fengið deja vu
( ) dansað í tunglskininu
(x) fundist þú líta vel út
( ) verið vitni að glæp
(x) efast um að hjartað segði þér rétt til
( ) verið gagntekin/n af post-it miðum
( ) leikið þér berfætt/ur í drullunni
(x) verið týnd/ur
(x) synt í sjónum
(x) fundist þú vera að deyja
(x) grátið þig í svefn
(x) farið í löggu og bófa leik
( ) litað nýlega með vaxlitum
(x) sungið í karaókí
(x) borgað fyrir máltíð eingöngu með smápeningum
(x) gert eitthvað sem þú lofaðir sjálfri/sjálfum þér að gera ekki
(x) hringt símahrekk
(x) hlegið þannig að gosið frussaðist út um nefið á þér (það var víst mjólk&skúffukaka)
(x) stungið út tungunni til að ná snjókorni
( ) dansað í rigningunni
( ) skrifað bréf til jólasveinsins
(x) verið kysst/ur undir mistilteini
( ) horft á sólarupprásina með einhverjum sem mér þykir vænt um
(x) blásið sápukúlur
(x) kveikt bál á ströndinni
(x) komið óboðin/n í partý
( ) verið beðin/n um að yfirgefa partýið sem þú komst óboðin/n í
(x) farið á rúlluskauta/línuskauta (jebbs geri það aldrei aftur)
(x) fengið ósk mína uppfyllta
( ) farið í fallhlífastökk
( ) hefur einhver haldið óvænt boð fyrir þig
(x) pissað úti (finnst það ógisslegt)

...og þar hafið þið það!

Langhundar og Zonta konur

Þetta hefur verið afbragðs dagur. Maddaman skrifaði langhund um Zonta konur í Reykjavík sem að voru sómakonur. Stigarnir teknir með trompi og maddaman komst að því að það eru fleiri rassíðir en hún. Annars eru allir frekar góðir upp á 4 hæð, eftir það byrja menn að pústa. Megi allt gott vera með ykkur;O)

sunnudagur, mars 12

Nilfisk

Maddaman er búin að eiga góða helgi, ekkert djamm í frostinu reyndar!
Er búin að hitta vini sína mikið upp á síðkastið og er það vel.
Fór í fínt matarboð í Hróarskelduhreppi í gærkvöldi og lenti í frosthörkum og einum undarlegum strák á heimleiðinni. Í dag hefur maddaman átt laaanga ánægjustund með Nilfisk og er húsnæðið að verða asskoti pottþétt. Maddaman hefur enga sérstaka ánægju af því að þrífa en vill samt hafa þokkalega hreint í kringum sig. Maddaman heldur að þetta helgist afþví að hún hefur þurft að þrífa gríðarlega mikið um ævina, bæði í atvinnuskyni og fyrir sig og sína fjölskyldu. En allt batnar það þegar uppþvottvélin kemur....þetta er að verða að sjúklegri þráhyggju og maddömunna dreymdi um krómaða uppþvottavél fulla af hreinu hvítu leirtaui eina nóttina!!!!

laugardagur, mars 11

Baslarar.......

Maddaman fór inn á vefinn www.forbes.com þar sem meðal annars gefur að líta ríkustu piparsveina í heimi. Maddaman rannsakaði þá vandlega og svei mér þá eins og konan sagði forðum: Það þyrfti nú bæði að vera rafmagnslaust og myrkur!!!!

fimmtudagur, mars 9

Svarti listinn

Nú er maddamaman búin að vera mestanpart í fýlu síðan á mánudaginn og í dag er fimmtudagur!!! Þessi ógnar fýla veldur því að mjólkin súrnar af hræðslu í ískápnum, maddaman skammar fólk í huganum sem að til dæmis gengur ekki nógu hratt út á götu fyrir hennar smekk og svo videre og videre. Hins vegar ætlar maddaman að skamma póstinn upphátt á morgun fyrir það að hringja ekki og segja henni að hún ætti pakka hérna niðri. Láta svo bara seðill í póstkassann hérna sem að maddaman fann í gær og þýðir að hún þurfti á pósthúsið í dag til að sækja pakkann sem EKKI var á pósthúsinu!!! Óþolandi.....og svo eru alltaf allavega 20 manns á pósthúsinu í röð. Lyftan virkar ekki nema endrum og sinnum, og maddaman er ekki orðin góð í fætinum og kemst ekki i spriklið og fætinum finnst vont að labba niður stigana ekki upp.
Nú hvað á maddaman að taka fleira fyrir....passið ykkur bara að komast ekki á svarta listann!!!!

miðvikudagur, mars 8

Sól sól skín á mig

Maddaman borgaði manni í gær fyrir það eitt að þjösnast svo á herðunum á henni að hún er helaum í dag. Maðurinn fann gríðarspennu á ákveðnum stöðum í herðunum og sagði maddömunni það. Maddaman var að huxa um að segja honum að ef hann vissi hvað hvíldi á herðum hennar þá yrði hann ekki hissa þó að hún væri örlítið stíf. En þetta var ritskoðað eins og allt skemmtilegt. Það er sól og snjór í dag og kannski komið að því að fari að vora bara lítið??

þriðjudagur, mars 7

Brotin hjörtu......

Maddaman sá í sjónvarpinu áðan að 9/10 af konum vilja frekar eiga vini heldur en elskhuga. Maddaman heldur að hún sé verulega sammála þeim. Elskhugarnir er hverfulir lömbin mín og ekkert á þá að stóla. Vinirnir eru allavega mikilvægasti þátturinn í hennar lífi, maddaman er líka svo heppin kona að hún á marga góða vini og vonar að hún beri gæfu til að eiga þá allt lífið og vonar að þeir vilji eiga hana líka. Maddaman er líka svo vel upplýst um þessar mundir að hún veit að 40% hjónabanda í Danmörku enda með skilnaði og 3. hvert barn er skilnaðarbarn. Það er hátt hlutfall af brotnum hjörtum í litlu landi.

Sætirass...(bara fyrir þig Ragna...!!!)

Um leið og maddaman heldur að það sé huxanlega að vora, brestur á með byl og snjókomu. Helstu tíðindi er að lyftan í húsinu verður óvirk næstu sex vikurnar og maddaman stólar á að verða komin með stinnari rass með vorinu eftir matvæla og þvottaburð upp og niður stigana að maður tali nú ekki um hismi maddömunnar. Maddaman er betri í loppunni til allrar hamingju eftir að stigagangan byrjaði;O)
Svo er brúðarkjólinn fundinn.....án þess að maddaman hafi leitað neitt að honum enda ekki tilefni framundan til að nota hann!!!

föstudagur, mars 3

;O)

Sumir dagar eru svo góðir að þeir spássera með manni alla ævi sagði Þórbergur Þórðarson í Sálminum um blómið. Svoleiðis hefur þessi dagur verið og meðal annars fór maddaman að líta á nýjasta karlmanninn í lífi sínu, son Brennu-Böðvars og Elísabetar. Hann er óskaplega fríður piltur og maddaman varð strax skotin í honum. Hann var hinsvegar þreyttur og svaf meðan maddaman stóð við enda víst búin að afreka mikið fyrri part dags miðað við karlmann á hans aldri.

miðvikudagur, mars 1

Pælingar

Vinkona maddömunnar skrifaði þetta inn á bloggið sitt og maddömmunni finnst þetta svo sko góð pæling. Tekið af blogginu http://www.syndugarsystur.blogspot.com/, reyndar án góðfúslegs leyfis iddiböddu!!!!

"Hvenær rennur upp sú stund að maður veit að maður er á réttri hillu í lífinu? Eða er enginn á réttri hillu? Eru allir að klifra í rólegheitum upp hillurnar í átt að réttri hillu? ... sem er kannski bara ekki til? Hvað ætli séu margir sem eru ekki að lifa lífinu sem þeir óskuðu sér? Hvað ætli mörgum sé sama og hvað ætli séu margir sem naga sig í handabökin yfir því að hafa ekki tekið áhættuna og stokkið til þegar tækifæri gafst? Hvað ætli séu margir sem stukku en þegar þeir voru búnir að stökkva sáu þeir að þetta var ekki rétt stökk? Hvað ætli séu margir sem langar til að gera eitthvað allt annað en þeir eru að gera í dag en þora ekki að slá til, kannski vegna þess að það er ekki eftir bókinni? Hvað ætli myndi gerast ef normið yrði tekið af og allir gerðu það sem þá langaði til að gera? Væri það gott eða slæmt? Er betra að normið sé að vera skrítin eða að vera eðlileg? Eða er ég bara skrítin að vera að velta þessu yfirleitt fyrir mér?" (tilvitnun lýkur)

Maddaman hefur oft velt þessu fyrir sér með hillurnar...en maddaman segir eins og iddibadda sem að sér ekki eftir neinu í lífinu, enda þýðir ekki að vera fangi fortíðar. Hins vegar hefur það stundum komið maddömunni verulega á óvart að ákvarðanirnar hafa stundum meira tekið maddömuna heldur en maddaman þær.
Eitt af því sem að hrjáir maddömuna stundum í lífinu er að hún er ekki sérstaklega gefin fyrir það að taka áhættur. Það er eiginlega alveg sama hvernig áhætta það er hvort að þær eru tilfinningalegar, fjárhagslegar eða allar áhættur bara. Þarf helst að sjá skrefin, vita viðbrögðin en það er jú ekki alltaf hægt. Ein mæt vinkona maddömmunar sagði henni einu sinni að maður ætti að stefna að því að gera eitthvað nýtt/öðruvísi á hverjum degi til að festast ekki í viðjum vanans. Það þyrfti ekki að vera neitt stórvægilegt bara að fara aðra leið í skólann/vinnuna (eitthvað sem maddömunni er t.d. meinilla við), sleppa sykrinum út í kaffið, lesa annað dagblað en vanalega og svo framvegis.
Maddaman hefur prófað þetta og þetta tekst ekki alltaf á hverjum degi en það er gaman að prófa að gera þetta meðvitað.