fimmtudagur, nóvember 25

Maddaman var búin að blogga þessi lifandis býsn í gærkveldi en bar svo við að bara fyrirsögnin dúkkar upp! En maddaman gefst nú ekki upp þótt móti blási og prófar aftur. Það kætir maddömuna mikið þegar að sólin stingur fram kollinum þessa daga sem að birtutíminn er af skornum skammti! Þá sér maddaman reyndar hvað rúðurnar hjá henni eru óstjórnlega drullugar en það er mikið áhættuatriði að skafa skítinn af þeim og maddaman var einu sinni "næstumþvídottinútafsjöunduhæð" þegar hún flækti sinn foxy fót í internetsnúrunni! Þetta var meðan maddaman bjó í skápnum. Þetta varð til þess að maddaman fór að rifja upp alla þá staði sem að hún hefur búið á í gegnum tíðina!

Óðals Sumarhúsabóndans og konu hans: Maddaman flutti í sér herbergi þegar hun var 4 ára og lokaði á eftir sér! Á ennþá sérherbergi með styttum og fleira góssi!
Heimavistin Brúarási: Maddaman bjó þar alla vetur frá því að hún var 7 vetra til 15 vetra. Grenjaði mikið fyrsta veturinn af heimþrá- mest stallsystur sinni til samlætis en allt gekk vel eftir það. Prófaði öll herbergin þar
Miðgarður Alþýðuskólanum Eiðum. Maddaman var þar í 10 bekk og stalst aldrei yfir til strákanna þrátt fyrir að hana langaði mikið til þess!
Gljúfraborg, Breiðdal- Maddaman hafði sumardvöl þar og naut skjóls skólasystur sinnar og vinkonu. Vann í fiski á Breiðdalvík og vakti húsráðendur með slæmum draumförum sínum um nætur.
Selás 25 Egilsstöðum- maddaman bjó þar fyrsta veturinn i menntó. Þar fylgdust grannarnir grannt með öllum gestagangi og kostaði miklar yfirheyrslur ef ókunnugir bílar sáust þar um nætur!
Heimavist ME. þar bjó maddaman tvo vetur og skemmti sér konunglega. Prófaði allavega 3 herbergi til búsetu opinberlega.
Tjarnarlönd 22- Maddaman hafði sumarsetu þar við 2 mann hjá frænku sinni!
Verbúðin á Breiðdalsvík- Bjó með vinkonum sínum og einum róna þar sumarlangt. Gleymst hafði að þrífa eftir síðasta síldarævintýri og róninn enginn pempía svosem. Gríðarlega fjölskrúðugt dýralíf!
Tjarnarbraut - maddaman leigði við þriðja mann efri hæð af prentaranum sem að snappaði daginn sem að madaman fyllti tuginn og henti henni út "enda óþolandi umferð af strákastóði hérna alla daga og nætur". Maddaman náði fullum sáttum við prentarann og hélt sínum búskap áfram með strákastóðinu ótrauð.
Grunnskólinn Hallormsstað- maddman bjó á almenningsklósettum í kjallaranum þar sumarlangt þó var salernisnotkun í lágmarki þetta sumarið því að maddaman svaf undir sturtunum. Mikill og góður selskapur af kóngulóm það sumarið
Sólvallagatan í Vesturbænum- maddaman á heimavist eina ferðina enn við þriðja mann i herbergi. Sambúðin gekk upp og ofan. Annar herbergisfélaginn ólétt en mest geðstirð samt og hin geymdi pitsur og fleira góðgæti undir rúminu sínu dögum saman!
Sigtún - Patreksfjörður- maddaman bjó í endaíbúð í verkamannabústöðum. Þar reyndi maður að komast inn um svefnhergbergisgluggann og svalahurðina að næturlagi. Maddaman skaut á skyndifundi með sér og sloppnum undir sænginni! Hugrökk að vanda skipaði maddaman manninum á brott á kjarngóðri íslensku. Ekki dugði þetta eins og í Búkollu forðum. Maddaman staðráðin í að standa vörð um siðprýði sína hringdi þá á lögregluna sem bjó á næsta götuhorni. Þeir brugðust skjótt við og komu eftir klukkutíma!!! Þá var maðurinn löngu búin að gefast upp á þessu brölti! Enga samúð fékk maddaman út á þetta. Sumarhúsabóndinn bauðst til að lána byssu að nafninu 244 og vinkona maddömunar ráðlagði henni að miða límbyssunni á óboðna gesti, passa bara að láta snúruna ekki sjást!!!
Bartholinsgade-Kaupmannahöfn- maddaman bjó sumarlangt við annan mann Dana. Herbergi maddömunar var inn af herbergi Danans og hann var með nýja kærustu í gangi, langhlaupara ef að ég man rétt! Say no more
Kalveboden, Sydhavn - Versta hverfi sem að maddaman hefur búið í á ævinni. Bjó í herbergi sem áður höfðu búið 7 kettir í og doldið af kattarflóm sem að lögðust á sinnið á maddömunni! Þarna var rakinn slíkur að maddaman þurkaði rúmfötin á sjálfum sér eins og Fjalla-Bensi forðum!
Dalslandsgade, 8- A-711. Mikil var gleði maddömunar þegar hún fékk lyklana af skápnum góða. 2 árum og 10 mánuðum seinna færði hún sig í tvöfaldan skáp hinu megin við götunar sem að hún býr enn í!
Ekki meira að sinni

3 ummæli:

Guðjón sagði...

Sæl Selja.

Þessi skrif þín eru orðin daglegur lestur og hef ég mjög gaman af!! Þú stendur þig eins og hetja. Hlakka mikið til jólahugvekjunnar!!

SBS sagði...

:o)Gleður míg að heyra meistari Guðjón, hugvekjan er í smíðum og vonast ég til að þér verðið eigi svikinn af lesningunni!

SBS sagði...

:o)Gleður míg að heyra meistari Guðjón, hugvekjan er í smíðum og vonast ég til að þér verðið eigi svikinn af lesningunni!