mánudagur, nóvember 22

Maddaman tekur sér stundum hverfisþramm með stöllu sinni og tók hún eitt slíkt í gærkveldi. Var mikill reykjarilmur í lofti frá vinum vors og blóma í Kristjáníu, þegar kólnar í veðri kynda þeir kröftuglega kamínurnar, ekki er víst svo mikið hassið til að fíra upp í.
Þetta minnti maddömuna á lítið hesthús austur á Héraði á óðalsjörð Sumarhúsabóndans. Þar reykir kona Sumarhúsabóndans í laumi á jólaföstunni, þó ekki hass en hangikét. Maddaman hefur yfirleitt viðhaft mikil útispjót til að fá sendan krík yfir hafið til jólanna og tókst það í fyrra. Mikil var gleði maddömunnar þegar hún þefaði af heimareyktum skankanum sem Sumarhúsabóndinn hafði alið og breytt í két ásamt konu sinni! Maddaman ferðaðist með kríkinn í Metro og vakti mikinn áhuga hunda og róna þann daginn fyrir góðan ilm!
Maddaman man líka eftir stjörnubjörtum vetrarkvöldum þegar hún var stelpuhnyðra og skondraðist með Sumarhúsabóndanum að hára skepnunum. Meðan Sumarhúsbóndinn valdi hey eftir kúnstarinnar reglum allt eftir hvaða árgangur átti í hlut og gaf á garðana, fékk hnyðran að brynna eftir kúnstarinnar reglum og gefa svona minna þýðingarminni skepnum eins og hrútunum og sparispíssunum, stundum voru líka hænugrey sem að þurfti að traktera! Stundum fékk stelpuhnyðran að gefa sjálf á einn auðvelda garðann og þá þurfti að vanda til verka því að Sumarhúsabóndinn vildi ekki sjá að heyinu væri þyrlað um krærnar og hent um garðana. Sumarhúsabóndinn vildi að maður væri natin við skepnurnar og verk sín. Svo þurfti að troða moði eða heyi í poka handa hrossum Sumarhúsabóndans, það var erfitt að gera svo að Sumarhúsabóndanum líkaði vel og dró hann stelpu hnyðruna oft að landi svo að pokinn yrði steintroðinn. Svo þumlunguðust Sumarhúsabóndinn og stelpuhnyðran út með pokann, þá var að hespa húsin aftur og þá vissu hundarnir að komin var tími til að rölta til bæjar. Sumarhúsabóndinn með heypokann á bakinu sem að var helmingi stærri en stelpuhnyðran og hún með eggin í vösunum eða í húfu með heyhreiðri og ströng fyrimæli um að fara varlega með þau, þá var gott að stinga litlum lófa í heitan hramm Sumarhúsabóndans sem alltaf gat gefið sér tíma til að leiða stelpuhnyðruna þrátt fyrir að verkahringurinn væri stór.
Ekki meiri nostalgígja að sinni....