fimmtudagur, maí 5

Sleðbrjótskraftar

Maddaman er í óvenju miklu bloggskapi og leiðari dagsins kemur til að við þrif snéri maddaman sundur skaft nokkurt sem að á endar á sköfu sem að staðsett er á baðherbergi maddömunnar. Þessi skafa er ætluð til að ýta vatni af gólfinu í áttina að niðurfallinu en þetta léttir umgang á þessu kamersi til muna. Maddaman hefur ekki tölu á því hversu mörg svona sköft hún er búin snúa sundur síðan hún hóf búsetju á flatneskjulandi þessu.
Þessir kraftar maddömunnar hafa fylgt henni alla ævi og var hún ung að árum þegar hún rogaðist inn með mjólkurgrindurnar af tröppunum býsna roggin með sig.
Hins vegar voru engin fagnaðarlæti hjá Sumarhúsabóndanum og frú þegar sama dama þá 7 ára sneri sundur bíllykilinn á bifreið sömu hjóna, í einu af fáum sumarfríum fjölskyldunnar á Akureyri. Fyrir einhverja slembilukku var þó varalykill staddur í hanskahólfinu og fékk maddaman ofanígjöf og vinsamleg tilmæli um að halda krumlunum frá lykli þessum.
Nú svo var maddaman liðtæk í böggum rigningarsumarið mikla og síðast en ekki síst góð í því að lyfta nýbornum rollum yfir milligerðin í fjárhúsunum, Sumarhúsabóndanum til skelfingar. Einu sinni brá hann sér nefnilega í kaupstað og maddaman var heima hjá rollunum og svo bar ein bústin tvævetlan á meðan og eina leiðin til að koma henni vel fyrir til bráðabirgða var að lyfta henni yfir. Svo kom Sumarhúsabóndinn heim og fór að athuga aðstæður og spurði maddömuna hvernig tvævetlan hefði eiginlega komist yfir milligerðina. Þegar maddaman sagðist hafa lyft henni yfir, þá glotti Sumarhúsabóndinn aðeins og sagði;Nú ætli mig muni þá nokkuð um að lyfta henni til baka!

4 ummæli:

Picciotta sagði...

já já svona er það nú... kraftarnir úr sveitinni hafa nú aldeilis komið manni vel í stórborgum heimsins :)

Nafnlaus sagði...

Já uppruninn kemur upp um mann hvort sem maður kærir sig um eður ei. Annars hefur nú löngum komið sér vel að hafa krafta í kögglum.
Begga

Nafnlaus sagði...

Langt síðan ég hef kíkt á síðuna. En nú er prófum lokið og ég get farið að stunda netheiminn meira ;)Gaman að lesa eina gamla góða úr sveitinni. Ég er einmitt að fara í sveitina um næstu helgi til að leyfa drengjunum að upplifa sauðburðinn. Það verður gott að komast í sveitasæluna.
Kveðja, Ragnhildur

Nafnlaus sagði...

Jú takk, það kemur sér prýðilega fyrir alla útburðina hérna á görðunum sem eiga sér stað um þessar mundir;o)
SBS