þriðjudagur, febrúar 1

Gæludýr.....

Maddaman er miklu hressari til sálar og líkama í dag. Sá kjól búin til úr súkkulaði í sjónvarpsfréttunum sem að örmjó sýningarstúlka rölti um í og át svo af súkkulaðiðikjólnum annað slagið. Maddaman heldur að þetta hafi verið á súkkulaðihátíð í Vín! Maddömuna langar í soleiðis kjól fyrir þorablótið en heldur samt að trylltur lýðurinn gæti ekki stillt sig um að éta helv.... kjólinn og þá væri nú maddaman í vondum málum!!!!
Annars er maddaman ekki að skilja fólk sem er með minningarsíður á netinu um hunda og ketti og er að maddömunni skilst í veikindafríi í vinnunni útaf andláti kalkaðra, geðstirðra hunda og katta! Maddaman er náttúrulega bara kaldrifjað sveitabarn sem að hefur mátt sjá af öllum sínum skepnum annaðhvort í pottinn, sláturhúsið eða gröfina. Á Héraði setja menn metnað sinn að skjóta sína hunda og hesta sjálfir sem þökk fyrir samfylgdina. Sumarhúsabóndinn útskýrði þennan gang lífsins fyrir maddömunni þegar hún var 5 ára og vildi láta 3 hrúta sem höfðu verið heimalingar um sumarið alla lifa. Sumarhúsabóndinn fór í gegnum það með maddömunni hverslags þrengsli það yrðu á búgarðinum og í heiminum öllum ef að allt sem fæddist fengi að lifa þar, plús afkomuþátt heimsbyggðarinnar. Og eftir smá þóf við Sumarhúsabóndann ákvað maddaman þegar hún var 5 ára að svona væri bara lífið og þau feðginin kvittuðu fyrir þetta með bláum Ópal með ammoníaki í sem að var ævinlega þrautaráð til að sætta maddömuna!
Maddaman skilur ekki svona gæludýrahald, bara botnar ekki í því hvernig menn nenna að eiga ketti sem að skíta á skottið á sér lon og don, páfagauka með æxli sem að þurfa í flóknar aðgerðir á dýraspítölum og gullfiska sem halda markaðnum gangandi með að éta hvern annan, hunda sem að sofa upp í og þarf að tannbursta og passa upp á getnaðarvarnir þeirra og þurfa að eiga vegabréf til að ferðast um heiminn!!!!
Maddaman ekki gæludýraunnandi.....

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jæja, komin vika síðan síðasta færsla var gerð. Ég kíki á síðuna mörgum sinnum á dag í von um nýtt skemmtiefni en alltaf kemur sama færslan upp, sú um gæludýrin, sem ég er b.t.w. ekki alveg sama sinnis.....:( Er að spá í að gefa þér einhverskonar gæludýr í afmælisgjöf þetta árið til að sjá hvort þú skiptir ekki um skoðun. Er viss um að það yrði komin upp síða á barnalandi innan tíðar þar sem stór afrekum nýjasta fjölskyldumeðlimsins yrði vel líst í máli og myndum. Hef nú séð annað eins. Við skulum nú sjá til hvað gerist......

RLÞ