sunnudagur, febrúar 20

Sambýlingar

Maddaman var spurð um daginn hvort að hún hefði verið í sambúð, hvursu maddaman neitaði. Maddaman fór þá að hugsa um að þetta væri kannski ekki alveg rétt hjá henni, því að maddaman hefur verið í sambúð....allavega í ein 14 ár!!! Því að hvað er sambúð annað en að búa með öðrum og þá varla endilega maka sínum. En maddaman mátti þrauka gegnum alla sína skólagöngu eilíflega í sambúð.
Meðan maddaman var barnung þá var búið á 4 manna herbergi stundum 5 manna. Síðustu árin í barnaskóla vorum við yfirleitt þrjár af því að þannig stóð á árgangnum. Svo kom 10. bekkur og Menntó og þá vorum við tvær til þrjár á herbergi. Þá er ótalin dvöl á verbúð þar sem að við vorum eimitt fimm í herbergi og hitt og annað tilfallandi. Það er ekki hægt að segja að prívatlífið hafi verið neitt ógurlega mikið eða næðið! Samt mesta furða að þetta hafi gengið nokkurn veginn árekstralaust að mestu. En tímarnirhafa breyst og nú er að ég held búið að leggja niður allflesta heimavistarskóla á landinu nema þar sem eru sérstakar landfræðilegar aðstæður og allavega eru yngri börn ekki geymd þar svo vikum skipti. Enda heldur maddaman að það mundi nú heldur betur verða uppi fótur og fit ef að ætti að fara senda 7 ára börn með íþróttatösku fulla af fötum í skólann til að vera þar frá mánudegi til föstudags. Maddaman varð að passa upp á dótið sitt sjálf, láta utan um rúmið sitt og koma með rúmfötin heim aðra hverja viku, passa að grauta ekki saman óhreinu fötunum og hreinu og passa að pakka niður dótinu sínu á föstudögum til þess að fara með heim í þvott. Eitt af fyrstu skiptunum sem að maddaman var í skólanum, þá gleymdi skólabílstjórinn henni í skólanum. Maddaman hafði farið að sækja töskuna sína og þegar hún kom aftur niður af heimavistinni þá var skólabílstjórinn lagður af stað án hennar.
Hamingjan sanna, það var stúrin 7 ára maddama sem að settist niður í stigann á heimavistinni og vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Sem betur fer kom kennari maddömunnar og stórvinkona og bjargaði málunum með því að ræsa út menn á næstu bæjum sem að voru látnir hlaupa í veg fyrir skólabílinn og snúa honum við og sækja maddömuna! Þó þótti maddömunni verst að stórir strákar sem að voru í skólabílnum vissu vel að maddömuna vantaði í bílinn og þótti henni það alla tíð ótugtarlegt af þeim að segja ekki frá því að hana vantaði! En svona var lífið á heimavistinni, það var harður heimur ekki síður en nútíminn og ekki allir sem að kláruðu sig á þessu.
Maddömunni finnst ekki skrýtið að hún njóti þess í botn að búa ein og heldur að fjarbúðar formið myndi henta henni afskaplega vel......

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ó, já lífið á vistinni....
Kveðja, Ragnhildur