mánudagur, febrúar 14

Betri er barn en belgur.....

Eitthvað hefur nú fækkað í aðdáendaklúbb maddömunnar síðan hún var upp á sitt besta, en þakkar eftirtöldum 5 yfirlýstan stuðning!! Nú hljómar maddaman nákvæmlega eins og gamli íslenskukennarinn hennar á Eiðastað í gamla daga en hann tók alltaf 10 mínútur á hverjum morgni til þess að skamma okkur sem mætt vorum fyrir að hinir létu ekki sjá sig. Maddaman var ekki í þeim hópi sem að var fjarverandi, ó nei hún ásamt stallsystur sinni og etv. tveimur drengstaulum voru einu nemendurnir af 120 sem voru ekki með neina óheimila fjarveru allan þennan vetur og þótti gríðarlega nördalegt og hallærislegt.
Annars er snjór á pönnukökulandi og blessuð börnin öskra á ganginum eins og stungnir grísir.
Ef að þið sjáið í fréttum að annars sallarólegur íslenskur námsmaður af gerðinni kvenfólk hafi gengið berserskgang á íbúðargangi á Eyrnarsundsgarðinum þá er það pottþétt maddaman. Annars rennur maddömunni yfirleitt reiðin um leið og hún mætir þessum skinnum, því að þau fagna henni öll með tölu og Hákon litli lærði að segja nafn maddömunnar áður en hann yfir höfuð fór að tala nokkuð af viti. Benjamín 5 ára nágranni madömunnar, þreifaði líka hraustlega á kvið hennar um daginn til að tékka hvort að þar leyndist kannski barnungi en móðir hans er með 7 barn gangsins innanborðs. Maddaman fullvissaði Benjamín um að þetta væri bara grautur þarna inni fyrir og fannst honum það lítið spennandi. Maddaman hefur hins vegar engin plön um að bæta við 8unda hljóðabelgnum hér á ganginn! Enda mættu þau öskra hér alla daga ef að maddaman þyrfti ekki að hugsa akademískar hugsanir stundum!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Í stuttu máli...sammála síðasta ræðumanni!
Bestu kveðjur í snjólandið mikla (skv. fréttum) Arna Hösk.