þriðjudagur, febrúar 15

Bryllaup.....

Maddaman heyrði nýverið um fólk sem ætlar að giftast í komandi framtíð og er þar af leiðandi búið að senda út gullslegin boðskort til veislu, eins og siður er og er það vel.
Það sem maddömunni finnst hins vegar athyglisvert er það að í boðskortinu eru gjafir í formi eldhúsáhalda og matarstella afþakkaðar. Maddaman hugsaði strax, vá flott hjá þeim menn eiga allt nú á dögum og þetta er bara svona skynsamt fólk sem er búið að skrá sig úr lífsgæðakapphlaupinu!
En ekki aldeilis, næsta klausa var sú að komandi brúðhjón ætluðu í staðinn að fara í verulega veglega brúðkaupsferð út í heim og fjárframlög væru vel þegin! Einhvernveginn voru skilaboðin sú að menn ættu ekki að skera við neglur sér ef að brúðkaupsferðin ætti að vera eitthvað veglegri en miði til Grímseyjar aðra leiðina!
Maddaman hefur alltaf sagt að þegar hún gifti sig, ætli hún að reka úr túninu hjá Sumarhúsabóndanum og grilla það sem af túninu kemur ( enda bæði hentugt fyrir grænmetis og kjötætur) og slá svo upp harmónikuballi í hlöðunni og halda smá útihátíð, svo getur liðið gist í tjöldum á túninu og svo hafa menn bara með sér örlitla brjóstbirtu og þá verða allir svo dæmalaust ligeglad.
Þetta heldur maddaman að verði ljómandi gott og hún verður alsæl að fá miða til Grímseyjar í gjöf. Hins vegar er eftir að sjá hvernig mótleikarinn mun taka þessum plönum maddömunnar því að það er víst atriði að hafa einhvern til að giftast....En koma tímar, koma ráð!

Engin ummæli: