mánudagur, febrúar 13

Afleggjarinn......

Maddaman er ekki holdgrönn kona eins og margoft hefur komið fram á þessu bloggi og hefur nánast aldrei talist það fæddist afskaplega pattarleg og hefur haldið því nokkuð síðan, Það er heldur ekki leyndarmál, því að vaxtarlag fólks er erfitt að fela mikið fyrir umheiminum og maddaman felur það heldur ekki fyrir sjálfum sér þó að hún kannski vildi glöð gera það og ímynda sér að hún væri bara stærð 38.
Samt hefur maddaman sennilega að meðaltali tvisvar í viku langmestan part af sinni bráðum 29 ára gömlu ævi, verið bent á umfang sitt af samferðafólki sínu, bara svona ef að maddaman væri búin að gleyma því eða hefði kannski ekki tekið eftir því sjálf. Samferðarfólk inniheldur nánast alla sem að maddaman hefur umgengist á lífsleiðinni, fjölskyldu, vini skólafélaga, kærasta, vinnufélagar, kennara, lítil hreinskilin börn, skjólstæðinga og síðast ekki síst bráðókunnugt fólk. Stundum hafa þessar setningar fallið í góðlátlegu gríni, aðrar hafa gagngert verið ætlaðar til að láta svíða undan. Sumar þeirra hafa verið meintar sem ábendingar og skúbb til maddömunnar um að gera eitthvað í "sínum málum" eins og það er orðað svo smekklega þegar allir aðrir en viðkomandí sem að gefur ráðleggingarnar eiga að gera eitthvað róttækt í sínum málum. En allar eiga þessar setningar það sameiginlegt að þær fara á harða diskinn og ekki á gamla floppy diskinn. Það væri hægt að gera langt blogg um hver sagði hverja setningu hvenær og hvar og af hvaða tilefni. En maddaman man þær...nánast allar. Reyndar er maddaman stálminnug kona en það er önnur saga.
Maddaman veltir því hins vegar fyrir sér hver þörfin er hjá öðru fólki að láta menn vita af hlutum sem eru allavega nokkuð augljósir fyrir maddömmunni.
Maddaman hefur margan manninn hitt á lífsleiðinni af öllum stærðum og gerðum með mismunandi nef, hár á röngum stöðum og jafnvel tennur á óheppilegum stöðum og mismunandi marga útlimi. Sem betur fer segir maddaman, það er nú einu sinni það sem er svo margslungið við þetta mannlíf er hversu ólíkar við mannskepnurnar erum í útliti og innréttingu.
En maddaman hefur afskaplega sjaldan fundið hjá sér neina sérstaka þörf hjá sér til að benda mönnum á þetta nef/freknur eða hvað það sem nú er eftirtektarvert í fari fólks. En maddaman man samt eftir einu tilfelli þegar hún var barn þar sem hún gerði sig seka um þetta og skammast sín ennþá fyrir það og á líka að gera það.
Það er maddömunni hinsvegar ráðgáta ef að hinn almenni borgari er uppfullur af þeirri hugsun að maddaman viti barasta allsekki hvernig hún lítur út, að þessi maddama haldi kannski að hún sé bara í hinni eftirsóttu stærð 38 og það sé bara samfélagsleg skylda hins almenna borgara að láta vita af þessu líkt og okkur ber skylda til að upplýsa hvert annað um náttúruhörmungar og farsóttir.
Maddaman veltir því fyrir sér hvort að umheimurinn flokkaði hana með öllum mjalla ef að hún færi að toga í búrkurnar á múslimakonunum og segja þeim í góðlátlegum tón að þær séu múslimatrúar bara svona ef að þær væru ekki vissar svona til að taka nærtækt dæmi!!)


Nú er það svo að maddaman þekkir meðölin sem að duga rétt eins og flestir aðrir. Það er bara að brúka þau eins og önnur meðöl eigi þau að hrífa. Um daginn las maddaman grein sem að fjallaði um það hvað það væri erfitt að vera feitur og hamingjusamur í nútímasamfélagi. Það voru margir góðir punktar í henni og meðal annars þetta umræðuefni sem að er nú nánast á heilanum á mörgu fólki sér í lagi af gerðinni kven (umgengst reyndar karldýr í hópum ekki svo mikið að hægt sé að dæma það)og það er það að tala um hvað hinir og þessir hafi bætt á sig.
Maddaman heldur svei mér þá að sumir fari bara á árgangamót til að tékka á því hverjir hafi bætt á sig. Þeir sem ekki eru þefaðir uppi þar...eru þá yfirleitt svo óheppnir að rekast á einhverja á almannafæri sem eru til frásagnar um þessi ósköp og spara yfirleitt ekki að boða fagnaðarerindið. Ef að allt um þrýtur er hægt að leggjast á gúgglið og barnalandið til að snapa upp restina. Hins vegar er gleðin ekki eins fölskvalaus ef að sömu skólafélögum hefur tekist að losa sig við umframtólgina. Það er minnst á það í forbifarten með töluverðum öfundarhreim.
Maddaman vill hinsvegar trúa því að stærsti hlutinn af þessu vel upplýsta ferðafólki hennar hafi ekki ætlað sér að skilja eftir sig skrá á harða disknum. Það er vegna þess að maddaman reynir að trúa á hið góða í mannkyninu. En orð verða samt aldrei aftur tekin.

Samt er sá maður sem þekkt hefur maddömuna allt hennar líf sem hægt er að undanskilja og hans skrá á harða disknum er tóm og nú ætlar maddaman að leggja frá sér maddömmutitilinn í næstu setningu. Það er hann pabbi minn sem að hefur glaðst með mér glaðri ef vel hefur miðað í þessari baráttu og hryggst með mér hryggri þegar ver hefur gengið en aldrei notað þetta sem vopn gegn mér ef í harðbakkann hefur slegið eins og fólki hættir til að gera.

Svo skal maddaman segja ykkur eina skemmtilega sögu af harða disknum til að hressa ykkur og sig í lokin
Einu sinni eftir að maddaman flúði land þá kom hún á dansleik í Valaskjálf. Þar hitti hún einn af rónum bæjarins. Hann kom auga á maddömuna (annað hefði sennilega líka verið ógerlegt af hans mati;O) og segir :Nei ert þú hér, þú hefur greinilega ekkert farið í megrun nýlega???
Þá snérist snöggt í maddömunni og hún svaraði að bragði;Nei en munurinn á mér og þér er sá að ég get náð þessum kílóum af mér ef að ég legg hart að mér. Það verður hinsvegar aldrei hægt að skipta um haus á þér!
Þess ber að geta að þessi maður hefur ekki sýnt holdafari maddömmunnar eða hennar persónu neinn sérstakan áhuga síðan!

2 ummæli:

Guðjón sagði...

Skemmtileg lesning Selja mín. Ég sé þetta alveg fyrir mér með gæjann í Valaskjálf!
Heyrumst og sjáumst.
Kveðja frá Sweden

Nafnlaus sagði...

Heyr, heyr!! Þetta var góð lesning. Ég er einmitt á hinum kantinum þar sem fólk keppist við að segja mér hversu horuð ég sé!! Veit ekki hvort það heldur að það sé að "hrósa" mér eða hvað!!
Sumir þurfa endalaust að tjá sig um holdafar annara og segja jafnan: Ert þú að tala um þessa feitu?? Eða þessa horuðu?? Hrikalega er þessi feitur? Þessi hefur bætt á sig? Hún er feit? Hann er svo horaður? Ótrúlegt áhugamál sem fólk hefur.
Kveðja, Ragnhildur A