fimmtudagur, mars 30

Péningar.....

Fátt fer meira fyrir brjóstið á maddömunni en þegar menn sjá ekki út fyrir túngarðinn heima hjá sér. Já jafnvel ekki út fyrir útidyrnar. Svoleiðis umræða kom á kaffihúsinu. Sú eina í hópnum sem lifir hinu fullkomna fjölskyldulífi með mann og barn og 118 mismunandi kryddtegundir í vel merktum krukkum var með nýja leðurtösku sem að maddaman og stöllur hennar voru býsna hrifnar af. Þá barst til tals hitt og annað af nauðsynjum (lesist föt og skór) sem konurnar vantar til að geta mætt komandi sumri sómasamlega.
Þá kom fjölskyldumanneskjan með það komment að henni finndist við þessar einhleypu nú kaupa fullmikið af fötum og skóm og hvernig við hefðum efni á þessu.
Við einhleypurnar litum hvor á aðra og andvörpuðum mæðulega innbyrðis....ekki þetta eina ferðina enn.
Sú sem orðin beindust að ásamt maddömunni föndrar til dæmis við það að sjúga blóð úr sjúklingum á ríkisspítalanum eldsnemma um helgar og þegar hún er ekki í því þá selur hún sauðdrukknum Færeyingum og Grænlendingum brennivín til klukkan 9:00 á sunnudagsmorgnum. Lesendur maddömunnar vita allt um hennar sorphirðu.
Maddaman benti svo á það væru allt aðrar áherslur á svona einsmannsheimilum td. í matarinnkaupum og svo tækjakaupum svona til að nefna einhver dæmi.
Svo er bara misjafnt hvað fólk eyðir peningum sínum í og það er bara allt í lagi, sumir éta mikið aðkeyptan mat eða borða úti, sumir eiga öll nýjustu raftækin, aðrir leggja mikla áherslu á að kaupa tónlist og kvikmyndir, sumir vilja kjóla og hvítvín.
Það sem bara skiptir máli er það að fólk hefur yfirráðarétt yfir eigin fjármagni og á ekki að þurfa að svara fyrir það í hvað þær tekjur fara, allavega ekki fólki sem að kemur það ekki við. Svo það sem er lykilatriðið þarna er það að það er munur á þvi að vera einhleypur eða fjölskylda. Húsmóðirin meldaði svo út að það er verið að safna fyrir húsi í litlu fiskiþorpi í Færeyjum og í það fer náttúrulega peningur sem að hinir vitleysingarnir bruðla með í eitthvað annað. En kannski verður eilítið minna framboð á kaffihúsum og kjólum í Klakksvík!!!
Fyrir utan það hvað það er nú óþolandi að tala um peninga sýknt og heilagt!
Kvöldið var svo toppað þegar sú hin sama dró upp símann og sýndi mynd af barnunganum sem hefur erft full mikið af óheppilegum andlitsdráttum föður síns og spurði hvort að barnið væri ekki það fallegasta undir sólinni. Maddaman faldi glottið á bakvið belgvítt hvítvínsglasið......

Engin ummæli: