miðvikudagur, mars 1

Pælingar

Vinkona maddömunnar skrifaði þetta inn á bloggið sitt og maddömmunni finnst þetta svo sko góð pæling. Tekið af blogginu http://www.syndugarsystur.blogspot.com/, reyndar án góðfúslegs leyfis iddiböddu!!!!

"Hvenær rennur upp sú stund að maður veit að maður er á réttri hillu í lífinu? Eða er enginn á réttri hillu? Eru allir að klifra í rólegheitum upp hillurnar í átt að réttri hillu? ... sem er kannski bara ekki til? Hvað ætli séu margir sem eru ekki að lifa lífinu sem þeir óskuðu sér? Hvað ætli mörgum sé sama og hvað ætli séu margir sem naga sig í handabökin yfir því að hafa ekki tekið áhættuna og stokkið til þegar tækifæri gafst? Hvað ætli séu margir sem stukku en þegar þeir voru búnir að stökkva sáu þeir að þetta var ekki rétt stökk? Hvað ætli séu margir sem langar til að gera eitthvað allt annað en þeir eru að gera í dag en þora ekki að slá til, kannski vegna þess að það er ekki eftir bókinni? Hvað ætli myndi gerast ef normið yrði tekið af og allir gerðu það sem þá langaði til að gera? Væri það gott eða slæmt? Er betra að normið sé að vera skrítin eða að vera eðlileg? Eða er ég bara skrítin að vera að velta þessu yfirleitt fyrir mér?" (tilvitnun lýkur)

Maddaman hefur oft velt þessu fyrir sér með hillurnar...en maddaman segir eins og iddibadda sem að sér ekki eftir neinu í lífinu, enda þýðir ekki að vera fangi fortíðar. Hins vegar hefur það stundum komið maddömunni verulega á óvart að ákvarðanirnar hafa stundum meira tekið maddömuna heldur en maddaman þær.
Eitt af því sem að hrjáir maddömuna stundum í lífinu er að hún er ekki sérstaklega gefin fyrir það að taka áhættur. Það er eiginlega alveg sama hvernig áhætta það er hvort að þær eru tilfinningalegar, fjárhagslegar eða allar áhættur bara. Þarf helst að sjá skrefin, vita viðbrögðin en það er jú ekki alltaf hægt. Ein mæt vinkona maddömmunar sagði henni einu sinni að maður ætti að stefna að því að gera eitthvað nýtt/öðruvísi á hverjum degi til að festast ekki í viðjum vanans. Það þyrfti ekki að vera neitt stórvægilegt bara að fara aðra leið í skólann/vinnuna (eitthvað sem maddömunni er t.d. meinilla við), sleppa sykrinum út í kaffið, lesa annað dagblað en vanalega og svo framvegis.
Maddaman hefur prófað þetta og þetta tekst ekki alltaf á hverjum degi en það er gaman að prófa að gera þetta meðvitað.

Engin ummæli: