þriðjudagur, september 20

Dýrið gengur laust....

Maddaman og Neðra-Hné fjölmenntu til dýralæknis í dag. Dýralæknirinn var reifur og kátur að vanda en hann hefur töluvert spé fyrir maddömunni! Maddaman taldi upp ýmsa kvilla sem að hún hefur safnað í sarpinn handa Dýra. En aðalkvillinn er þó Neðra-Hné sem að hefur nú verið eins og síamstvíburi maddömunnar í 14 mánuði tæpa. Dýri mældi Neðra-Hné með gömlu málbandi og eitt augnablik varð maddaman dauðhrædd um að hann ætlaði bara að sauma litla krossaumsmynd yfir bólstraða marblettinn og láta þar við sitja. En svæðið var of abstrakt og Dýri ráðlagði sónar fyrir Neðra-Hné til að reyna að kynnast holrúmi, kalki og 14 mánaða gömlu blóði sem gæti leynst þar. Í kjölfarið af því fimbulfambaði hann um skurðaðgerðir til að losa maddömuna við þetta lýti, en Dýri heldur að maddaman sé nútíma kvendi sem tilbúin sé að láta höggva, skera og plokka til að passa inn í kröfur nútímans. Maddaman útskýrði fyrir honum að maddaman hefði engan hag í því að þessi partur af skankanum liti eitthvað sérstaklega vel út, þar sem að maddaman væri hvorki atvinnufyrirsæta né strippari (þarna glotti Dýri svo hroðalega að sjá mátti alla samtímasögu tannlækninganna á einu bretti) og hún væri sérlegur andstæðingur þess að menn væru með hnífa á lofti að óþörfu nema í eldhúsinu.
Hins vegar hefðu steinolíuþerapíur gefist vel til skottulækninga í hennar fjölskyldu gegnum tíðina. En mál málanna væri það að maddaman kenndi ennþá til á þessu stykki 14 mánuðum seinna við ákveðnar aðstæður til dæmis iðkun íþrótta og í þau skipti sem að menn, hundar eða borðshorn sýna þessu svæði óþarfan áhuga. Maddaman og Dýri sammæltust um að gefa Neðra-Hné hálfs árs frest til að jafna sig og athuga þá með sónarinn.
Síðan kynnti Dýri að eigin frumkvæði skemmtilegan getnaðarvarnahring fyrir maddömunni sem að maddaman sýndi fremur lítinn áhuga enda skutlaði Dýri honum bara til baka aftur á stútinn á þvagflöskunni og sagði afsakandi við maddömunna að hann notaði þetta nú bara til að skreyta með stútinn! Maddaman sagðist fastlega hafa reikna með því hann notaði þennan hring ekkert sjálfur þar sem að hann væri sérstaklega ætlaður fyrir leggöng. Dýri hvatti svo maddömuna að lokum til að koma eins oft og hún þyrfti á að halda!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ohhh.. þú ert algert æði góða mín;)
Góður endir á annars erfiðum degi. Gott að hlæja smá upphátt áður en maður fer í háttinn!!!!!

Nafnlaus sagði...

Já, ein matskeið af steinolíu á fastandi maga á hverjum morgni er allra meina bót, það þekkir maður nú. Svo skilst mér að það sé líka gott að setja smá slurk út í baðvatnið til að mýkja stirða vöðva og slappa liði.

Kv.ElsaGuðný

SBS sagði...

Gott er að lundin léttist í öðrum heimsálfum;o)
Steinolían steindrepur allavega lúsina sem að grasserar hér hjá barnafjölskyldum!! En vissi ekki af þessu með baðvatnið;o)