laugardagur, október 21

Nágranninn........

Helst ber það nú til tíðinda að í kvöld um átta leytið er maddaman var að ljúka upp svítu sinni er maður nokkur að væflast í stigaganginum og segir hæ, maddaman hóar á móti og fer inn og losar sig við pjönkur sínar. Þá er dyrabjöllunni hringt og sá hinn sami maður bísperrtur fyrir utan dyrnar. Hann segir sínar farir ekki sléttar og að hann hafi ekki fengið útborgað í dag og hvort að maddaman sé aflögufær með að lána honum 300 krónur. Maddömuna rak í rogastans og veit ekki hvort að menn geta lifað eða dáið fyrir 300 krónur á heilli helgi, en sagði manninum að hún væri ekki með neina fjármuni á sér en gæti auðvitað hlaupið út í sjoppu til að bjarga þessu. Maðurinn vildi það gjarnan og maddaman fór út og sótti þessar 300 krónur og dinglaði hjá manninum (hvur maddaman aldrei hefur séð áður) og lét hann fá peninginn.
Maðurinn hyggst borga til baka um leið og betur stendur á.
Maddömunni veit ekki alveg hvort að hún er að opna lítið bankaútibú hér í sinni prívat forstofu eða hvað er um að vera, en óneitanlega er þetta spes.
En maddaman vill nú ekki hafa það á samviskunni að drepa nágranna sína úr hungri um helgar þó að hennar hugmyndaflug rúmi ekki hvað er hægt að veiða í matinn fyrir 300 kall! En maddömmusystir stingur upp á núðlusúpu á 18 kr stykkið í Bónus!!!!

4 ummæli:

Olga sagði...

Svo má líka skoða haframjöl. Það er nú drjúgt magnið af hafragraut sem maður getur eldað úr einum pakka.

Nafnlaus sagði...

Þú hlýtur að geta fengið eins og einn lítinn hraðbanka heim. En ég segi eins og þú, hvað ætlar maður að fá sér í matinn fyrir 300 ískr? Eina rækjusamloku og deila henni á helgina?
Ég verð að viðurkenna að forspár-lesgeta mín (svona þegar maður les það sem maður býst við þótt eitthvað annað standi í textanum) las 30.000 kr og hefði mér þótt það eðlilegri upphæð til að lifa af eina helgi í Reykjavík!

Nafnlaus sagði...

Gaman að vera búin að uppgötva bloggsíðu Maddömmunnar. Hún fær mann til að lyfta munnvikunum og létta lundina. Gott að vita af þessu meðali. Frábært hjá þér frænka sæl.

Kv. Gyða Gutt

SBS sagði...

Takk fyrir góðar kveðjur!
Já ég hefði nú kannski sloppið með 3000 krónur!!!!
En þetta verður framhaldssaga....
kv.