þriðjudagur, júní 14

Skúbb

Það herjar einhver óþokkalýður hér á stúdentagarðana núna og fyrir utan innbrotin sem voru framin hér um daginn þá hafa einhverjir piltungar verið að labba um og taka í hurðarhúna og gá hvort að það sé opið og jafnvel fylgjast með hvort að fólk sé á leið í þvotthúsið. Þess vegna er maddaman að reyna að venja sig á að læsa líka þegar hún er inni í íbúðinni, en það hefur hún aldrei annars gert nema á nóttunni og þegar farið er í sturtu ! Hins vegar hefur það komið fyrir að ruðst hafi inn færeyskir drengir sem farið hafa hæðavillt á leið í partý upp á 7 hæð til Jóhanns færeyings sem að býr fyrir ofan maddömuna í sömu gerð af íbúð. Jóhann kom líka sjálfur daginn sem að öll Kaupmannahöfn var rafmagslaus í 8 klukkutíma og gómaði maddömuna við að skipta um peysu í forstofunni og var hinn versti yfir hvað maddaman væri að gera heima hjá honum og búin að færa til húsgögn og allt í íbúðinni! Jóhann sem er örmjór með afar óklæðilegt yfirvaraskegg og les guðfræði og hebresku ( gífurlegir atvinnumöguleikar í Færeyjum!!), hlýtur að breytast í eitthvert partýljón um helgar miðað við átroðninginn af þessum kunningjum. Á laugardaginn situr maddaman á skrafstólum við gest þegar hún heyrir umgang og snarast fram í forstofu. Þar stendur maður steinrunninn með viskíkryppling undir hendinni og skimar í kringum sig. Maddaman spyr hann hvað hann telji sig vera að gera og maðurinn fer alveg á límingunum við ekki blíðlegt ávarp maddömmunnar en stamar út úr sér að hann sé á leið í partý til Jóhanns. Gesturinn taldi ekki ólíklegt að manntetrið hefði þurft einhverskonar áfallahjálp eftir þessa yfirhalningu maddömunnar!
En talandi um þetta þá er danska lögreglan með mikið skúbb í innbrotsmálinu ógurlega. Nágranni maddömunnar var kallaður á þeirra fund á laugardaginn til þess að þeir gætu sýnt honum appelsínugula hettupeysu og hvort hann kannaðist við hana!!! Á þriðjudaginn ætla þeir að vera búnir að handtaka alla í appelsínugulum hettupeysum í Kaupmannahöfn og föndra myndamöppu handa honum til þess að gá hvort að hann geti fundið haus í peysuna. Þvílíkur skrípaleikur að kalla fullorðið fólk mílur vegar til þess að skoða einhverjar tuskur og boða menn svo aftur til fundar þremur dögum seinna.

Engin ummæli: