miðvikudagur, júní 22

Maddaman hefur greinilega náð sér upp í blogghæðir því að tvö blogg sama daginn er nú óvenjulegt!
Vinkona maddömunnar sem flutt er til borgar bleytu og óttar kvartar sáran yfir því að makaleysi hennar fari mikið fyrir brjóstið á samferðafólki hennar. Hún er svo ólánssöm að mati samferðamanna sinna að vera makalaus og er henni nuddað upp úr þessu daginn út og daginn inn ásamt kommentum um að konur á hennar aldri ættu nú ekki að vera með sítt hár!
Það er nú ekki laust við að maddaman hafi fengið smjörþefinn af þessum söng gegnum tíðina.
Það voru skýr skilaboð um það þegar maddaman færi til útlanda að hún mætti ekki ná sér í danskan mann því að þá kæmi hún örugglega aldrei heim til íslands aftur ( fyrir austan sigldu nebbilega prestdætur stundum og giftust merkum dönum og sáust aldrei síðan en það var víst fyrir daga beina flugsins frá Kaupmannahöfn til Egilsstaða !!!)
Maðurinn á helst að vera hvítur eins og tunnumaðkur og sjálfsögðu verður hann að vera með íslensku tali! Hann má alls ekki eiga ættir sínar að rekja til hryðjuverkamann og eftir því sem maddömunni heyrist er synd að hún skyldi ekki vera samferðamanneskja Jesú Krists því að hann hefði sennilega komið sterklega til greina! (þetta með að kunna að breyta vatni í vín myndi vekja sérlega lukku í fjölskylduboðum!
Það er ber vott um frekar mikla þröngsýni að allir þurfi að vera í nákvæmlega sama farinu og lýsir kannski þessum gríðarlega smáborgararahætti íslendinga sem að þó vilja telja sig mikla heimsborgara.
Morgunblaðið kyndir undir þessu með að birta kannanir sem að segja gift fólk hamingjusamara og langlífara, í betri holdum og stunda meira kynlíf samkvæmt könnunum morgunblaðsins! Hið síðasta hlýtur nú að vera nokkuð sjálfgefið! Síðasta melding frá Morgunblaðsmönnum var að halda því fram að maddaman væri komin yfir meðal giftingaraldurinn sem ku vera 28 ára hjá kvenfólki en 30 ár hjá karlmönnum á Íslandi og hefur farið ört hækkandi.
Þetta æsir bara hamingjusama gifta fólkið í góðu holdunum upp í því að vera með allar klær úti við að kynna misjafnlega fráskilda bræður sem eru nú kannski ekki alveg gallalausir, dularfulla frændur sem eru kynntir eru til sögunnar sem" voða góður en sérstakur strákur" sem útleggst á maddamísku sem "tölvunördar sem eru algerlega veðurtepptir í mannlegum samskiptum og hafa aldrei verið við kvenmann kenndir" sem og afgamla "þroskaða" ( forpokaða) piparsveina sem að halda að snípurinn sé sjaldgæf fiðrildategund ( að undanskildum Kvískerjabræðrum þó en það skal tekið fram að þeir eru áhugamenn um fiðrildi, ekki er vitað um hitt!) og bara allt karlkyns sem að gengur laust! Boðskapurinn er að það verði bara að taka því sem býðst þegar maður sé komin á "þennan aldur" eftir því sem maddömmunni skilst fyrirfinnst orðið -líf með öllum forskeytum víst bara ekki eftir þrítugt! Málið er bara að þetta er engin brunaútsala þetta hjónaband, það er ekkert lagt upp bara með því að finna eitthvað og skítt með það hvort að það sé pínu brunnið eða götótt eða bilað. Maddaman trúir heldur ekki á ástina frekar en geimverur. Hins vegar trúir maddaman á það að tilviljanir ráði miklu um val lífsförunautar, hverjir eru hvar hvenær og eftir hverju eru þeir að leita. Enda heldur maddaman að hagkvæmnishjónabönd sé besta fyrirkomulagið á hjónaböndum, þessi ca. 60 ár sem að mannskepnan hefur verið að þreifa sig áfram í að stofna til hjónabands sökum óviðráðanlegar nýrnaveiki (alias ást) þá hefur skilnuðum fjölgað til muna! En maddaman segir eins og byggingarlánasjóður heitinn (eða er hann það ekki) allar umsóknir skoðaðar en réttur er áskilinn til að hafna öllum tilboðum"

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábært alveg.... Var samt að spá hvort þú vissir hver hámarksaldurinn fyrir sítt hár er. Er nefnilega að fara í klippingu í vikunni og hef á tilfinningunni að ég sé farinn að nálgast hámarkið... vill ómögulega vera að sjokkera fólk. Gæti kannski verið að hámarksaldurinn breytist eftir hjúskaparstöðu, eða hvað?

RT

Nafnlaus sagði...

Sæl og blessuð!

Vildi bara skilja eftir mig verksummerki hér á síðunni hjá þér. Slysaðist inn á þessa frábæru síðu fyrir nokkrum dögum og er búinn að vera að lesa allt í smáum skömmtum -svona eins og versti staulker! Engar áhyggjur samt. Er búinn að setja tengil á þig á síðunni minni með sérstökum meðmælum ;) Og ég horfi líka á listhlaup á skautum!!!

Bestu kveðjur frá Lundúnum,
Reynir (fyrrverandi KUAnemi)
www.blog.central.is/reynsiboy

Nafnlaus sagði...

Þakka línkinn og heiðurinn kæri Reynir, ótrúlegt hverning menn villast hérna inn! Maddaman endurgeldur aldrei línka, hennar blogg er ekki sniðið að því!
Bestu kveðjur til Londons eins og manðurinn sagði!
Maddaman

Nafnlaus sagði...

Sæl aftur! Ætlaðist nú ekki til að maddaman endurgeldi linkinn, setti bara slóðina mína með til að maddaman sjálf gæti kíkt á mína síðu ef hana langaði! Bestu kveðjur aftur frá Londoni (er reyndar að koma til Köbens um helgina), Reynir.