miðvikudagur, október 12

Paranójur og skeptíkur (ný tíkartegund)

Tæknimenn maddömunnar segja að það sé lygileg umferð á þessari síðu.
Hummmm....... maddaman er strax skeptísk og er hrædd um að Stasi sé að fylgjast með henni, svarnir óvinir hennar séu að safna í sarpinn til að nota gegn maddömunni þegar hún verður orðin frú fræðingur, gamlir ástmenn séu "með hefði átt að kunna gott að meta" glott yfir ofsóknum Pakistans og annara morubotna, og yfir höfuð séu menn að safna glóðum til höfuðs maddömunni. En þetta hljómar dálítið eins og brot úr Píslarsögu Jóns Magnússonar.
Annars er gott að vera rolla hér núna sökum mikillar blíðu og það er líka gott að vera vínþrúga vegna sólarinnar( minni sykur í vínið) og síðast en ekki síst er gott að vera Maddama í Köben!

Annars ef að menn vilja fá komment þá verður maddaman alltaf að skrifa eitthvað krassandi og nú kemur sagan sem maddaman var eiginlega búin að lofa sjálfum sé að blogga ekki um af því að hún brýtur í bága við mörg af hennar fágætum prinsíppum en hún hefur vakið svo mikla lukku í munnmælum að nú getur maddaman ekki stillt sig lengur.

Á þessum tíma í fyrra reyndar aðeins fyrr þá var maddaman mjög hrjáð af magaverkjum og undarlegum úrgangi. Þetta upphófst í lok Bandaríkjareisu maddömmunar og hélt áfram í mánuð eftir heimkomuna. Þetta fannst maddömunni gríðarlega mikið ófremdar ástand og ákvað eftir 3 vikur af þessu endurtekna efni að vitja títtnefnds dýralæknis.
Var hann sóttur heim og kynntur fyrir þessari skemmtidagskrá, jafnframt teoríum um að amöbur og bandaríks sníkjudýr væru að hreiðra um sig í rúmgóðum þörmum maddömunnar. gaf lítið fyrir það, taldi maddömuna hafa verið í svo góðu appelsínufylki (smekkmanneskja) að engin hætta hafi verið á dýrum sem að sníkja.
Hins vegar var alveg nauðsynlegt að fá sýni úr maddömunni til að skoða þetta mál.
Ekki leist maddömunni nú sérlega vel á það af mörgum ástæðum sem óþarft er að tíunda hér. Allt um allt dregur Dýri upp sérlega vandaða plasthólka ekki ósvipað töluhólkunum í vefnaðarvörubúðum og skenkir maddömunni.
Maddaman spurði Dýra varlega hvað ætti að gera af hólkunum þegar búið væri að koma þar til gerðu stöffi í þá (sá fyrir sér að dýri analyseraði þetta á eldhúsborðinu á kvöldin við léleg birtuskilyrði). Já bara að bíða hæg hérna, því að nú væri hann að veiða upp úr skúffum sínum sérhannað umslag til að pota hólkunum í og svo ætti maddaman barasta að senda þá með dönsku póstþjónustunni!!!! Maddaman sem að oft hefur lesið Sögu Landpóstanna og vissi að margt var á þá lagt allt frá ástarbréfum til hangikétslæra og að þeir hefðu marga fjöruna sopið en hún hafði sannarlega aldrei heyrt þess getið að þeir hefðu ferðast um með saursýni milli landshluta.
Eins og gefur að skilja hefur maddaman frábeðið sér allar matarsendingar frá gamla landinu og forðast illa lyktandi reikninga eins og heitan eldinn!
Þegar farið var að kryfja Dýra um útkomuna á sýninu kom í ljós að þessi stofnun var verulega interesseruð í allavega tveimur sýnum til viðbótar. Daginn eftir að þær upplýsingar bárust snarbatnaði maddömunni og hefur ekki kennt sér nokkurs meins síðan!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú gleymdir bara að fjalla um frétt sem birtist heimsbyggðinni á haustdögum þess efnis að 10-20% af dönskum pósti kæmist yfirhöfuð ekki til skila - hvað skyldu mörg prósent póstlagðra saursýna daga uppi ellegar týnast hjá dönsku póstþjónustunni......
Maddömusystir - örugg í landi þar pósturinn tekur "allan pakkann" og kukkur er afhentur brúnaþungum meinatæknum yfir borðið.....