þriðjudagur, júní 7

Inside-outside

Maddaman hefur verið að strákast til að horfa á Innlit-Útlit þættina á netinu ef að andleysið hefur verið algert. Það er skemmst frá því að segja að maddaman er ekki hissa þó að íslendingar séu yfir á yfirdrættinum eins og maddömmusystirin orðar það svo snilldarlega. Fólk er með sérfræðinga og iðnaðarmenn í öllum sköpuðum hlutum og puntaðar konur á leðurklofstígvélum hlaupandi út um allan bæ á launum við að leita að einhverjum sérstöku hingað og þangað til að vera öðruvísi en vinahópurinn en samt eru allir á sömu leðurstígvélunum við þetta snatt og bera sama draslið úr býtum! Takið samt eftir því að þetta er bara við framkvæmdir innanhúss, svo eru menn með landslagsarkitekt á launum við að rótast í garðinum, leðurklofstígvélakonan skreppur og finnur einhverja viðurstyggilega dverga og smáhýsi sem að harmónera við "innkomuna í forstofuna" Svo er sérhannaður gosbrunnur og tjörn af þar til gerðu fólki en heimilisfaðirinn lætur sig kannski hafa það að berja saman sólpalli sjálfur ef að Visa- kortið er orðið þurrausið!
Síðan er yngsti fjölskyldumeðlimurinn með svefnráðgjafa til að hægt sé að bæla hann niður á kvöldin vegna þess að hann æsist svo í ungabarnasundinu og ungbarnatónlistartímanum og þó að hann sé í ungbarnanuddi róast hann samt ekki nóg til að sofna á kvöldin! Eldri börnin eru hjá skólasálfræðingum og ýmsum fræðingum í íþróttum og tónlist að maður tali nú ekki um skólann, foreldrarnir hjá einkaþjálfa, sjúkraþjálfara, næringarráðgjafa og hjónabandsráðgjafa, og í rannsóknum við fótaóeirð sem ku vera það heitasta núna! Enda löngu búið að greina alla með brjósklos og bakflæði og allir búnir að fá innlegg hjá Össuri. Fjölskyldan er að sjálfsögðu með endurskoðanda fyrir bókhaldið og þjónustufulltrúa í bankanum sem sér um að dreifa innkomunni passlega á viðkomandi iðnarmenn og fræðinga.
Síðast en ekki síst eru foreldrarnir sitt í hvoru lagi hjá sálfræðing til að losna við spennu sem ekki er hægt að losa um hjá hjónabandsráðgjafanum, því að þar eru báðir aðilarnir í hjónabandinu til staðar af því að það er eimitt verið að bjarga hjónabandinu!
En hagkerfið blómstrar sem aldrei fyrr...skítt með það þó að menn séu á vænum skammti af valíum til að meika daginn- enda er valíum líka hluti af hagkerfinu.

4 ummæli:

Inga sagði...

Bráðsmellið og dagsatt. Það er allt að fara til fjandans og maður er sokkinn með.. en kann samt neysluhyggjugagnrýnina utanað. Maður er svo vitlaus.....

Inga sagði...

... ekki nóg með það.... ég er búin að pirrast lengi yfir því að vera ekki með Skjá1 og geta þar af leiðandi ekki horft á Innlit/Útlit... svo er þú bara í góðum gír í DK á netinu að "fræðast"? Ps. Til hamingjumeð nýja starfið :-)

Nafnlaus sagði...

...ha ha ... þú gleymir þó einu og það er höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun sem við fórum í að hætti úrræðalausra foreldra með 4 mánaða son okkar í gær... þessi jöfnun átti að leysa öll okkar vandræði.. en varð til þess að hvorugt okkar svaf dúr í nótt.. svona er Ísland í dag!

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir hamingjuóskirnar Inga...en því miður er maður með í kauphlaupinu!!!
Elfa ég vissi bara ekki af þessu nýja trendi sem að greinilega leysir þó ekki allan vanda!!
Maddaman sjálf