fimmtudagur, september 22

Klukk

Maddaman rak augun í það áðan að Hjalti góðvinur hennar hefur klukkað hana og þá á viðkomandi að telja upp fimm staðreyndir um sjálfan sig.

1. Maddaman var orðin 27 ára gömul þegar hún fékk uppáskrifuð sýklalyf í fyrsta skipti. Það var þegar Neðra-Hné kom til sögunnar og það dugði ekki minna en þrír skammtar til að sjatla það mál.

2. Maddaman er eins og sá sem klukkaði hana með hægri fótinn styttri og það uppgötvaðist sömuleiðis þegar hún var 27 ára og hún gengur líka með innlegg....þegar hún þarf ekki að vera í pæjuskóm sem er mjööög oft!

3. Maddaman var á heimavistarskóla frá því að hún var 7 ára þar til hún var 21 árs gömul þó með eins árs hléi þegar hún var í 4. bekk í ME. Maddaman deildi alltaf herbergi með öðrum og telur það vera ástæðuna fyrir því að hún hefur aldrei prófað sambúðarform síðan. Kvótinn er sennilega bara búinn!

4. Maddaman kunni alla stafina þegar hún var 3 ára og var allæs þegar hún var 4 ára. Hún hafði aðgang að bókasafni foreldra sinna sem að var ekki bara fyllt með barnabókum. Þess vegna las maddaman Íslenskar ljósmæður þegar hún var 7 ára, slóst við maddömmumóðurina um Dalalíf þegar það var endurútgefið og las ævisögu Lárusar í Grímstungu með áfergju þegar hún kom út.
Maddaman les ennþá mikið en er yfirleitt ekki hrifin af bókum sem að fjöldinn er að rifna yfir. Eins og til dæmis Da Vinci lykilinn. Ein af aðalástæðum þess að maddaman hlakkar til að flytja á klakann aftur er að maddaman getur lesið upp öll árin sem að hún er búin að missa úr í íslensku bókunum!

5. Maddaman ætlaði sér að verða rithöfundur þegar hún var yngri og innblástur af ljósmóðurbókalestrinum gerði líka að verkum að hún var að hugsa um að verða ljósmóðir. Ljósmóðir verður hún ekki úr þessu en rithöfundardraumurinn er enn til staðar en gallinn er bara sá að maddömunni finnst vera búið að skrifa allt sem þarf að skrifa. En eins og er er maddaman harðánægð með að vera alveg að verða talmeinafræðingur!

Maddaman klukkar Elsu frænku sína, systurdætur sínar báðar, Perlu frænku sína og Gazza spassa og er hann þó ekki í frændgarðinum!!

Engin ummæli: